10.03.1949
Efri deild: 73. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í C-deild Alþingistíðinda. (3760)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Björn Kristjánsson:

Herra forseti. Þessar umr. hafa verið langar og harðar, og ég ætla ekki að fara að lengja þær með því að blanda mér þar inn í. Ég vil aðeins segja nokkur orð til þess að gera grein fyrir atkv. mínu. Það hefur verið deilt um það hér, hvort veita þyrfti ráðh. lagaheimild, eða hvort hann hefði vald til að gera þær ráðstafanir, sem hér um ræðir, án þess. Ég er ekki lögfræðingur og skal ekkert um þetta segja, en það hefur margsinnis komið fram í umr. hjá hæstv. ráðh., að hann telur sig ekki hafa þetta vald. En úr því að svo er, og hvað sem líður heimild ráðh. að öðru leyti án lagasetningar —, þá virðist mér allir geti verið sammála um það, að heppilegt væri, ef með þessu móti yrði unnt að skapa eftirlit með rekstri ríkisins og stofnana þess, þar sem það hefur aldrei verið svo brýn nauðsyn sem nú. Og ef ráðh. telur sig ekki hafa heimildina án laga, þá vil ég fyrir mitt leyti greiða þar atkv. með. Þeirri dagskrártill., sem hér er fram komin, sé ég mér því ekki fært að greiða atkv.

Annars er ég sammála þeim mörgu, sem hér hafa talað, um það, að ekki sé mikils árangurs að vænta í þessu efni, ef ekki tekst vel til um val á manni í þessa stöðu, og ég vil skora á hæstv. ráðh. og ríkisstj. að vanda það val sem bezt. Í þessa stöðu þarf að veljast atkvæðamaður, sanngjarn og réttlátur, og það er engan veginn vandalaust að finna hann; en ég hef þá trú, að það megi takast, og greiði atkv. í því trausti.

Hér hefur verið talað um reglugerðina fyrir opinbera starfsmenn, sem sett var fyrir nokkrum árum. Ég er sannfærður um, að með henni hafi verið stigið stórt spor aftur á bak og hinn ákveðni starfstími sé langt fyrir neðan það, sem ég tel hæfilegt. Það er ómögulegt að ætlast til þess, að launalægstu stéttirnar taki vel þeim kjaraskerðingum, sem nú eru nauðsynlegar, ef kjör þeirra eru ósambærileg við kjör annarra atvinnustétta. Mig minnir, að þegar launalögin voru sett 1945, væri síður en svo gert ráð fyrir, að vinnutíminn yrði styttur, og hvernig sem þessi reglugerð er nú til komin, — en á því virðist leika nokkur vafi, — þá tel ég fulla þörf á að breyta þessari reglugerð og lengja vinnutímann.

Ég heyri oft talað um óstundvísi opinberra starfsmanna. Eftirlit í því efni mundi koma í hlut þessa manns, og ég vona, að slíkt mundi ekki líðast, eftir að hann væri tekinn til starfa. Þetta getur beinlínis orðið sumum mönnum hvöt til að treina sér verkin í vinnutímanum til þess að fá svo aukavinnu. En slíkt má ekki líðast. Og mér dettur í hug samtal, sem ég átti við mann, sem kunnugur er í Ameríku. Hann telur, að ef einhver starfsmaður komi þar of seint til vinnu, þá sé sá tími dreginn frá við reikningsuppgjör eða hann sé látinn vinna hann af sér. Þetta fyrirkomulag tel ég til fyrirmyndar. Ég vil að lokum endurtaka það, að ég mun greiða þessu frv. atkv. mitt, en mun ekki sjá mér fært að greiða atkv. með dagskrártillögunni.