07.03.1949
Efri deild: 71. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í C-deild Alþingistíðinda. (3739)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Það eru ekki neinar sérstakar gleðifregnir, sem ég hef að færa frá n. eða þeirri eldskírn, sem frv. fékk hjá henni, þ. e., eins og nál. ber með sér, að 3 nm. voru ekki tilbúnir að taka afstöðu til málsins, og við erum því tveir eftir til þess að mæla með því, og hvorugur með samvizkunnar mótmælum.

Ég verð að telja, að þetta frv. sé virðingarverð tilraun til þess að ráða bót á því, sem illa hefur farið, og þar eru allir nm. á einu máli um, að allt sé undir því komið, að heppilega fari um val á manni í þessa stöðu, því að ef ekki er valinn heppilegur maður til starfans, þá er mikið spursmál um gagnsemi þessa máls. Ekkert er um það ráðið, svo að n. viti til þess, hver valinn verður í þessa stöðu, en mér heyrist það á nm., að þeir séu að hugsa um að grennslast fyrir um það hjá hæstv. fjmrh. þegar við þessa umr. En ég veit það, að hver svo sem maðurinn verður, þá verður fjárhag ríkisins ekki komið í lag á einum degi, enda var Róm ekki byggð á einum degi. Ef þetta er varfærinn og samvizkusamur maður, þá ætti að liggja fyrir þessum ríkisráðsmanni — þessum réttláta ráðsmanni ríkisins — opnara en öðrum, hvað ætti að spara og hvar ætti að spara. Hann gæti síðan samið fyrir ráðh. frv., sem miðaði að sparnaði í rekstri ríkisins, t. d. um að leggja niður embætti eða starf, sem ekki væri nein þörf á að hafa. Það kann og að virðast svo, að það sé ekki mikill sparnaður að því, þó að hægt sé að fækka einum og einum embættismanni eða starfsmanni. Þó að ég sé einn þeirra, sem ekki er viss um, hve mikið er hægt að spara með þessu, þá tel ég það sjálfsagt, að frv. sé fylgt fram, en að snúa aftur, það má ekki ske, og við 2 nm. leggjum þess vegna til, að frv. verði samþ. óbreytt, en ef fram kemur brtt., þá er réttara að athuga hana og taka það sem betur má fara. Ég geri ráð fyrir því, að fleiri vilji kveðja sér hljóðs og láta skoðun sína í ljós, en ég legg til, að frv. verði samþ., eins og sjá má af nál.