09.11.1948
Neðri deild: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í C-deild Alþingistíðinda. (3898)

39. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Flm. (Jóhann Hafstein):

Þetta mál var hér á dagskrá í gær, en var tekið út af dagskrá samkvæmt ósk hv. 2. þm. Reykv. Ég verð að segja, eftir þessa ræðu hans, að mér virðist sem það hafi ekki skipt miklu máli, en ég skal þó víkja að nokkrum atriðum í ræðu hans.

Ég vil byrja á því að segja, að mér fannst hv. þm. förlast rökfimin í síðari hluta ræðu sinnar. Hann vildi halda því fram, að sjálfstæðismenn vildu fá þetta gert að l. til þess, að þeir fengju aðstöðu til þess að kúga verkamenn til þess að skrifa undir kröfur um hlutfallskosningar. En samtímis hélt hann því fram, að 20% væri svo stór hluti meðlimanna, að málið mundi ná fram að ganga með frjálsu móti, ef svo margir væru því fylgjandi. Ef svo er, hverju skiptir þá löggjöfin? Allur þessi vefur hans var til þess eins ætlaður að skapa tortryggni í garð Sjálfstfl. og skiptir í sjálfu sér ekki miklu máli. Það er hins vegar ánægjulegt að hafa orð hv. þm. fyrir því, að þetta muni verða tekið til greina. Sá tími getur komið, að ástæða verði til þess að minna hv. þm. á þessa yfirlýsingu. Loks er vert að minna hv. þm. á það í sambandi við tal hans um kúgun í þessu sambandi, að meiningin með frv. er ekki sú, að þessi 20% eigi að ráða viðkomandi félagi, heldur hafa þar áhrif í hlutfalli við atkvæðamagn sitt.

Í upphafi ræðu sinnar vék hann að því, að ég hefði sagt, að ekki skipti máli frá mínu sjónarmiði, hvort þetta fyrirkomulag kosninganna fengist fram með frjálsu samkomulagi eða með l. frá Alþ. En það, sem ég sagði, var, að ég teldi fullnægt efni og tilgangi þessa frv., sem hér liggur fyrir, ef hlutfallskosningu. yrði komið á af frjálsum vilja í félögunum, án þess að löggjöf frá Alþ. stæði á bak við. Annars var dálítið gaman að hlusta á þann part ræðu þessa hv. þm., þar sem hann var að tala út frá þessum hugleiðingum, að hér skildi á milli kúgunar og frelsis, hvort löggjöf ætti að standa á bak við þetta eða ekki. Hann hefur leikið áður þennan leik hér í þingsölunum, að koma fram sem einhver forsvarsmaður frelsisins í hinum ýmsu myndum þess. En þar, sem flokkar á borð við flokk þessa hv. þm. ráða, þar er gersamlega strikað yfir allt, sem heitir frelsi fyrir verkamenn um að hafa frjáls samtök og ráða afstöðu sinni til mála. Og kosningarrétturinn er útþurrkaður þar, sem flokksmenn þessa hv. þm. ráða annars staðar. Og sama mundi eiga sér stað hér á landi, ef þessi hv. þm. og flokksmenn hans næðu völdum hér á landi. Þá mundi frelsi fyrir einstaklinga yfirleitt í landinu, ekki aðeins fyrir verkamenn innan verkalýðssamtakanna, heldur fyrir borgarana yfirleitt, verða út þurrkað. — Þessi hv. þm. vék að því, að það ætti að sannfæra verkamenn um gildi hlutfallskosninga í verkalýðsfélögum og koma þeim þannig á þar. Þetta eru út af fyrir sig rök. En sannleikurinn er sá, að við nánari athugun þá er skipulag verkalýðssamtakanna á þann hátt, að það er mjög erfitt fyrir minni hluta þar að fá málum sinum framgengt. Ég er því miður ekki með lög Alþýðasambandsins og get því ekki rakið þetta nákvæmlega. En það eru sett upp í þessum félögum trúnaðarráð og alls konar ráð og nefndir, sem í raun og veru alveg ráða innan verkalýðssamtakanna. Þessi ráð og nefndir stilla upp listum og ráða úrslitum um mál. Og ef málamyndafundur hefur verið haldinn af Eimskipafélagi Ísl. í Oddfellowhúsinu, þá hafa áreiðanlega verið margir málamyndafundir haldnir af Sósfl. til að samþ. það, sem þessi ráð og n. hafa ákveðið: (EOl: Viðurkennir hv. þm., að það hafi verið málamyndafundur hjá Eimskipafél.?) Ég hef aldrei vitað til þess, að slíkir málamyndafundir hafi verið haldnir af Eimskipafél. í Oddfellowhúsinu. En ég sagði, að ef málamyndafundir hefðu verið þar haldnir, þá eru kannske fleiri málamyndafundir haldnir annars staðar. — Nú, það átti að berjast fyrir þessum hlutfallskosningum á frjálsum vettvangi, sagði hv. þm., og ekki átti að hans áliti að vera ástæða fyrir Sjálfstfl. að leggja fram frv. á Alþ. um slíkt. Og þessi hv. þm. sagði, að ekki hefði legið frammi frv. um slíkt áður. En árið 1938 bar þáverandi hv. þm. Hafnf., Bjarni Snæbjörnsson, fram á Alþ. frv. um breyt. á skipulagi verkalýðssamtakanna, þar sem m. a. var sett fram krafa um hlutfallskosningar, nákvæmlega á sama hátt og hér er um að ræða. Önnur ákvæði þessa frv., sem ekki náði fram að ganga, höfðu þau áhrif að þvinga fram að efni til það, sem sett var fram í þeim ákvæðum frv., svo að við höfum einmitt dæmi til þess, að áður hafa verið flutt fram hér á Alþ. ákvæði í frv.-formi um hlutfallskosningar og um ýmsar aðrar breyt. í verkalýðsfélögunum, sem hafa haft sín fullu áhrif, enda þótt þessi frv. hafi ekki verið samþ. sem l. á Alþ. Og það er með þetta í huga, að ég hef látið mér um munn fara, að í sjálfu sér legði ég — ekki fyrst og fremst áherzlu á að lögskipa þetta kosningafyrirkomulag í þessum félögum, ef efni frv. eða tilgangi yrði náð á annan hátt.

