10.03.1949
Efri deild: 73. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í C-deild Alþingistíðinda. (3761)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki hugsað mér að lengja hér umræður, en þykir þó rétt að segja nokkur orð. Hæstv. ráðh. skýrði hér rétt frá undirbúningi þessa máls. Ég hef heldur aldrei sakað hann um að búa þetta til né álasað honum fyrir það, þótt hann féllist á skoðanir þeirra mætu manna, sem að frv. stóðu. Þar eigum við, þessir þrír þm. sem settir vorum inn í sparnaðarnefnd, ekki stafkrók í, enda gat hv. 1. þm. N-M. þess, að brtt., sem hann vildi gera, hefði ekki komizt fram. Hann og hv. þm. Borgf. töldu sig þó fylgjandi frv. í meginatriðum, en það er ég ekki. Nú er mér vel kunnugt, hver er aðalkjarni hugsanagangs þessara manna, en mun þó ekki draga þá hér inn í umr., og ég fyrir mitt leyti vildi ekki fallast á þá skoðun. Ég hef sagt hér, að það vald, sem gert er ráð fyrir að fá þessum manni, sé ekki í samræmi við það demokratíska vald, sem ríkir í þessu þjóðfélagi. Það á að leggja á eins manns vald, hvort einhver maður er í starfi eða ekki, og þessu valdi yrði fyrst og fremst beitt gegn þeim, sem eru minni máttar. Sá maður, sem í þetta veldist, mundi ekki geta beitt valdi sínu gegn hinum hæst settu, þeim, sem sætu í hæstu stöðunum. Það eru til menn í embættum, sem hafa verið og yrðu þolaðir, enda þótt það ætti að vera búið að reka þá, og við þekkjum þess sorgleg dæmi. En gegn þeim, sem minni máttar væru, yrði þessu valdi beitt. Og það ætti að vera hægt að framkvæma almennt eftirlit án þess, að svona valdsmaður kæmi til skjalanna. Það mætti nota sér hvers konar véltækni miklu betur í fyrsta lagi. Og í annan stað mætti sjá um, að gætt yrði meiri stundvísi, og væri eðlilegt að fela það skrifstofustjórunum eða fulltrúum þeirra. Ég hef verið verkstjóri í 13 ár, og sá maður, sem ekki kom í tæka tíð, fékk ekki vinnu þann daginn. Óstundvísi einkennir allt of mikið íslenzkt þjóðlíf, og það er jafnvel líka í einkarekstrinum. En góð verkstjórn getur kippt þessu í lag.

Ég skal svo fara nokkrum orðum um reglugerðina. Við höfum oft um hana rætt í fjvn. Eftir því sem ég veit bezt, var hún sett með fullu samkomulagi, ef ekki bundnum samningum við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Ég skal engan dóm á það leggja, hvort þar hefur verið gengið of langt, en mín skoðun er sú, að starfsmenn ríkisins hér ættu að sitja við sama borð og slíkir starfsmenn annars staðar á Norðurlöndum, eins og það er ýmislegt annað í okkar þjóðlífi, sem á marga lund er sniðið eftir því, sem þar tíðkast. Nú veit ég ekki nákvæmlega, hvernig þessum málum er þar háttað, en hitt er mér tjáð, að stundvísi sé þar höfð í heiðri og þar líðist engum að fara frá starfi, fyrr en klukkan slær.

Hv. 1. þm. N-M. getur vottað það, að eitt af því, sem kom upp í nefndinni. var sú ósk, að n. fengi að sjá frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það fékk n. aldrei og gat því ekki myndað sér skoðanir um það né mótað það.

En þessu frv. er ætlað að fyrirbyggja, að ekki sé um vinnuhætti eins og vera ber. Ég veit ekki, undir hvaða rn. frv. fellur, en eins og hv. þm. er kunnugt, hefur það ekki komið fram enn. En með slíkri löggjöf mundi mikið vinnast. Hins vegar er hér gripið í öfugan enda.

