09.11.1948
Neðri deild: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (3902)

39. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Það hefur lítið nýtt komið fram, síðan málið var rætt hér um daginn, en þó hefur málið fengið annan svip. Ég sló því fram, að ég myndi ekki glöggt, hvernig málum hefði verið háttað í sambandi við Búnaðarfélagið. Nú hefur hv. 4. þm. Reykv. gert því skil og hv. 2. þm. Skagf. tekið undir, að þetta hafi verið rétt, en það hafi orðið til góðs fyrir Búnaðarfélagið. En það er önnur hlið á þessu máli, sem ég tók greinilega fram og líka er gaman að athuga fyrir okkur verkamenn, en það er það, að þegar hlutfallskosningu er komið á í Búnaðarfélaginu, þá er verið að leggja fram einhver þau stærstu framlög, sem veitt hafa verið til íslenzks landbúnaðar, og þá eru hlutfallskosningar látnar fylgja því. Nú er ekkert mál, sem sýnir betur, að það þykir sjálfsagt fyrir Alþ. að taka persónulegan rétt af verkalýðsfélögunum án þess að láta nokkuð í staðinn, þegar þeir eru búnir að bera uppi sinn félagsskap í 50 ár án þess að leita til Alþ. um fjárstyrk. Það hefur allt komið frá mönnunum sjálfum, og þeir hafa byggt félagsskap sinn upp eftir því. sem bezt hefur verið fyrir þá. Það hafa fyrr komið úr þessari átt ráðleggingar til verkamanna, hvernig þeir ættu að haga sér, og þetta mál hefur fyrr komið hér fram, en í verkalýðsfélögunum hefur enginn nefnt það, en þar hefði þó átt að ræða það fyrst, og Alþýðusamband Íslands sem slíkt tók það fyrir og felldi það með öllum greiddum atkv. Hvernig stendur á þessari umhyggju? Við erum ekki vanir neinni umhyggju frá þessari samkomu. Við höfum ekki orðið varir við það, þegar um hagsmunamál okkar hefur verið að ræða. Við höfum ekki orðið varir við það, fyrr en komið hefur verið út í hörku um kjör okkar við atvinnurekendur. Og þegar við höfum eftir langa baráttu skapað okkur aðstöðu til að geta samið um kaup okkar og kjör, þá á að taka af okkur rétt. Og svo þykist Alþ. gera þetta af umhyggju fyrir okkur. Við getum vel viðurkennt, að við höfum ekki vit á að sjá fótum okkar forráð, en við gerum okkur ánægða með það og afþökkum þessi afskipti, þangað til við sjálfir erum orðnir það vitrir, að við getum það. Við álitum í flestum málum, eins og sjálfstæðismenn álitu, þegar fyrst var um að ræða kosningar til búnaðarþings, að þetta væri réttindasvipting við bændastéttina, og við viljum alls ekki réttindasviptingu við verkamenn og ekki þetta fyrirkomulag, fyrr en þeir sjálfir samþ. það. Þetta er mál verkalýðsfélaganna sjálfra, og við afþökkum öll afskipti annarra af einkamálum verkalýðsins.