10.03.1949
Efri deild: 73. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (3753)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef áður beðið hv. n. að athuga viss atriði þessa máls og ekkert svar fengið enn út á það. Ég hef spurt hæstv. ráðh., hvort hann gæti ekki hugsað sér að setja þennan embættismann, meðan væri verið að reyna hann, en skipa hann ekki strax. Við þessu hef ég heldur ekki fengið svar. Ég hef spurt hæstv. ráðh., hvað líði því frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sem Gunnari Thoroddsen var af forsrh. falið að semja fyrir nokkrum árum. Ég hef heldur ekki fengið svar við þessu. Munnlega, á milli funda hef ég þó heyrt á hæstv. ráðh., að hann telji sig ekki þurfa að svara þessu, því að málið heyri undir dómsmrh. Nú hélt ég, að Ólafur Thors hafi ekki verið dómsmrh., þegar hann skipaði Gunnar Thoroddsen í þetta starf, heldur hafi þá Finnur Jónsson verið dómsmrh. En ef miða á við það, hver skipað hafi Gunnar Thoroddsen til starfsins, virðist málið heyra undir hæstv. forsrh. Enn spyr ég um þetta, og fyrst ráðh. vill ekki svara því, þá kannske vill hæstv. fjmrh. svara mér, ef ég spyr hann, hvort hann vilji breyta reglugerðinni um vinnutíma opinberra starfsmanna, sem fyrirrennari hans setti, þegar hann stytti vinnutímann úr 45 í 35½ klst. á viku. Það mál heyrir þó alltaf undir hæstv. fjmrh., og ég spyr hann, hvort hann vilji breyta þessari reglugerð, því að ég mun bera fram brtt. við frv., ef hann þorir ekki að breyta henni eða ef ríkisstj. í heild þorir ekki að ýta á þm. Snæf., til þess að hann ljúki því starfi, sem hann hefur verið að dunda við undanfarin ár. Hæstv. ráðh. ætti að geta svarað því, hvort hann vill breyta reglugerðinni, þótt hann viti ekki hvað frv. hv. þm. Snæf. líður, þar sem það heyrir undir hæstv. forsrh. að hans sögn.