07.03.1949
Efri deild: 71. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í C-deild Alþingistíðinda. (3744)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það hafa orðið langar umr. út af þeim fáu og meinlausu orðum, sem ég lét hér falla. En það er eðlilegt, eins og ástandið er orðið í fjármálum ríkisins, að hæstv. fjmrh. haldi því fram, að hann hafi ekkert vald. Ég vildi gjarna, að hæstv. fjmrh. hlustaði á mál mitt og færi ekki út (Fjmrh.: Ég hlusta á hv. þm., en mér er frjálst að hreyfa mig.) Það er eðlilegt, að hann haldi því fram, að hann hafi ekkert vald haft, því að hefði hann haft það, yrði dómurinn ægilegur, eins og ástandið er nú. En má ég spyrja, hvernig stendur á því, að prýðilegt lag hefur verið á þessu fram á síðustu ár og ágætt eftirlit? Ég er ekki að halda því fram, að það eigi ekki að vera, síður en svo.

Ég skal þá svara þessum atriðum, sem fram hafa komið. Hv. þm. Barð. þótti afgreiðsla þessa frv. einkennileg. Ég get sagt honum, að það var af hentiástæðum, að frv. var afgr. þannig af n. Það þótti ekki ástæða til að snúast gegn frv., sem stj. flutti, og skila meirihlutanál. á móti því, þess vegna var þessi afstaða tekin. En hv. þm. fannst líka einkennilegt, að ég væri á móti frv., sem stj. ber fram. (GJ: Nei, sem stefnir að því að spara útgjöld ríkissjóðs.) Ég vil bara benda á það, að þessi hv. þm. talaði fyrir nokkru síðan á móti frv. stj. um að flytja inn skip til landsins, sem þegar var búið að flytja inn. Ég er undrandi yfir því að heyra það af munni nokkurs þm., að þm. megi ekki vera á móti stj. Það er einkennileg kenning og andstæð stjskr., sem mælir svo fyrir, að þm. skuli eingöngu bundnir við sannfæringu sína. Hv. þm. Barð. sagði þó, að hann væri mér sammála um það, að ráðh. hefði vald til þess að skipa þessum málum. Finnst honum þá undarlegt, þó að meiri hl. n., þar á meðal tveir lögfræðingar, flýti sér ekki að taka afstöðu? Ef ráðh. hefur þetta vald, þá þarf ekkert frv. Það þarf engan að furða, þó að n. hlaupi ekki til og samþ. þetta frv., sérstaklega ef þess er minnzt, sem gerðist í fyrra, er því var yfir lýst, að enginn starfsmaður yrði framvegis ráðinn nema með leyfi fjmrh., engum mætti bæta við nema með samþykki hans. Skrif birtust um þetta í stjórnarblöðunum, Morgunblaðinu og fleiri blöðum, og skrifaðir voru um það tveir eða þrír leiðarar. Nú loks átti að breyta um fjármálastefnu, og ráðh. ætlaði að beita valdi sinu til þess. En hvað varð úr þessu annað en vindur í vatnsglasi? (Fjmrh.: Ýkjur í munni hv. þm.) Hvað mörgum starfsmönnum hefur verið bætt við? Vitanlega vita allir, að stjórnskipunarvaldið er hjá ráðh. Starfsmennirnir hafa vald sitt frá ráðh., hann frá þinginu og þingið frá fólkinu. Þetta getur ekki svifið í lausu lofti. Það er hafið yfir allan efa, eins og hv. þm. Barð. játaði, að um leið og hæstv. fjmrh. tók við, gat hann fyrirskipað skrifstofustjóra sínum eða einhverjum fulltrúa hans að hefjast handa í þessum efnum. Þetta er tvímælalaust, því að ráðh. hefur vald til þess að gefa ekki út ávísanir fyrir launum, nema embættið sé samkvæmt landslögum. Heimildin er til, og það er því óþarfi að standa upp og tala um þetta eins og eitthvað nýtt. Ráðh. hefur haft þetta vald og hefur það, þó að nú fyrir kosningar sé talið heppilegt að láta eins og hann hafi það ekki. Ef starfsmenn eru ráðnir, án