25.04.1949
Efri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (3785)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Við fyrri hluta þessarar umr. mæltist ég til þess, að málinu yrði frestað og mér og hv. 7. landsk. gefinn kostur á að bera fram brtt., sem nú eru hér til umr. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um málið, þar eð ég hef rætt það við fyrri umr. og afstaða mín er sú, að ég taldi nauðsynlegt að gera breytingar á frv., þó að þær komi ekki að fullu gagni, en þar sem auðséð er, að frv. á hér meirihlutafylgi, þá vil ég gera þær umbætur á því, sem auðið er.

Fyrri brtt. er efnislega eins og 1. brtt. á þskj. 482 að því frábrugðnu, að þar er gert ráð fyrir, að skipa megi mann í embættið eftir 1 ár, en hjá okkur er gert ráð fyrir 2 ára reynslutíma. Þá er gert ráð fyrir, að ráðsmaðurinn hafi ráðherralaun, en hjá okkur er gert ráð fyrir, að hann hafi laun eins og skrifstofustjórar í stjórnarráðinu. Önnur breyting felst ekki í þessari brtt., en efnislega teljum við óreynt, hvernig embættið muni reynast, og er það því varfærni hjá okkur að stofna ekki til þess fyrr en reynsla hefur fengizt af því. Um launin þarf ekki að ræða, og teljum við þess engin dæmi, að undirmaður ráðh. hafi sömu laun og þeir.

Um hina greinina, sem við leggjum til, að breytt verði, gat ég þess við fyrri umr., að ráðsmaðurinn gæti farið út í að skipta sér af ráðningu starfsfólks, sem er ráðið frá degi til dags, eins og t. d. við sérleyfisferðir og skipaafgreiðslu. Þá geri ég ráð fyrir, að verksmiðjurekstur heyri undir ráðsmanninn, t. d. SR, og þá gæti hann blandað sér inn í, hvaða fólk er þar ráðið frá degi til dags eða um mánaðartíma. Þetta teljum við óþarft, og yrði ekki á valdi hans að dæma um, hvaða menn eigi að ráða, enda tökum við fram, að ekki komi til hans kasta, þegar um óiðnlært fólk sé að ræða. Önnur breyt., sem felst í þessari till. okkar, er sú, að hafi forstöðumaður fyrirtækis ráðið mann án samþykkis ráðsmanns, þá getur ráðsmaður ekki ónýtt þá ráðningu, heldur skal viðkomandi ráðh. segja um, hvort sú ráðning skuli standa eða ekki. Það er tekið fram, að það sé viðkomandi ráðh., en ekki fjmrh., því að gert er ráð fyrir, að hver ráðh. sé svo ábyrgur, að hann geti dæmt um, hvort ráðning sé nauðsynleg eða ekki. Þá getur þetta snert verksvið fleiri ráðh., og fjallar þá ríkisstj. um það. Nú er það svo, að ég lít svo á, og við báðir flm., að þetta eigi ekki að vera bundið við persónu neins sérstaks ráðh. Ég tek það fram, að ég ber ekkert vantraust til þess ráðh., sem nú fer með þetta vald. En við viljum ekki binda valdið við neinn einstakan mann, heldur við ríkisstj. alla, það á að vera á hennar valdi að dæma um, hvort þessi maður fer út fyrir valdsvið sitt eða ekki. Við viljum ekki láta þetta vald vera í höndum eins ráðh., sem enginn veit, hver verður. Það er mín hugsun.

Ég held ég hafi nú gert grein fyrir því, sem í till. felst, og segi eins og ég sagði áðan, að þar sem ég reikna með, að frv. fái fylgi í d., get ég sætt mig við að fylgja því svo breyttu út úr henni, og mæli það fyrir mína hönd, en ekki meðflm. míns.