28.04.1949
Efri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (3847)

157. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef nú ekki athugað þetta mál, því að það hefur ekki legið neitt til umr. í fjvn. — En er ekki skattárið í þessu tilliti í 12 mánuði, þannig að hver gjaldandi verði í þessu efni að greiða einu sinni á ári þennan skatt fyrir 12 mánuði? (ÞÞ: Skattárið hefur verið frá 1. apríl til 1. apríl, en eftir þessari breyt. verður það til 1. janúar, og þá hlýtur þetta að verða 9 mánaða skattur.) Það hefur ráðun. gert sér ljóst, þegar það samdi þetta frv. og setti í það þetta ákvæði til bráðabirgða. Annars er það verk hv. fjhn. að athuga þetta mál. Ég sé ekki, að ríkissjóður tapi neinu með þessari breyt. á byrjun skattársins í þessu efni. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. hafi gert sér ljóst þetta atriði, þegar hann undirbjó frv. Ég sé ekki ástæðu til annars en að málið fái að ganga í gegnum þessa umr., og mætti þá ræða þetta við hæstv. fjmrh. fyrir 3. umr. — Annars hefur þetta ekki verið til umr. í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna.