25.11.1948
Neðri deild: 22. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

2. mál, síldarbræðsluskip

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil ekki segja, að ég hafi nú séð nýja hlið á þessum hv. þm., heldur sömu hlið og í mörgum öðrum málum. Þessi síðasta ræða hans er svo undarleg, að jafnframt því, sem hún er eins og fyrri ræða hans full af fullyrðingum af því, sem hann hefur ekki kynnt sér, þá gengur hann einnig inn á þá leið að gera mér upp orð og berjast svo við mig út af því, hvílíkur auli ég sé að halda þessu fram. Hann segir, að ég hafi haldið fram, að brezkar skipasmíðastöðvar séu svo lélegar, að ekki sé hægt að skipta við þær, og bendir á, hvílíkur auli ég hafi verið að halda þessu fram, Bretar séu aldagömul siglingaþjóð. Hvenær lét ég þau orð falla, að brezkar skipasmíðastöðvar væru lélegar? Það er hægt að halda langar ræður með þessu móti. Hann sagði, að ég hefði sagt þetta og hitt og það sé allt fásinna og vitleysa. Mig undrar, að þm., sem er búinn að sitja á þingi eins lengi og þó hann, skuli leyfa sér svona málflutning. Maður verður hissa að sitja undir þessu og verða að tala við svona þm., sem er að ásaka mann fyrir eitthvað, sem hann gerir manni upp að hafa sagt, en er fullkomlega rangt og ekki sannur stafur til í því. Ég vil frábiðja mér að þurfa að sitja undir öðru eins og því, að ég hafi sagt þetta og hitt, sem ég hef aldrei látið mér um munn fara.

Ég skal svo byrja aftan á ræðu hv. þm. og halda fram eftir henni. Hann endaði með nokkurri háreysti og sagði, að allar vélarnar, sem keyptar hefðu verið í Hæring, hefðu verið gamalt rusl, keypt fyrir uppskrúfað verð. Það voru engar gamlar vélar keyptar í Hæring að öðru leyti en því, að þær voru búnar að liggja ónotaðar hjá Óskari Halldórssyni, en voru keyptar frá Ameríku, þá nýjar. Það var samið við hann að kaupa vélarnar við því verði, sem hann keypti þær, að viðbættri þeirri verðhækkun, sem síðan hefur orðið á slíkum vélum, en sú verðhækkun er 15% fyrir þau þrjú ár, sem hann hefur orðið að liggja með þessar vélar. Það er rangt að kalla það uppskrúfað verð, ég tel það hagkvæmt, enda er það í samræmi við það verð, sem orðið hefði að greiða, hefðu vélarnar verið keyptar annars staðar að. Það gat verið óeðlilegt, ef verðhækkunin hefði verið gífurlega mikil, en með þessari verðhækkun tel ég vélarnar á engan hátt ofborgaðar til seljanda.

Hv. þm. taldi, að skip, sem smíðuð hefðu verið í Ameríku, hefðu tafizt lengur en þau, sem smíðuð hefðu verið í Bretlandi. Ég véfengi ekki ágæti brezkra skipasmíðastöðva, en það var ekki jafnauðhlaupið að komast þar að verki eins og vestan hafs. Það kostaði mikla fyrirhöfn að komast að verki í brezkum stöðvum, en stöðvarnar á vesturströndinni höfðu lítið verk með höndum um þessar mundir og því auðvelt að komast þar að góðum samningum.

