25.04.1949
Efri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (3787)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að ræða þetta mál, en eftir að hæstv. fjmrh. hefur lýst sig sammála 2. tölul. brtt. á þskj. 567, vil ég gera grein fyrir afstöðu minni, og sömuleiðis þykir mér einnig rétt að ræða nokkuð brtt. á þskj. 482. Þar er með b-lið 2. tölul. lagt til, að ákveðið verði, að hver starfsmaður ríkisins sé skyldur til að vinna 40 klst. á viku hverri. Þessari till. er ég fylgjandi út af fyrir sig, en mun ekki geta greitt atkv. með henni, þar sem þetta er sérstakt mál og óskylt því, sem er efni þessa frv.

Hvað snertir till. á þskj. 567 vil ég benda hæstv. ráðh. á, að það er reginmunur á því, sem segir þar í 2. tölul. og í frv. sjálfu. Í fyrsta lagi er þar sagt í einni málsgr.: „Um veitingu starfa fer eftir þeim reglum, sem gilt hafa til þessa.“ Á hinn bóginn er ákveðið í annarri málsgr., að ríkisstj. skuli skera úr, ef ágreiningur verði um starfssvið ráðsmanns. Hér gætu nú orðið árekstrar. Ég vil t. d. nefna Ferðaskrifstofu ríkisins. Þar hefur verið ráðinn maður og honum greidd laun, sem fara langt fram úr því, sem ákveðið er í launalögunum. Og ef till. yrði samþ., þá er það ekki lengur fjmrh., sem ræður, ef úrskurð ætti að fella um mál eins og þetta, heldur gæti hann þurft að eiga í útistöðum við ríkisstj. út af slíkum ráðningum, jafnvel vegna manna, sem hann hefði sjálfur ráðið. Þetta nær því ekki tilgangi laganna, og ef þetta yrði samþ., gæti ég engan veginn fylgt frv. út úr deildinni. Þetta er beinlínis gert til þess að koma frv. fyrir kattarnef. Flm. eru á móti frv. og læða inn þessari brtt, til þess að gera það áhrifalaust. Það á að vera undir fjmrh. einum komið að skera úr í þessu efni, og ég treysti mér ekki til að fylgja málinu, ef þetta á að verða ofan á.