Ég skal nú ekki fara um þetta mörgum orðum, en ég efast um, að hægt verði að finna mann með þá sterku réttlætistilfinningu og alhliða þekkingu, sem þessi maður þyrfti að hafa. Það er gert ráð fyrir, að hann hafi 12 þús. kr. grunnlaun, þó að það sé vitað mál, að stór hluti manna geti varla lifað af því mannsæmandi lífi. Og ég efast um, að nokkur maður fengist í þetta embætti fyrir þessi laun. Allir, sem í þessu kerfi eru, hafa alls konar launauppbætur. Svo er það enginn einn maður, sem getur annazt þetta, hann yrði að hafa menn í þjónustu sinni. Stofnanirnar eru svo margar í Rvík. einni, að hann kæmist ekki yfir það á einu ári að fara í gegnum þær. Hann þyrfti því töluvert starfslið. Og ég hef ekki trú á, að þetta svaraði kostnaði.

Það skal ég virða við hæstv. fjmrh., að hann hefur valið heiðursmenn til að athuga þetta, sem ég þekki alla að góðu. En þeir gera till. til sparnaðar, sem ekki eru byggðar á nógu mikilli íhugun og ég get ekki að öllu leyti fallizt á. Og í fjvn. hefur sama skeð — og ég hef viljað standa með flestum till. fjvn., sem hún hefur lagt til, til sparnaðar. En fjvn. sagði: Skerið meira niður, skerið meira niður! Sparnaðarnefnd er ekki dómbær á þetta! Svona leggja menn misjafnt upp úr mönnum eins og þessum. (Fjmrh.: Læknum ber ekki alltaf saman um, hvað beri að gera við sjúklingana.) Það er rétt. Ég óttast, að það fari svo, þar sem líkur eru til þess, að þetta mál hafi meiri hl. hv. þm. með sér, að reynslan verði að tala sínu máli um það, hvort þeir vinna fyrir sér þessir menn. Þetta hlýtur að kosta nokkurt fé. — Ég hef aldrei deilt hér á hæstv. fjmrh., þó að hann hafi sýnt þetta frv. hér. Ég met hans viðleitni í þessu máli í því að reyna að finna leiðir til sparnaðar. Hins vegar eru okkar sjónarmið um aðferðina til þess svo gerólík. Og ég endurtek það, að ég álít, að sparnaðarnefndin, sem nú situr, eigi að halda áfram sínu starfi. Mér er sagt, að hv. 1. þm. N-M. sé að hnýsast í þetta með n. Og hann leggur þar sjálfsagt til góð ráð.

