09.11.1948
Neðri deild: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í C-deild Alþingistíðinda. (3899)

39. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þegar hv. 7. þm. Reykv. í síðari ræðu sinni um daginn gerði tilraun til þess að andmæla rökum mínum gegn því frv., sem hér er til umr., vék hann að því, að Alþfl. hefði verið því fylgjandi 1936, að hlutfallskosningar yrðu lögskipaðar í búnaðarfélögunum. Og mátti jafnvel skilja ummæli hans þannig — hvort sem það var hjá honum viljandi eða óviljandi gert —, að hlutfallskosningar væru lögskipaðar enn í búnaðarfélögunum. Ég var á því stigi málsins ekki reiðubúinn til þess að segja nokkuð um þetta frekar, — enda tæplega við því að búast, þar sem ég hef tiltölulega nýlega tekið sæti á Alþ., að ég sé kunnugur meðferð þingmála fyrir 10–15 árum. Síðan hef ég kynnt mér þetta mál. Og ég undrast lánleysi hv. 7. þm. Reykv. að hafa vakið máls á þessu atriði hér. Það er rétt, að þegar nýju jarðræktarl. voru sett 1936, voru fyrir forgöngu Framsfl. tekin upp í þau ákvæði, sem gerðu ráð fyrir hlutfallskosningum til búnaðarþings. Jarðræktarl. voru sett fyrir forgöngu Framsfl., en ekki Alþfl., þó að Alþfl. fylgdi því frv. Og ákvæðin um hlutfallskosningar í búnaðarfélögunum voru sett að tilhlutun Framsfl., enda var 1. flm. þess frv. hv. 1. þm. Árn. En hverjir voru með frv. og móti og þ. á m. þeim ákvæðum um hlutfallskosningu til búnaðarþings, sem þar voru upp tekin? Sjálfstfl. barðist gegn setningu jarðræktarl. og ekki sízt gegn þeim ákvæðum þeirra, að skylt skyldi að viðhafa hlutfallskosningar til búnaðarþings.

Og nú, ætla ég að lofa hv. 7. þm. Reykv. og öðrum hv. þm. að heyra nokkuð af þeim rökum, sem þá voru flutt af Sjálfstfl. þm. gegn því að lögskipa hlutfallskosningu til búnaðarþings og í frjálsum félagasamtökum yfir höfuð að tala. Hér segir t. d. hv. þm. A-Húnv. við 1. umr. málsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá vil ég snúa mér að skipun búnaðarþinganna, sem hv. síðasti ræðumaður hefur drepið svo rækilega á, að ég þarf ekki að fara langt út í það, enda kemur það út af fyrir sig ekki beinlínis þessu máli við, en hitt kemur málinu við, að hér skuli vera gerð tilraun til þess að brjótast með löggjöf inn á einkasvið félagsskapar, sem á að vera óháður og ráða sínum málum sjálfur. Hér er með öðrum orðum verið að beita aðferð, sem ég vil mótmæla harðlega í þessu sambandi, því að samkv. þessu frv. er það gert að skilyrði fyrir styrkveitingu samkv. jarðræktarlögunum, að það sé einhver ákveðin skipun á öllum búnaðarfélagsskapnum í landinu. Ef hér væri rétt farið að af hálfu þeirra, sem vilja breyta þessu skipulagi, þá stendur sú leið vitanlega opin að semja frv. og till. og „agitera“ fyrir þeim á eðlilegum vettvangi, sem er búnaðarsamböndin og búnaðarþingin. Á þeim vettvangi skyldi ég ræða um þessi mál við þá, en ég skal náttúrlega ekki um það segja, að hve miklu leyti ég gæti orðið þeim samdóma um breyt. frá því, sem nú er. Aðalatriðið í þessu sambandi er það, að hér er verið að útrýma félagsfrelsi íslenzkra bænda. Þessu mótmæli ég harðlega, og ég mun aldrei hér á þingi ganga inn á neina miðlun í þessu efnl. Það var skiljanlegt, að hv. flm. þessa máls væri fús til þess að taka það að sér að vinna að þeim breyt., sem farið er fram á í þessu sambandi, því að hann er kunnur að því að hafa undanfarin ár staðið við hlið þeirra manna í þessari deilu, sem vilja draga sem mest úr frelsi búnaðarfélagsskaparins, en láta ríkisvaldið ná tökunum.“

