28.04.1949
Efri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (3846)

157. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Mér þykir slæmt, að hæstv. fjmrh. er hér ekki viðstaddur. En hér er hins vegar hv. form. fjvn., sem, gengur næst honum að fjármálaáhuga.

Þó að atkv. mitt sem nm. sé bundið að vísu um þetta mál, þá vil ég benda á, að mér virðist, að það verði ekki nema ¾ hlutar af skattinum innheimt á næsta ári. Skattárið um þennan skatt hefur byrjað 1. apríl og náð til 31. marz, en nú á það ekki að ná nema til 1. janúar. Þess vegna koma þarna til greina viðkomandi innheimtu þessa skatts, að mér skilst, þrír ársfjórðungar á næsta ári, eða jafnvel kannske á þessu ári getur það orðið þannig. Og þá þarf, virðist mér, að taka afstöðu í sambandi við fjárlög með tilliti til þess, að frá tekjum af þessum skatti dragast 25% eitt ár. — Það getur verið, að það sé einhver misskilningur í þessu hjá mér. En ég hefði talið réttara, áður en gengið er frá þessu frv. og sérstaklega áður en lokið er þessari umr., að ná tali af hæstv. fjmrh. um þetta atriði, hvort þetta sé meiningin. Annars er hv. þm. Barð. einnig mjög vel inni í þessu máli, og væri ekkert á móti því að heyra álit þess hv. þm. líka um þetta atriði.