Þá sagði hv. þm., að ég væri gramur við skipaskoðunarstjóra, að hann skyldi leyfa sér að gera aths. við kaupin á skipinu og sérstaklega að hann skyldi benda á Súðina til samanburðar, hún hefði þó ekki verið nema 25 ára, þegar hún hefði verið keypt, og hefði það verið mjög gagnrýnt af flokksmönnum mínum. Ég mun ekki hafa tekið þátt í þeirri gagnrýni, en hér er ólíku saman að jafna, að kaupa skip til farþega- og vöruflutninga eða skip til að setja þar niður síldarverksmiðju. Ég veit ekki betur, en það hafi legíð fyrir þinginu í fyrra frv. frá hæstv. sjútvmrh. að byggja verksmiðju í skipi, sem er tveimur árum eldra en Hæringur, Lagarfossi. Þá komu engin andmæli frá neinum, að skipið væri of gamalt til að setja þar síldarverksmiðju. Þá var hv. þm. ekki búinn að finna út þennan hættulega aldur. Það er ljóst, að þótt gamalt skip geti verið vafasamt til mann- eða vöruflutninga, því að gömul skip eru venjulega þungbyggð, þá getur það verið heppilegt sem síldarbræðsluskip. Þar kemur til greina góður styrkleiki, að skrokkurinn sé sterkbyggður. Það er það sem mestu máli skiptir. Ég held, að menn hafi ekki gagnrýnt Súðina fyrir, að hún væri ekki nógu sterk, og þess vegna er ekki eðlilegt hjá þessum embættismanni ríkisins að bera saman Hæring og Súðina. Það er óeðlilegt að bera þessi tvö skip saman, sem ætluð eru til algerlega ólíkra nota, sérstaklega þegar annað þeirra er ætlað til jafneinstakra nota og Hæringur. Ég veit ekki nema skýringanna á hinni furðulegu ræðu hv. þm. Siglf. sé að leita til þeirra orða, sem hann hefur áður látið falla um það, að í sambandi við þetta mál hafi mér verið hampað eitthvað sérstaklega. Það er einmitt algengt, að menn séu svo þröngsýnir, að ef pólitískir andstæðingar eru eitthvað riðnir við einhver mál, sem í sjálfu sér eru ópólitísk, þá eru þau dæmd ómöguleg og þykir sjálfsagt að gera þau tortryggileg. Þetta er einmitt tilfellið með hv. þm. Siglf., og þess vegna geta menn látið sér dóma hans um málið í léttu rúmi liggja.

Hv. þm. endurtók þá firru, að ekki hefðu verið athuguð önnur skip. Ég hef áður skýrt frá því rétta í málinu, en hv. þm. endurtekur sífellt ósannindin. Ólafur Sigurðsson rannsakaði skip bandaríska flotans, en það er alveg sama, þótt hv. þm. Siglf. fái réttar upplýsingar, hann heldur ósannindavaðli sínum áfram fyrir því. Það er rétt, að skipin í Evrópu voru ekki rannsökuð, enda voru tilboðin um þau ekki aðlað~ andi, því að samningar um kaup og breytingar á þeim skipum þurftu að gerast á mjög skömmum tíma. Þá segir hv. þm. Siglf., að engir vélaverkfræðingar hafi komið nærri þessu verki. Ég held nú t.d., að Jón Gunnarsson verkfræðingur, sem hefur langa reynslu af síldariðnaði, sé ekki verri en þeir sérfræðingar, sem hv. þm. hefur stundum kvatt sér til aðstoðar. Enn fremur var Ólafur Sigurðsson fulltrúi við skipakaupin og erlendir vélaverkfræðingar unnu að niðursetningu vélanna í Ameríku. En þetta er eins og annað hjá þessum hv. þm. Hann reynir allar mögulegar og ómögulegar leiðir til þess að gera málið tortryggilegt.

Þá vék hv. þm. að því, að búið hefði verið að kaupa skipið, áður en sótt var um leyfi til samgmrn., og hefði þetta vakið furðu hjá sér. Það er rétt, að bréflega var ekki sótt um leyfið; áður en kaupin voru gerð, en málið hafði verið lagt fyrir fjárhagsráð og ríkisstj., og var þeim aðilum báðum kunnugt um aldur skipsins. Fyrr en rætt hafði verið við þá aðila, var ekki gengið frá kaupunum. — Ég læt þetta svo nægja til leiðréttingar á þessari furðulegu ræðu hv. þm. Siglf., sem sýnir, að hér liggja einhverjar annarlegar hvatir á bak við. T.d. gaf hann það í skyn, að Jón Gunnarsson hefði haft óeðlilegan hagnað af kaupunum. Þetta er mátinn til að gera menn tortryggilega, þegar ekkert ákveðið er hægt að færa fram þeim til hnjóðs, að dylgja um það, að Jón Gunnarsson hafi haft skipin og þau hafi verið keypt til þess, að hann gæti grætt, sömuleiðis að Jón Gunnarsson hafi haft vélarnar og þær keyptar til þess, að hann gæti grætt meira. Þessar ógeðslegu dylgjur eru óþolandi og engu síður ósæmilegar, þótt þær séu fram bornar í þingsölunum og það af vörum hv. þm.