28.04.1949
Efri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (3848)

157. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil nú enn á ný beina því til hv. fjhn., sem er með þetta frv., að hrapa nú ekki að því að koma því út úr hv. d. og áfram, áður en brtt. kemur frá hæstv. ríkisstj. Við erum tvisvar á þessu þingi búnir að breyta þessum sömu lögum, og þá var breytt 1. gr. Fyrst var þar breytt l. af því, að það hafði gleymzt í fyrra að láta ákvæðin um benzínskattinn öðlast gildi um áramót. Og þegar kom fram í júlímánuð, þá vaknaði hæstv. ríkisstj., sem hafði sofið allt að þeim tíma, og fann, að búið var að innheimta skattinn ólöglega frá 1. janúar og þangað til komið var fram yfir mitt ár. Setti hún þá bráðabirgðalög til að bæta úr þessu og lagði svo frv. fyrir þetta þing þeim til staðfestingar. Þá benti ég á, að í leiðinni þyrfti að breyta skattinum, hækka hann, en því var ekki sinnt. Svo kom fram frv. um hækkun benzínskattsins. Ég taldi, að það þyrfti að hækka hann meira þá. Það var skellt við því skollaeyrunum og það frv. samþ. — Nú kemur enn frv. um breyt. á þessum l., ekki um breyt. á 1. gr., þ. e. ekki um breyt. á benzínskattinum, heldur við 4. gr., og nú á að staðfesta það. Samhliða þessu vita allir, að það vantar a. m. k. 30 millj. kr. til þess að láta fjárlögin ballansera, og er í munni hvers manns, að eitt af því, sem verði leitað til, til þess að fá tekjur í ríkissjóðinn, sé að hækka benzínskattinn með breyt. á 1. gr. viðkomandi laga. Þess vegna vil ég, að áður en við séum látnir greiða atkv. um þetta frv., þá verði rætt við hæstv. fjmrh. um það, hvort það verði kannske daginn eftir komið með enn nýtt frv. um breyt. á þeim sömu l., sem með þessu frv., sem fyrir liggur, á að breyta. Ef svo á að fara að, þá eru þetta vinnubrögð, sem eru óþolandi og sýna sofandi hátt ríkisstjórnarinnar og hringl, að þurfa 3–4 sinnum á sama þinginu að breyta sömu lögunum, af því að aldrei var hugsað nema fyrir líðandi stund.