10.05.1949
Neðri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (3815)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. á þskj. 641 með fyrirvara, og vil ég gera grein fyrir honum með nokkrum orðum.

Það er mitt álit, að það sé mjög vafasamt, að þörf sé fyrir lagasetningu af þessu tagl. Ég tel, að fjmrn. og fjmrh. hafi án nokkurrar sérstakrar lagasetningar fulla heimild og möguleika til þess að framkvæma það eftirlit, sem hér er um að ræða. Ég tel enn fremur, að rn. hafi borið skylda til að hafa þetta eftirlit á undanförnum árum. Hins vegar lít ég svo á, að þar sem hæstv. fjmrh. óskar mjög eftir, að sett séu sérstök l. um þetta eftirlit, þá geti komið til mála að verða við þeim óskum, þó að nokkuð sé á annan veg, en lagt var til í stjfrv. upphaflega. Samkvæmt 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að stofnuð sé sérstök deild í fjmrn., sem nefnist „Eftirlit með opinberum rekstri.“ Ég get ekki á það fallizt að ákveða það nú, að stofnuð sé sérstök deild í rn. Menn geta vel gert sér hugmynd um, til hvers þetta muni leiða. Þar á að vera sérstakur eftirlitsmaður, sem samkv. frv. á að heita ráðsmaður ríkisins. Samkvæmt frv., eins og það kom frá Ed., á hann að hafa ráðherralaun. Hann á m. ö. o. að vera nokkurs konar aukaráðherra, sem á að vera þarna fastur embættismaður, og vafalaust kemur þá innan skamms eitthvert starfslið í þessa deild honum til aðstoðar. Ég sé því ekki betur, en hér sé verið að búa til nýja ríkisstofnun, sem maður veit ekki enn, hversu stór og dýr kann að verða. Ég held, að okkur vanti annað fremur nú en nýjar ríkisstofnanir og nýjar deildir í stjórnarráðið. Ég hef því leyft mér að leggja til í brtt. á þskj. 665, að upphaf 1. gr. frv. orðist eins og þar hermir, að fjmrn. hafi eftirlit með opinberum rekstri, en hlutverk þess sé eins og nú stendur í frvgr. Ég fæ ekki betur séð en þetta komi að sama gagni til að byrja með, og yrði þá hægt að fá reynslu af því, hvernig árangurinn yrði af því, ef slíkt yrði sett í l. og sérstakur maður fenginn til að gegna þessu eftirlit. Þessi 1. brtt. mín er því um það, að því verði ekki slegið föstu nú þegar á þessu þingi, að stofna skuli sérstaka deild í rn.

Í samræmi við þetta legg ég til, að 2. gr. frv. verði orðuð um og breytt eins og hermir á þskj. 665, að fjmrh. sé heimilt að ráða sérstakan mann til þess að annast eftirlit samkv. 1. gr. og skuli hann hafa sömu laun og skrifstofustjórar stjórnarráðsins. Eftirlitsmaður skal þó eigi ráðinn til lengri tíma en eins árs, en heimilt er að framlengja ráðningarsamning hans um annað ár í viðbót, ef allir ráðherrar eru sammála um það. Eigi er heimilt að ráða sérstakan eftirlitsmann til lengri tíma, nema samþykki Alþingis komi til.

Aðalbreyt. er því sú, að í stað þess að ákveða, að þetta ráðsmannsembætti verði stofnað nú þegar, þá verði gefin heimild til þess að ráða slíkan eftirlitsmann í 1–2 ár til reynslu, og mætti þá að sjálfsögðu athuga síðar á Alþingi, hvort ástæða er til að setja þessa sérstöku deild og velja til forstöðu hennar fastan embættismann. Ég skal geta þess viðvíkjandi því, sem ég legg til um laun þessa embættismanns, að það er í samræmi við stjfrv., eins og það upphaflega var, þó að Ed. hafi hækkað launin.

Aðrar brtt., sem ég ber fram, eru aðeins afleiðing af þessum tveimur till., sem ég hef lýst; og sé því ekki ástæðu til að fjölyrða um þær.