Þessi orð þarfnast engra frekari skýringa. — Annar merkur þm. Sjálfstfl., hv. þm. Borgf. (PO), sagði við þetta tækifæri um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ég held, að það sé engin þörf á því að skipa þessu á þennan hátt með lögum, því ef bændur telja sjálfir, að þeir komist á þennan hátt í lífrænna samband við Búnaðarfél. en ella, þá geta þeir sjálfir sett sér þau lög og tekið upp þetta fyrirkomulag. Það er þeirra einkamál.“

Og enn skal ég vísa í hinn þriðja hv. þm. Sjálfstfl., hv. 2. þm. Skagf. (JS). Hann segir: „En ég skal játa, að þetta út af fyrir sig er ekki neitt aðalatriði í þessu máli.“ Hann hefur áður verið að ræða um kosninguna og galla hlutfallskosningafyrirkomulagsins. „Aðalatriðið er það, að hvergi liggja fyrir óskir frá bændum um, að þessu kosningafyrirkomulagi sé breytt. Ég hef alls ekki orðið var við, að þetta væri orðað, ekki einu sinni á landsfundum bænda, en hv. flm. vitnaði mjög í það, að landssamband bænda hefði verið stofnað af því, að menn hefðu verið óánægðir með kosningafyrirkomulag Búnaðarfélags Íslands.“

Og með leyfi hæstv. forseta skal ég lesa hér nokkur orð úr annarri ræðu hv. þm. A-Húnv.: „Þá vildi hv. þm. Mýr. halda því fram, að félagið væri algerlega frjálst fyrir þessari löggjöf um sín sérmál, það hefði óskert frjálsræði í þeim málum, sem þessi félagsskapur byggist á. Þetta er algerður misskilningur, og furða, að maður, sem er í stjórn Búnaðarfélags Íslands, skuli halda slíku fram jafnframt því, sem hann mælir fram með frv., sem felur í sér bein fyrirmæli um það frá hálfu hins opinbera, hvernig kosningatilhögun öll á að vera í þeim félagsskap, sem hér um ræðir. Hér er stefnt að því að fyrirskipa um þetta atriði með jarðræktarl., sem alltaf áður hefur heyrt undir samþykktir bænda, sem sé á búnaðarþingi. Þetta er það stóra atriði, sem hlýtur að vera ágreiningur um, og frá mínu sjónarmiði stórt ágreiningsatriði í þessu sambandi, því að ég tel, að með þessu sé verið að skerða félagsfrelsið mjög óviðurkvæmilega hjá þessu félagi umfram það, sem með nokkru móti má teljast heppilegt.“

Ég held, að ekki sé hægt að gefa hv. 7. þm. Reykv. öllu rækilegar inn heldur en þessir þrír hv. samflokksmenn hans hafa gert í þessum ágætu ræðum, sem þeir fluttu fyrir tólf árum, því að þessi rök, sem þeir benda á og byggja á afstöðu sína gegn því að lögskipa vissa kosningaaðferð í frjálsum félagasamtökum, eru nákvæmlega hin sömu og þau, sem haldið er nú fram hér í hv. d., m. a. af mér, sem sé að það séu óeðlileg og óviðurkvæmileg afskipti af innri málum frjálsra félagasamtaka í landinu, sem hér er lagt til í þessu frv., sem fyrir liggur. Og ég tel, að sérstaklega séu þessi afskipti óviðurkvæmileg vegna þess, að alls engar raddir hafa heyrzt frá félagasamtökunum í landinu um það, að breyt. sú væri æskileg, sem hér er gert ráð fyrir. En á það hefur verið bent skýrt og greinilega hér, að frá engu verkalýðsfélagi hefur heyrzt nokkur rödd um það, að æskilegt sé að breyta á þennan hátt kosningafyrirkomulaginu í félögunum. Ég minnist þess jafnvel ekki, að nokkur verkamaður hafi skrifað um þetta í Morgunbl. (JóhH: Hvaða minnisleysi er þetta?)