Að öðru leyti var þessi ræða hv. þm. sniðin við það að flytja hér fallega verkalýðsræðu, sem hann er manna leiknastur í eftir margra ára reynslu. Og í framhaldi af því sagði svo hv. þm., að Sjálfstfl. hefði nú verið lítill verkalýðsvinur fram að þessu og ætti því ekki að skipta sér af málefnum, sem verkalýðinn varða sérstaklega. Hann talaði um, að Sjálfstfl. hefði tvísvar eða þrisvar viljað lækka laun verkamanna og gert þetta og hitt, sem hann taldi, til þess að níðast á verkalýðnum, og viljað nota sér neyð verkamanna til þess að lækka kaupið. Svona slagorð eins og þetta getur maður látið sér í léttu rúmi liggja. En hann minntist alveg sérstaklega á eitt tilvik í þessu sambandi, sem voru gerðardómsl., sem sett voru til þess að lögbinda kaup, „svipta verkamenn“, eins og hann sagði, „rétti til þess að ákveða kaupgjaldið“. Og þetta var tekið fram í sambandi við það, sem áður var um deilt hér á hæstv. Alþ., hvort hagur verkamanna og atvinnurekenda færi aldrei saman. Og ég fullvissa hv. 2. þm. Reykv. um það, að einmitt slík löggjöf, sem Sjálfstfl. stóð að, byggðist á þeirri skoðun hans, að það væri í þessu tilfelli sameiginlegt hagsmunamál verkamanna og atvinnurekenda og þjóðfélagsheildarinnar að grípa til þeirrar lögbindingar, sem þarna var um að ræða, því að þar var um að ræða ákveðna hlið á lausn dýrtíðarmálanna, að stemma stigu fyrir verðbólgu í landinu. Og það liggur ekki fyrir enn; hversu mikill vinningur verkafólkinu hefur orðið að kauphækkuninni í krónutölu, á sama tíma sem verðlagið hefur stigið ört í landinu. Og þar af leiðandi náði ekki kauphækkunin að krónutölu því, að kauphækkunin yrði raunveruleg fyrir verkamenn frá því, sem áður var. Og er þetta eitt erfiðasta vandamál okkar Íslendinga í dag, dýrtíðarmálið, það, hve erfiðlega Íslendingum gengur að vera samkeppnisfærir við aðrar þjóðir vegna hins háa verðlags í landinu. Þetta mundi horfa öðruvísi við, ef stöðvun sú á dýrtíðinni, sem ráðgerð var í gerðardómsl., hefði náð að verða að veruleika. Og hv. 2. þm. Reykv. hefur ekki með ræðu sinni sannað, að verkamönnum hafi verið að því gróði einvörðungu, að kaup þeirra hækkaði að krónutölu. Þeir fengu háa krónutölu, meðan ástandið var og hefur verið svo í okkar þjóðfélagi, að um leið og kaupið hækkaði, hækkuðu í verði samhliða þær vörur, sem verkamenn þurftu að kaupa fyrir vinnu sína. Þess vegna var ekki kaupbindingin í gerðardómsl. gerð í þeim tilgangi að níðast á verkamönnum, heldur af því, að hún var talin eins mikil nauðsyn vegna verkamanna eins og annarra stétta í þjóðfélaginu. Að segja, að með þessu hafi átt að níðast á verkamönnum, er ekkert nema slagorð. En tilraunir Sjálfstfl. hafa fremur verið til að samræma hagsmuni stéttanna og stuðla að frekari sátt og samlyndi milli stétta heldur en að stofna til úlfúðar, eins og kommúnistar hins vegar vilja gera. Og kjósendur í landinu hafa tekið sína afstöðu til þessarar stefnu Sjálfstfl. Og gildi þeirrar stefnu fyrir þjóðfélagið rýrnar ekkert fyrir það, þó hv. 2. þm. Reykv. vildi kalla það nazisma, eins og hann gerði á fyrra stigi þessa máls.

