25.04.1949
Efri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (3786)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hin fyrirheitna brtt. frá hv. 1. landsk. liggur nú fyrir og er í tveimur stafliðum á þskj. 567. Um fyrri stafliðinn er það að segja, að eins og ég var mótfallinn þeirri breytingu, sem kom fram í brtt. hv. 1. þm. N-M., að ráðsmaðurinn yrði settur en ekki skipaður, þá er ég ekki síður mótfallinn því, að hann verði settur til tveggja ára. En hv. 1. þm. N-M. lagði þó ekki til, að hann yrði settur nema til eins árs.

Mikið hefur verið talað um það, að þetta yrði vandasamt starf og illa þokkað. Því þykir mér einkennilegt, að sömu menn og þessu halda á loft skuli vilja láta manninn hafa svo veika aðstöðu í starfi sínu, að hann sé aðeins settur en ekki skipaður. Í slíkri aðstöðu getur hann ekki lagt sig eins í líma og ella mundi. Þeir, sem sömdu frv., vildu láta gera aðstöðu hans sem embættismanns sterkari með því að láta skipa hann af forseta, eins og sýslumenn til dæmis. En þessi brtt., sem hér er borin fram á þskj. 567, miðar að því að gera aðstöðu hans veikari. Varðandi það, sem 2. tölul. brtt. á þskj. 567 fjallar um, hafði ég áður tekið fram, að ekki væri meiningin að skipta sér af daglaunafólki, sem ráðið er til skamms tíma, heldur aðeins föstu starfsfólki. Þegar nú á að taka þetta skýrar fram, þá er ég því ekki mótfallinn út af fyrir sig. Varðandi síðustu málsgr., þar sem sagt er, að ríkisstj. skuli skera úr um ágreining, sem kann að verða út af störfum ráðsmannsins, vil ég segja það, að ég geri þetta ekki að sérstöku ágreiningsefni. Ég hef hér lýst minni afstöðu til þessara brtt. Að öðru leyti hef ég áður gert afstöðu mína ljósa og þarf ekki að fara um þetta fleiri orðum, en vona, að málið komist fram í deildinni.