02.11.1948
Neðri deild: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (3871)

35. mál, fjárhagsráð

Flm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Frv. samhljóða þessu var flutt á síðasta þingi. Það náði samþykki þessarar hv. d. eftir allmiklar og ýtarlegar umr., en var fellt með eins atkvæðis mun í Ed. — Tilgangur frv. var og er sá að tryggja sérhverjum þegni frjálst val milli kaupmanna og kaupfélaga og eins milli kaupfélaga innbyrðis og kaupmanna innbyrðis, þegar þeir kaupa venjulegar skömmtunarvörur. Tilgangurinn með þessu er sá að tryggja einstaklingum verzlunarfrelsi. Nú hefur áður verið lagt fram hér á Alþ. annað frv., sem verið var að ljúka við að vísa til fjhn. og stefnir að þessu sama marki, þó að upp í það séu tekin nokkur fleiri ákvæði.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál á þessu stigi. Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn., og beini jafnframt þeim tilmælum til hv. n., að hún taki þetta frv. og það frv., sem rætt var hér síðast og vísað til sömu n., til rækilegrar athugunar með það fyrir augum að hún skili áliti, sem tryggi meginatriði frv., sem sé frelsi einstaklinga til þess að kaupa skömmtunarvörur hvar sem þeir óska eftir. Ég geri ráð fyrir, að n. gæti sameinað þessi tvö frv. í eitt frv., því að auðvitað er það aðalatriðið .að ná tilganginum, hvort sem það er í formi frv., sem ég hef flutt, frv., sem síðast var vísað til fjhn., eða í enn öðru formi, sem næði sama tilgangi.