Varðandi það, að Sjálfstfl. bæri að beita sér fyrir því, að hlutfallskosning yrði tekin upp í Eimskipafélagi Íslands og Vinnuveitendafélagi Íslands o. fl. félögum, vil ég segja það, að ef eins mikil þörf er á því að hafa þær þar, ætti þessi hv. þm. að beita sér fyrir því, og það ætti ekki að standa á okkur hinum að standa með þeim lýðræðiskröfum.

Það kom fram í ræðu hv. 8. þm. Reykv., að þegar hlutfallskosningar voru innleiddar í búnaðarfélögunum 1936 með l., mundi það hafa verið gert í samráði við búnaðarfélögin. Ég hef ekki fundið það í Alþt. frá þeim tíma, að þetta hafi verið gert. Og ég hygg, að það sé á misskilningi byggt hjá hv. þm., eftir upplýsingum, sem ég hef fengið annars staðar frá, enda fullyrti hv. þm. þetta ekki, heldur vék aðeins að því.

Loks var svo það atriði í ræðu hv. 4. þm. Reykv., að hann taldi fulla ástæðu til að athuga, hvort ekki ætti að setja lög um ýmiss konar skipulagsform innan verkalýðssamtakanna, samvinnufélaganna og slíkra samtaka í landinu, svo sem um fundarsköp, fundarreglur, kosningafyrirkomulag og annað slíkt. Ég vil nú segja, að þegar hann er þessarar skoðunar, þá er ekki eðlismunur á milli skoðana hans í þessum efnum annars vegar og skoðana okkar hins vegar, sem flytjum þetta frv. um hlutfallskosningar, heldur aðeins stigmunur um það, hvaða álit menn hafa um það, hvaða reglur eigi að lögbjóða varðandi skipulag innan þessara samtaka. Við höfum því, hvað eðli málsins við kemur, róið á sama bátnum, þó að nokkuð hafi sletzt upp á náungakærleikann að öðru leyti um þetta mál milli mín og hv. sessunautar míns, hv. 4. þm. Reykv.