þess að það sé samkvæmt l. frá Alþ., getur ráðh. neitað, en ef þeir eru ráðnir samkvæmt l., þarf að leita til þingsins til þess að breyta l., svo að ráðsmaðurinn skiptir engu í því sambandi. Eins er um þær fjárveitingar til landbúnaðarins o. fl., sem hæstv. ráðh. talaði um. Ráðh. ræður engu um þau útgjöld, sem bundin eru í l. (Fjmrh.: Það er misskilningur hv. þm., að ég hafi haldið því fram.) Hæstv. ráðh. sagði, að ég þekkti kannske einhver ráð í þessum efnum. „Hvaða fangaráð þekkir hv. þm. Str.?“ spurði hann. Já, hvaða ráð eru yfirleitt til? Fjármálin eru komin í slíkt öngþveiti, að það er ekki til nein auðveld lækning, en varðandi þetta mál þá er ráðið að skipta um fjmrh. Dugandi fjmrh. mundi leysa þetta mál, því að valdið er til, og ef starfsfólk hans er ekki fært um að inna þetta af hendi, þá er að skipta um starfsmenn eða að ráða mann við hlið skrifstofustjórans til þess að framkvæma þetta. Annars vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann getur gefið mér upplýsingar um það, hvort til er nokkurt lýðræðisríki, sem er stjórnað án fjárl. (HV: Annað en Ísland.) Já, annað en Ísland. Sú spurning ein getur vakið menn til meðvitundar um það, hvernig ástandið er. Væntanlega á ráðsmaðurinn ekki að semja fjárl.? Ég ætla svo ekki að ræða þetta nánar, en það, sem ég hef sagt beint og óbeint, og spurningin, sem ég hef varpað fram, sýnir bezt, hvernig þessum málum er komið. Það getur verið hagkvæmt nú að halda því fram, að það vanti ráðsmann, en eins og ég hef sýnt fram á, er það ekki þar, sem skórinn kreppir að. Það skal ekki standa á mér að styðja framkvæmdir hæstv. ráðh. í þessum efnum. En að flytja um þetta sérstakt frv., þegar valdið er fyrir hendi, hefur á sér svo mikinn sýndarblæ, að ég nenni ekki að taka þátt í því. Eins og hv. 1. þm. N-M. benti á, hefði líka þurft að taka inn í frv. ákvæði um réttindi og skyldur embættismanna, því að ef slík ákvæði eru ekki tekin inn í það, hefur ráðsmaðurinn svo takmarkað vald, að hann getur litlu um þokað. (Fjmrh.: En ráðh. getur allt.) Hér er reglugerð,. sem fyrrverandi stj. setti um þessi efni, ráðh. hefur þar valdið og getur breytt henni, en reglugerðinni hefur aldrei verið breytt. Er það ekki merki þess, að þetta er ekki meint eins alvarlega og látið er í veðri vaka? — Niðurlagsorð mín eru: Ég er reiðubúinn að fylgja þeim ráðstöfunum, sem hæstv. ráðh. hefur vald til að gera, hvort sem um það er að ræða að skipa sérstakan mann eða sérstaka deild til þess að hafa þetta með höndum. Þetta hefði átt að gera fyrir löngu. En ég sé ekki ástæðu til að samþ. þetta frv., sem hefur á sér slíkan sýndarblæ, eftir það, sem á undan er gengið. Fyrst reglugerðinni um vinnutímann hefur ekki verið breytt, er það augljóst mál, að frv. er bara flutt til þess að sýnast. Það er áþarfi að gera veður út af því, að ég og aðrir, sem eru á móti frv., séu á móti því, að gerðar séu ráðstafanir í þessum efnum. Ég hef alltaf verið með því, að þær væru gerðar, og það hefði átt að gera þær fyrir löngu síðan, en það er óþarfi að flytja málið í því formi, sem hér er gert. Ég vænti svo þess, að hæstv. ráðh. svari því, hvort hann þekki nokkurt annað lýðræðisríki en Ísland, sem stjórnað er án fjárl. Það er væntanlega ekki meiningin, að ráðsmaðurinn eigi að ganga frá fjárl. og sjá til þess, að þau séu samþ. á réttum tíma?