Þó að hæstv. fjmrh. hafi talað undir rós, skildist mér, að hann mundi vilja líta svo á, að það væri óbeint vantraust á honum í hans embætti, ef þetta frv. væri fellt, — ég veit ekki, hvort ég átti að skilja hæstv. ráðh. svo. Á því mun nú ekki vera mikil hætta, að frv. verði fellt. En þó að ég greiði atkv. með dagskrártill., ber það ekki að skilja sem vantraust á hæstv. ráðh., heldur mun ég greiða þannig atkv. út frá því sjónarmiði, að ég hef ekki trú á þessu fyrirkomulagi. Mér þykir þar kenna einræðis. M. ö. o., það vald, sem þessum manni er gefið, er ekki í samræmi við það fyrirkomulag, sem okkar demokratiska þjóðfélag byggist á, að einn maður geti ráðið yfir lífi og limum manna, ef það mætti orða það svo, hvort þeir fá að starfa eða ekki. Og svo er hins vegar sá kostnaður, sem af þessu leiðir, sem ég óttast, að verði svo mikill, að það, sem sparast við þetta, svari ekki kostnaðinum. Hins vegar mundi einhver kostnaður af því verða, ef hæstv. ráðh. vildi senda út af örkinni einhvern sinna trúu þjóna til þess að kynna sér ástandið, en sá kostnaður yrði miklu minni, en af því, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv. Og að síðustu, þar sem vitnað er í þál. frá 1945 og talað er um að framkvæma þann vilja, sem þar kemur fram, um það vil ég segja það í fyrsta lagi, að þó að það sé nokkuð skýrt fram tekið í þál., hvað gera beri, þá segir þál. náttúrlega ekkert um það, í hvaða formi þetta skuli gert, þannig að þeir, sem voru með því á þeim tíma að samþ. hana hér á Alþ., munu að sjálfsögðu geta haft fyrirvara um það, hvernig þessar ráðstafanir skuli vera og hvort þeim líka þær eða ekki. Í öðru lagi eru nú nokkur ár liðin síðan 1945, og á þeim tíma vitum við, að ekkert hefur verið gert í þessum málum. Við skyldum ætla, að árið 1946 hefði komið einhver slík ráðstöfun eins og þingið 1945 gerði samkv. þál. ráð fyrir. En svo varð ekki. Það er ekki fyrr en árið 1949, að menn fara að hugsa um að gera slíkar ráðstafanir. Það má vel vera, að mönnum hafi fundizt, að ekki þyrfti að spara. En nú þarf að fara að spara. Ég vil bara benda á, að það þarf að vinna sömu verkin fyrir þjóðfélagið framvegis og á undanförnum árum. Og þá þarf að meta það, hvort það sé of margt starfsfólk við þessi verk til þess að vinna þau. Menn tala um skriffinnsku hjá okkur. En hún er afleiðing okkar þjóðskipulags. Og hér á Alþ. rignir t. d. fyrirspurnum í tugatali, og eitthvert rn. á að svara hverri þeirra. Og það eru fleiri menn í rn., sem dag eftir dag eru að leita uppi heimildir til þess að svara þessum grúa af fyrirspurnum, sem koma fram hér á Alþ. og eftir skipun þingsins ber að svara. Þetta er mikið starf og skriftir, svo að jafnvel þeir, sem að þeim vinna, sjá ekki út úr þeim störfum, sem á þá hlaðast. Svo tala menn um, að það eigi að spara. En þingið sjálft bara ýtir undir þessi feikilega auknu störf.

Nú hef ég aldrei látið í það skína, að ég vildi ekki við hafa allan skynsamlegan sparnað fyrir ríkisins hönd. En ég gæti haldið langa ræðu,ef mér þætti við eiga, um það, hvar ekki er við hafður sparnaður í útgjöldum ríkisins. Það er ekki leitað á þeim stöðum, þar sem mætti spara. Ég hef heyrt talað um það hér af hv. þm., að á eftirlaunaskrá sé hópur manna, sem hafi betri laun, en meðan þeir voru í fullu fjöri að starfa. Það er kannske ekkert athugavert við þetta. Ósamræmið í eftirlaunagreiðslum, sem Alþ. fjallar um, er svona ógurlegt. Ein ekkjan hefur kannske 6–10 þús. kr. í eftirlaun í grunnlaun, en önnur 490 kr. (Fjmrh.: Þetta ber fjvn. að athuga. — GJ: Fyrst hæstv. fjmrh. — HV: Það er nefnilega spurningin hver eigi að hengja bjölluna á köttinn.) Ég býst ekki við, að hinn svokallaði ráðsmaður ríkisins mundi verða látinn fjalla um þessi mál. En hins vegar sé ég, að ýmsir póstar í ríkisapparatinu eru svo viðkvæmir, að það má ekki tala um þá, því að það snertir þá betur launuðu í þjóðfélaginu, marga hverja. — Það er líka talað um aukastörf. Maður situr í 35 þús. kr. launa embætti. Hann fær annað starf við hliðina á því, sem hann fær 23,5 þús. kr. fyrir. Það er ekki verið að tala um, hvort eigi að spara í svona tilfellum, þegar verið er að tala um að krukka í eina skrifstofustúlku eða einn skrifstofumann. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því, að ég trúi ekki á það, hversu góður og duglegur maður sem er að verki sem ráðsmaður ríkisins, að hann fari inn á þau svið, sem sérstaklega þarf að tala um sparnað á, í okkar þjóðfélagi.

Ég held, að ég hafi þá gert nokkra grein fyrir því, hvers vegna ég trúi ekki á þetta skipulag, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv. að setja upp. Þess vegna er ég á móti samþykkt frv., en það ber ekki að skoða sem vantraust á hæstv. fjmrh.