08.03.1949
Efri deild: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (3751)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Það er út af því, sem komið hefur fram í ræðum hv. þm. Str. og hv. þm. Barð. um það, að þegar væru til allar heimildir, sem felast í þessu frv. og miða að því að veita framkvæmdavaldinu verkfæri í hendur til að draga úr eyðslu, og þá óhóflegri eyðslu í fyrsta lagi. Ég bendi þá á það, að þegar afgr. voru fjárlög fyrir árið 1948, þá var gerð ályktun á 22. grein, XXXV. lið, þar sem ríkisstj. er heimilað að ákveða, að fjölgun starfsmanna ríkis og ríkisstofnana skuli vera háð samþykki fjmrh., þar til, sett verði lög um ráðstafanir til þess að draga úr kostnaði við opinberan rekstur. Þetta er rödd Alþingis við síðustu fjárlagaafgreiðslu. Og hvað er þá að marka það, sem hér hefur nú komið fram, ef þessi ályktun Alþ. er réttmæt? Þessi heimild nær aðeins til þess, að ráðh. má standa á móti fjölgun opinberra starfsmanna, þar til lög verða sett um ráðstafanir til að draga úr kostnaði við opinberan rekstur. Þetta segir Alþ. Og ég vil ekki ætla, að hv. þm. vilji halda því fram, að Alþ. sé að gera gersamlega ónýtar og þarflausar ályktanir, en það gera þeir með því að segja, að allar heimildir séu þegar fyrir hendi í þessu efni og allt, sem aflaga fer, sé eingöngu ódugnaði ráðh. að kenna. En hví eru heimildinni á síðustu fjárlögum þá sett þau takmörk, sem raun ber vitni? Það er alveg auðséð, að hún er samþ. aðeins til bráðabirgða, og í beinu framhaldi af henni hef ég látið undirbúa þetta frv. og í framhaldi af þál. frá 1945. Ég ætla, að þetta sé svo ljóst, að fullyrðingar um það, að ráðh. hefði alltaf getað framkvæmt það, sem stendur í þessu frv., séu þar með slegnar niður, nema menn vilji ómerkja Alþ. að ályktunum þess. Þetta frv. hef ég látið undirbúa í beinu framhaldi af og í samræmi við ályktun Alþ. á fjárlögum síðasta árs, sem ég nefndi áðan, þar sem beinlínis er gert ráð fyrir, að sett verði lög um ráðstafanir til þess að draga úr kostnaði við opinberan rekstur, og heimild ráðh. til að standa á móti mannfjölgun er aðeins til bráðabirgða, eða þar til slík lög eru sett. Og enn fremur er frv. í framhaldi af ályktun Alþ. frá 1945. En þá ber það við, að sá ráðh., sem vill nú framkvæma áður yfirlýstan vilja Alþ. í þessu efni og setja lög í samræmi við hann, sá ráðh. fær ekkert nema hæfileg olnbogaskot í þessari hv. d. og aðdróttanir um, að hann hafi farið öfugt að og hann hefði átt að gera þetta allt saman sjálfur, sem um ræðir.

En það er nú einu sinni svo, að menn eru misjafnlega djarfir að beita valdi út á yztu nöf, jafnvel þó að þeir sitji í ráðherrastóli. Það hefur verið nefnt hér dæmi um það, að hv. þm. Str. stofnaði hér embætti í sinni ráðherratíð í algerri lögleysu. Það getur hefnt sín illa að fara út fyrir valdsvið sitt. Ég skal nefna annað dæmi, það er viðvíkjandi ríkisprentsmiðjunni Gutenberg, sem að allra manna dómi er rekin af sérstökum dugnaði og forsjá. Hv. þm. Str. var þá dómsmrh. og gaf út bréf 10. maí 1942 og gerði þar ráðstafanir til að leigja þetta ríkisfyrirtæki 10 manna hóp úti í bæ. Í hvaða tilgangi var þetta gert? Ekki til að bjarga fjármunum ríkisins, þar sem fyrirtækið bar sig vel, og ekki mun þessi ráðstöfun hafa verið borin undir þáverandi fjmrh. En það vildi svo vel til, að Jakob Möller kom í sæti dómsmrh. og hnekkti þessari ráðstöfun sem algerri lögleysu. Þannig var það. Hv. þm. Str. fór út fyrir valdsvið sitt sem ráðh. og gerði það, sem hann hafði ekki leyfi til að gera, og því var hnekkt af næsta valdsmanni í ráðherrastóli. Ég held, að lögskýringar slíkra manna um valdsvið ráðherra séu dálítið hæpnar með slíka fortíð að baki. Ég hef nú aðeins nefnt tvö dæmi úr ráðherratíð hv. þm. Str., og hætt er nú við, að það hefði verið kallað brask, ef þm. og ráðh, úr öðrum flokki en Framsfl. hefði tekið sig til og leigt slíka stofnun sem Gutenberg á bak við lög og rétt. En í augum hans sjálfs hefur þetta sjálfsagt verið réttmætt, annars hefði hann ekki lagt út í þetta.

