04.11.1948
Neðri deild: 10. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í C-deild Alþingistíðinda. (3887)

39. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð um þetta frv. nú. Það var hér á dagskrá fyrir 2 árum, og urðu þá um það allýtarlegar umræður. Hins vegar er það af rökstuddum ástæðum, að þetta mál er nú flutt hér öðru sinni, því að tíminn hefur mjög sannað það, að þær mótbárur, sem færðar voru helzt gegn því á sínum tíma, hafa við lítil rök að styðjast. T. d. var þá m. a. talið af alþýðusambandsþingi, að frv. sem þetta, ef að lögum yrði, mundi auka stjórnmáladeilur innan verkalýðsfélaganna og afskipti pólitísku flokkanna af innanfélagsmálum þeirra. Ég held nú í ljósi þeirra hörðu átaka, sem átt hafa sér stað við nýafstaðnar kosningar til alþýðusambandsþings, að enginn þurfi að bera því við lengur, að þessi eða önnur breyting á lögum stéttarfélaganna muni innleiða pólitísk átök og deilur innan samtakanna. Þær deilur eru nefnilega þegar deginum ljósari, svo að ekki stenzt sú viðbára lengur. Hitt er rétt, að sumir hafa til þessa ekki viljað fylgja slíkri breytingu, af því að þeir hafa fremur kosið að hún sprytti af frjálsum óskum samtakanna sjálfra, kæmi, ef svo mætti segja, innan frá. En því miður hefur ekki bólað á slíkri hreyfingu frá yfirstjórn þessara samtaka, sem kommúnistar ráða. En ef sú breyting yrði, að óskir um þetta kæmu innan frá, yrði því ekki síður fagnað af flm. þessa frv. — Ég hef svo ekki fleiri orð um þetta, en óska eftir, að málinu verði vísað til allshn.