Hvað því viðvíkur, sem er rétt, að Alþfl. á sínum tíma greiddi þessu jarðræktarlagafrv. atkv., þó að í því væru fyrirmæli um hlutfallskosningar til búnaðarþings, þá er það að segja, að ástæðurnar til þess, að Alþfl. felist á þessi ákvæði 1936, voru þær í fyrsta lagi, að Búnaðarfél. Ísl. er stofnun, sem beinlínis er kostuð af ríkinu og á að annast fyrir ríkið ákveðin verkefni. Og má segja, að þá væri nokkur ástæða til þess, að ríkisvaldið vildi hafa afskipti af innri málum þessa félagsskapar, sem þarna var um að ræða. En það er augljóst mál, að öll tengsl milli ríkisvaldsins og verkalýðsfélagsskaparins eru ekki svipuð tengslunum milli búnaðarfélagsskaparins og ríkisvaldsins. Ekkert er af ríkisins hálfu greitt í sjóði verkalýðsfélaganna, og verkalýðsfélögin hafa engin verkefni með höndum fyrir hönd ríkisvaldsins, eins og Búnaðarfél. Íslands hefur. En Alþfl. var samt sem áður ekki ljúft að fylgja þessu ákvæði. Hann fylgdi þessu frv. af öðrum ástæðum en þessu.

Og hvert er svo framhaldið af þessari löggjöf? Það var ekki aðeins við þetta tækifæri, sem sjálfstæðismenn börðust gegn þessu ákvæði jarðræktarlaganna. Þessi barátta hélt áfram. Ár eftir ár var imprað á því, að þessi ákvæði um hlutfallskosningar í lögunum væru ranglát og óeðlileg. Þessi barátta hélt áfram. Ár eftir ár var imprað á því, að þessi ákvæði um hlutfallskosningar í lögunum væru ranglát og óeðlileg. Og þessari baráttu Sjálfstfl. lauk með sigri, því að 1942 var jarðræktarlögunum breytt og þessi ákvæði um hlutfallskosningu til búnaðarþings afnumin. M. ö. o., eftir sex ára baráttu gegn lagaákvæðum frá Alþ. um hlutfallskosningar í frjálsum félagasamtökum tókst Sjálfstfl. að fá því framgengt, að lagaákvæði þessi voru afnumin. — En svo skeður það undarlega, að ekki líða nema önnur sex ár þangað til Sjálfstfl. er svo óheppinn að hafa eignazt nýjan leiðtoga í þessari hv. þd., sem tekur að sér að hefja upp mikla baráttu fyrir hlutfallskosningum í öðrum frjálsum félagsskap, sem enn síður er ástæða til að lögskipa hlutfallskosningar í en í búnaðarfélagsskapnum á sínum tíma. Vissulega er þetta ekki gæfumerki fyrir hv. 1. flm. þessa máls. Og í ljósi þeirra staðreynda, sem ég hef nú lýst, getur ekki hjá því farið, að málflutningur hv. 7. þm. Reykv. — sem hér, af eðlilegum ástæðum, hefur verið látinn róa einn á báti — þyki nokkuð einkennilegur (ÓTh: Við erum svo lítið í hv. þd., af því að þessi hv. þm. er svo leiðinlegur, sem er að tala. Það er eitt af því, sem fældi mig úr d.) Ég er mjög ánægður yfir því, að hv. þm. G-K. skuli þykja ég og málflutningur minn leiðinlegur. Mér þætti það mjög slæmt, ef honum þætti ég skemmtilegur eða eitthvað, sem ég segði. Það mundi yfir höfuð að tala hryggja mig verulega, ef hv. þm. G-K. fagnaði mér hér á Alþ.

Loks vil ég aftur geta þess, að mér finnst allur málflutningur fyrirsvarsmanna þessa frv. hafa verið mjög óheppilegur. Og mig furðar á því lánleysi hv. Sjálfstfl.-manna, að allir hv. þdm. þess fl. skyldu láta hafa sig til þess að skrifa undir þetta frv., eftir að vera búnir að tala harkalega gegn hliðstæðu frv. fyrir tólf árum hér í hv. d. og vinna sigur í því efni fyrir sex árum, þegar ákvæði laga um búnaðarfélögin voru felld úr gildi, sem voru hliðstæð því, sem hér er um að ræða að setja í lög gagnvart verkalýðsfélögunum.