Þá minntist hv. þm. Str. á heimild til að sameina embætti forstjóra áfengiseinkasölunnar og tóbakseinkasölunnar. Ég man nú ekki eftir neinni heimild í lögum til þess, en það er hugsanlegt, að mér hafi sézt yfir það, því að ég er ekki lögfróður maður. En ég kannast ekki við, að þetta hafi verið lögfest. Hins vegar hefur verið gerð þál. um þetta, en þál. eru ekki lög, það er sitt hvað, eða það hefur mér ætíð verið kennt. Eigi það því að skiljast sem trassaskapur af minni hálfu að sameina ekki þessi embætti, þá er það sjálfsagt af því, að ég hef ekki talið nægilegar löglegar heimildir fyrir því.

Það er nú komið hér dálítið annað hljóð í strokkinn en var í gær, dálítil veðrabrigði, að því er þann sjúkdóm snertir, sem hér er til umr., áþarfa eða of mikla eyðslu í ýmsum stofnunum og óhóflega þenslu, sem allir telja — og má telja böl og sjúkdóm. Í gær var þetta samkv. áliti hv. þm. Str. algerlega nýtilkomið. Það var allt í prýðilegu lagi, sagði hv. þm. Str., þangað til nú á allra síðustu tímum, og í sambandi við það annað, sem hann var að segja, mátti skilja, að fyrst hefði farið í ólag, þegar ég settist í ráðherrasess. En nú segir hann í sínum niðurlagsorðum, að þessi sjúkdómur sé í fjármálum okkar og hafi verið það lengi. Ég er algerlega sammála hv. þm. Str. um það, að þessi sjúkdómur er ekki nýr, hann hefur verið lengi í fjármálum okkar, og það er einmitt það, sem ég legg fram við þessar umr., að hann hefur verið hér lengi og allt of lengi, og það er ákaflega gott, að hv. þm. Str. hefur nú áttað sig á þessu, þótt hann í umr. í gær væri ekki búinn að fá augun opin fyrir því og vildi ekki við það kannast, af því að það passaði þá ekki í kramið að kannast við þetta. Það er einmitt út af því, að þessi sjúkdómur í fjármálum okkar hefur verið þar lengi, að fjvn. hefur hvað eftir annað verið með áminningar til Alþ. og ríkisstj. um að hefjast handa í þessum efnum, eins og hv. þm. Str. sannaði vel með því að lesa upp þáltill. Um spil og leik í sambandi við þetta mál skal ég ekki segja, ég er ekki með neitt spil eða leik, en sumir menn hér á Alþ. virðast líta svo á, að það sé pláss til að vera með leik og spil, þegar verið er að bera fram í lagafrv. margstaðfestar samþykktir og ályktanir frá sjálfu Alþ., eins og liggur fyrir í þessu frv.

Um ræðu hv. 1. landsk. hef ég lítið að segja. Hann hélt ósköp svipaða ræðu og við 1. umr., og vil ég ekkert vera að fara út í deilur út af því. En ég vildi aðeins mega spyrja hv. 1. landsk. út af skoðun hans á einræði, hvort hann er þeirrar skoðunar, að það sé einræði að gera það, sem stendur í 1. gr. frv., sem ég skal lesa upp, með leyfi hæstv. forseta: „1. að hafa eftirlit með rekstri ríkisstofnana og starfsmanna ríkisins, starfsaðferðum, starfsmannahaldi, vinnuafköstum og vinnuskilyrðum þessara aðila. 2. að leiðbeina ríkisstofnunum og ríkisstarfsmönnum um starfstilhögun og mannahald. 3. að gera tillögur til hlutaðeigandi ráðherra um bætta starfstilhögun og breytt skipulag og sparnað, sem við verður komið, þar á meðal um niðurlagningu eða sameiningu stofnana eða starfa.“

Þetta er á máli okkar ágæta þm., hv. 1. landsk., einræði. Ef einræði er svona fyrir hans augum, þá væri gaman að heyra, hvað hann álitur lýðræði. Ég skal svo ekki tefja tímann, ég sé að hæstv. forseti er farinn að gefa klukkunni auga. En að lokum vildi ég minna hv. 1. landsk. á það, að hans eigið flokksblað lýsti þessu frv., þegar það kom fram, þannig, að það væri skeleggasta tilraun til þess að koma á meiri sparnaði í ríkisrekstri, en í hans augum er þetta einræði og óþarft.

Ég vil svo að lokum þakka fyrir þær ábendingar til lagfæringar, sem hér hafa komið fram. Ég hef aldrei haldið því fram, að hér mætti ekki neinu um þoka og færa til betri vegar. Það, sem fyrir mér vakti með því að skipa sparnaðarnefndina og eins að gerast talsmaður fyrir þessu frv., er að vinna að því, sem hæstv. Alþ. er fyrir löngu búið að benda á, að það þurfi að koma meiri lagfæringu á þessa hluti í því skyni, að ríkissjóður gjaldi sem minnst afhroð af þeirri útþenslu, sem orðin er á ríkisrekstrinum.