11.11.1948
Neðri deild: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í C-deild Alþingistíðinda. (3910)

39. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð í sambandi við það, þegar síðasti ræðumaður, hv. 2. þm. Reykv., er bæði nú og í fyrri ræðu sinni að brýna mig á því, að sjálfstæðismenn hefðu átt að koma á hlutfallskosningu í félögum, þar sem þeir hafa meiri hluta. Það er ákaflega ósennilegt, að menn fáist til þess innan verkalýðsfélaganna að taka upp hlutfallskosningu í einstökum félögum, þegar um er að ræða kosningu fulltrúa til allsherjarþings, meðan önnur félög nota það kosningafyrirkomulag, sem nú er.

Að öðru leyti vildi ég aðallega gera athugasemdir við það, sem var meginefnið í ræðu hans, gerðardómslögin og slagsmálin 9. nóv. Ég vildi vísa því heim til föðurhúsanna, þegar hann segir, að sjálfstæðismenn hafi viljað nota sér neyð verkamanna hér í Reykjavík, svo að fleiri fjölskyldur fengju að hungra hér, eða eins og þm. komst að orði, þegar hann var að ásaka Sjálfstæðisflokkinn fyrir hinn „kaldrifjaða hugsunarhátt auðmanna, sem einkenndi flokkinn í einu og öllu“. Það ber áreiðanlega ekki svo að skilja, að þær aðgerðir, sem sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjavíkur urðu að grípa til á þeim tíma, hafi verið gerðar til að nota sér neyð verkamanna. Það var neyð almennt og yfirleitt mikil peningaekla og fátækt í atvinnulífi landsmanna, sem olli því ástandi. Ég fullyrði, að það hafi ekki verið neitt ánægjuefni fyrir þá menn, sem þá voru í bæjarstj. Reykjavíkur, að hafa ekki fjárhagsgetu til að mæta þeim óskum öllum, sem þá voru til þeirra bornar um atvinnubótavinnu. Og ég endurtek það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að það eru einungis slagorð, þegar þessi þm. er að halda því fram, að Sjálfstfl. finni fullnægingu í því að sjá sem flestar fjölskyldur hungraðar, ef það bara séu verkamannafjölskyldur.

Varðandi gerðardómsl. þá er það að segja, að ég hef aldrei haft þau orð um þau, að það hafi verið gott fyrir verkalýðinn að una við þá fjötra, sem þau settu á hann. Ég hélt því fram, að það, að sjálfstæðismenn á sínum tíma stóðu með þeim, hefði verið vegna þess, að þeir hefðu á þeim tíma álitið þau l. engu síður hagsmunamál verkamanna, en atvinnurekenda. Þau lög voru að vísu álitamál. Það, sem hv. þm. sagði, að formaður Sjálfstfl. hefði haldið fram um þetta efni, stríðir ekki á móti minni kenningu, þar sem það var að vissu leyti eðlilegt, að verkamenn vildu afnema l., þar sem þeir vildu fá kauphækkun, en í þeim var gert ráð fyrir kaupfestingu. Setuliðsvinnan hafði veruleg áhrif í þessu efni og átti að sjálfsögðu sinn mikla þátt í því, að gerðardómsl. voru afnumin, en þau voru afnumin í stjórnartíð Sjálfstfl., árið 1942.

Mér þótti leiðinlegt, að hv. þm. skyldi fara að draga úr yfirlýsingu sinni um það, að ef 1/5 hluti verkamanna mætti á fundi og legði fram ósk, þá væri mjög sennilegt, að þeir gætu ráðið. Ég sagðist mundu síðar minna hann á þessi ummæli. Ég harma, að hann skyldi draga úr þeim, en það bendir til þess, hvað hann hefur sjálfur litla trú á þessum orðum sínum.