25.04.1949
Efri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (3790)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það var aðeins örstutt athugasemd. Ég hef gert grein fyrir mínum brtt. áður, en mig langar til að benda tvennt, sem síðan hefur komið fram í umr. á móti þeim, sem ég tel hæpið. Hæstv. fjmrh. heldur því fram, að maðurinn muni leggja sig betur fram í starfi sínu, ef hann verði skipaður heldur en settur. Ja, við skulum nú bara líta á lífið. Og það lífsstarf, sem flestir velja sér, er að gifta sig. Ef hæstv. ráðh. bæri það nú saman, hvernig menn leggja að sér í tilhugalífinu til þess að geðjast sínum maka og svo síðar, er menn hafa verið giftir í ein 20 ár, þá mundi hann eflaust sjá, að í tilhugalífinu leggja menn sig dálítið betur fram. Yfirleitt er það svo, að þegar menn keppa að ákveðnu marki, þá leggja menn sig miklu betur fram heldur en síðar, þegar því er náð og menn eru t. d. komnir í fasta stöðu. Það er því mesti misskilningur hjá hæstv. ráðh. að halda þessu fram. Það er einmitt þvert á móti, að þessi maður mundi leggja sig enn betur fram um að gera gagn í sinni stöðu, ef það væri undir hælinn lagt, eftir því hvernig hann reyndist, hvort hann væri skipaður í hana eða ekki. Á því veltur meira um þennan mann en flesta aðra, að unnt sé að fá vitneskju um, hvernig hann reynist, áður en hann er skipaður í embætti, því að í þessa stöðu gætu valizt menn, sem gerðu ekkert gagn, en líka menn, sem margspöruðu laun sín. Því vil ég, til þess að fá úr því skorið, hvort maðurinn sé hæfur til starfsins, hafa hann settan í eitt ár.

Þá var það hv. þm. Barð., sem sagðist ekki geta greitt atkv. með 40 stunda vinnuviku hjá opinberum starfsmönnum. Nú vil ég minna hann á það, að nú eru 3 ár síðan ákveðið var af þáverandi forsrh., hv. þm. G-K., að skrifa Gunnari Thoroddsen og leggja fyrir hann að semja lög um réttindi og skyldur embættismanna. En þá stóðu kosningar fyrir dyrum, og þáverandi fjmrh. sýndist þá að breyta reglugerð um þetta efni og stytta vinnutímann. Síðan hefur stöðugt verið talað um að breyta reglugerðinni aftur, þó að það hafi ekki verið gert, en hún var sett af fjnrh., og fjmrh. getur því breytt henni aftur, ef honum sýnist. En hv. þm. Barð. getur alveg átt það víst að þurfa að bíða lengur eftir breytingum á þessu, og alveg sérstaklega ef hann hjálpar nú huglausum fjmrh. og mannskapslausum forsrh., sem ekki þorir að leggja fram frv., sem hann segir, að séu tilbúin. Og fyrst hann er samþykkur till. minni að eðli til, á hann að fylgja henni.