10.05.1949
Neðri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (3814)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Fjhn. hefur öll skrifað undir eitt nál. og leggur til, að frv. verði samþ. með einni breyt., sem allir nm. styðja, en þó hafa sumir nm. áskilið sér rétt til að bera fram aðrar brtt.brtt., sem n. stendur öll að, er gerð til þess, að það sé alveg ótvírætt, að ráðsmaður ríkisins skuli ekki ráða um það, hvaða menn eru ráðnir til starfs eða hvaða starf þeir sérstaklega eigi að inna af hendi á skrifstofu, heldur ráða því einu, hvort fjölgað er mönnum eða menn séu ráðnir í stað annarra, sem fara, ef um er að ræða menn, sem eru í stöðu, sem ekki er samkvæmt sérstökum l. Þetta er skýrt og skilmerkilegt í brtt. Ég hygg, að hér sé ekki um efnisbreyt. að ræða, því að hæstv. fjmrh. hafi aldrei ætlazt til annars skilnings á þessu atriði en þess, sem n. hefur. Um brtt. annarra hv. þm. mun ég ekki ræða, þeir skýra sínar brtt. sjálfir.

Ég vil svo aðeins bæta því við, að um starf eins og þetta gildir það jafnvel í ríkara mæli en um önnur störf, að það er heppilegra að láta þetta sæti vera óskipað, en að það mistakist að ráða í það heppilegan mann.

Það hefur skort í stjórnarráðinu, að þar væri nokkur starfsmaður, sem myndaði samband milli allra stjórnardeilda og ríkisstofnana. Slíkt embætti var til á tíma landritara. Ég geri ráð fyrir, að það hafi verið afturför um alla starfsháttu í stjórnardeildunum, þegar það embætti var lagt niður. Það hefði verið að sumu leyti ákjósanlegt að taka upp það nafn og kalla þennan nýja embættismann landritara, en þó er hér ekki gerð till. um það.

Höfuðkosturinn, sem þetta nýja fyrirkomulag hefur, er, að það kemur maður, sem hefur eftirlit með öllum ríkisrekstri og mannaráðningum í því sambandi. N. leggur til, að frv. verði samþ., a. m. k. ef brtt. hennar verður samþ.