04.11.1948
Neðri deild: 10. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í C-deild Alþingistíðinda. (3892)

39. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Hermann Guðmundsson:

Herra farseti. Hv. 7. þm. Reykv. gat um það í upphafi ræðu sinnar, að hann kenndi í brjósti um mig, þegar um þetta mál væri að ræða, sérstaklega af því, að afstaða mín í þessu máli væri nú önnur, en áður hefði verið. Mér þykir vera orðin breyting frá því, sem áður var, þegar hann taldi það til gildis þessu frv., sem hann flytur nú, að ég hefði einu sinni verið efni þess meðmæltur. Ég held, að enginn misskilningur sé í sambandi við það, hver mín afstaða er til þessa máls, og komi þar ekki til greina nein flokkskúgun.

Hv. þm. gat um, að vinnulöggjöfin hefði á sínum tíma verið flutt af Sjálfstfl. og verið þá kölluð þrælal. og verið óvinsæl, en nú væri hún orðin vinsæl löggjöf og vildi nú enginn af þeim l. sjá. Það er mesti misskilningur, að þau l. séu orðin svona vinsæl, heldur eru þau þvert á móti í mörgum tilfellum ákaflega ranglát, og þyrfti að gera á þeirri löggjöf miklar breytingar, ef hún ætti að verða góð löggjöf.

Þessi hv. þm. komst í óveðursham, þegar hann fór að ræða við formann Dagsbrúnar. Hann sagði, að Sósfl. byggði alla sína tilveru á því að hafa sem mesta stéttarárekstra, hins vegar vissu allir, að hagsmunir verkamanna og atvinnurekenda færu saman. Það getur verið um að ræða hagsmunamál, þar sem verkamenn og atvinnurekendur geta orðið sammála. En ég hafði þá skoðun, þegar ég var í sama flokki og hann, að hagsmunaárekstrar hlytu að eiga sér stað milli verkamanna og atvinnurekenda. Við þurfum ekki annað en að líta á baráttu verkalýðsfélaganna fyrir bættum kjörum til að sannfærast um það. Það þýðir ekki að belgja sig upp og segja, að hagsmunir stéttanna eigi að fara saman, því að staðreyndirnar sýna okkur, að verkalýðshreyfingin hefur orðið að knýja fram hagsmunamál sín með styrk víðsýnna manna.

Hv. flm. gat þess, að þegar l. um kosningar í búnaðarfélögunum voru sett, hefði þeim verið fagnað af öllum frjálslyndum mönnum og eins mundi verða um þetta frv., ef að l. yrði. Hér er ég honum ekki sammála, því að ég álít, að frjálslyndir menn samþ. ekki þetta frv. Ég leiddi rök að því, og hv. þm. hefur leitt hjá sér að svara þeim, að þetta frv. væri aðeins skrípamynd af lýðræði, því að minni hl. er ætlað að ráða. Ég verð að hafa um það sömu orð og hann sjálfur, að ég kenni í brjósti um hann, af því að hann skildi ekki, hvaða mál hann var að flytja, því að í frv. kemur skýrt fram, að þar á minni hl. að ráða yfir meiri hlutanum. Í einu félagi er hlutinn, sem vill hlutfallskosningu, en 4/5 hlutar á móti. Og þá á minni hl. að ráða samkvæmt frv. (JóhH: Hann fær aðeins að ráða því að hafa hlutfallskosningu, en hefur áhrif hlutfallslega eftir styrkleika sínum.) Hann fær að ráða þessu, sem hv. þm. vill nú lögleiða, hvorki meira né minna.

Í samþykkt alþýðusambandsþingsins er bent á þá staðreynd, sem ekki er hægt að sniðganga, að ef hlutfallskosning er lögboðin, þá er fyrirbyggt, að verkalýðsfélögin geti kosið trúnaðarmenn sína án tillits til stjórnmálaskoðana. Verkalýðsfélögin hafa kosið sér trúnaðarmenn með tilliti til hæfileika, en með hlutfallskosningum er tryggt, að barizt verður um þá, sem eru pólitískir baráttumenn innan verkalýðshreyfingarinnar. — Ég þarf svo ekki að fjölyrða frekar um ræðu hv. 7. þm. Reykv.

Ég vil svo að endingu þakka hv. 4. þm. Reykv. fyrir það, að hann ætlar að leggjast á móti frv. Ég vona, að fleiri geri það og efast ekki um, að svo verði. Ég endurtek það, að ég vænti þess, að hv. þd. sjái sóma sinn að gera þetta frv. ekki að l., heldur felli það, sökum þess að það er árás á innri málefni verkalýðshreyfingarinnar, og það er ekki til að framfylgja lýðræði, heldur þvert á móti til að gera hinum óháðu félagssamtökum hallara undir höfði.

Ég get ekki stillt mig um að segja það að endingu, að ef þessi flokkur hefur svo mikinn áhuga á að koma þessu máli fram sem lítur út fyrir gegn harðvítugum mótmælum verkalýðshreyfingarinnar, þá er honum innan handar að berjast fyrir framgangi málsins innan vébanda verkalýðssamtakanna. Ef þetta mál er eins gott og þeir halda fram, þá efast ég ekki um, að verkamenn eru svo þroskaðir, að þeir aðhyllast fljótlega þetta fyrirkomulag. En ég er hræddur um, að þessir hv. þm. treysti sér ekki til þess og þess vegna beri þeir málið ekki fram í verkalýðsfélögunum, heldur hér á þingi til að fá það lögfest þvert ofan í vilja verkalýðsfélaganna.