02.11.1948
Neðri deild: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í C-deild Alþingistíðinda. (3864)

30. mál, almannatryggingar

Flm. (Hermann Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hef ég flutt á tveimur síðustu þingum. Það er því hv. þm. kunnugt að efni til. Hins vegar hefur svo viljað til, að ekki hefur fengizt fram afgreiðsla á því frá nefnd þeirri, sem þetta frv. hefur tekið til meðferðar. Með hliðsjón af því, að hér er um mál að ræða, sem ég hygg, að sé mikið velferðarmál margra æskumanna hér á landi, þ. e. þeirra, sem stunda íþróttir, taldi ég rétt að flytja frv. þetta enn einu sinni. Ég tel ekki á það reynt til hlítar, að vilji þingsins sé í andstöðu við þetta frv., þrátt fyrir það tómlæti, sem það hefur mætt hér á hæstv. Alþ. Með hliðsjón af því, hve ég tel þetta mál mikilsvert og hversu það hefur sýnt sig, að íþróttahreyfingin í landinu og íþróttamenn hafa tekið þessu frv. fagnandi, þá leyfi ég mér að flytja það einu sinni enn.

Ég tel ekki þörf á að rekja efni frv., en legg til, að því verði vísað til hv. heilbr.- og félmn.