12.11.1948
Neðri deild: 16. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í C-deild Alþingistíðinda. (3915)

59. mál, skáldastyrkur, rithöfunda og listamanna o. fl.

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þarf ekki mörg orð til að fylgja þessu frv. úr hlaði, því að því fylgir alllöng grg. — Það er kunnara en frá þurfi að segja, að undanfarin ár hafa orðið mikil og óheppileg átök um úthlutun þess fjár, sem Alþ. veitir árlega á fjárl. til skálda, rithöfunda og annarra listamanna, og úthlutunin hefur verið í höndum fjölmargra aðila. Þessi átök, sem ár hvert hafa orðið um þessi mál, hafa verið leiðinleg og til lítils sóma, og er enginn vafi, að þar mætti bæta nokkuð úr með því að koma fastari skipun á þessi mál, en verið hefur. Þeir aðilar, sem hafa annazt úthlutun þessa fjár, hafa skipt þeim mönnum, sem féð hafa fengið, í mjög marga flokka. Skáldum og rithöfundum hefur verið skipt í allt að 11 flokka, tónlistarmönnum og leikurum í allt að 8 flokka og myndlistarmönnum í allt að 4 flokka. Þessi nákvæma flokkun listamannanna hefur verið viðkvæmt mál og valdið miklu um þær deilur, sem um úthlutunina hafa staðið, og held ég, að óhætt sé að fullyrða, að æskilegt væri að gera tilraun til þess að koma hér fastari skipun á, sérstaklega að fækka úthlutunarflokkunum. Í þessu skyni mun menntmrn. hafa skipað sérstaka n. fyrir 2 árum til að gera till. um nýskipun þessara mála. N. mun hafa skilað áliti til ráðun. fyrir meira en einu ári, en ekki hafa komið neinar opinberar till. frá menntmrn. viðvíkjandi málinu. Hins vegar var hér á síðasta þingi á döfinni þál. þessu máli viðvíkjandi, og mun það hafa verið rætt meira og minna á hverju þingi undanfarin ár.

Auðvitað geta verið skiptar skoðanir um það, hvernig æskilegt sé að hafa þessar reglur, sem settar yrðu til að koma fastari skipun á þessi mál, og ég er ekki að halda því fram, að sú skipun, sem ég sting upp á, sé sú eina skynsamlega leið, sem til greina geti komið, og er ég fús til að ræða við n., sem fær þetta mál til meðferðar, um að gera breyt. á þessari skipun, ef henni sýnist það æskilegt eða skynsamlegt. En meginefni þeirrar skipunar, sem ég sting upp á, er það, að allt að tólf skáld, rithöfundar og aðrir listamenn skuli njóta fastra heiðurslauna að upphæð 6.000 kr. á ári, að viðbættri verðlagsuppbót, og skuli Alþ. taka ákvörðun um úthlutun þessara heiðurslauna. Þau geta numið rúmlega 200.000 kr., og eru þá eftir rúmlega 300.000 kr., miðað við þá fjárhæð, sem ríkisstj. ætlast til, að verði notuð á næsta ári. Ætlazt er til, að menntamálaráð skipti þeirri fjárhæð, sem ætluð er til annarra rithöfunda, skálda og listamanna en þeirra, sem heiðurslauna njóta, en þó þannig, að því fé verði ekki úthlutað í nema þrem flokkum, þ. e. a. s., að auk heiðurslaunaflokksins er gert ráð fyrir tveimur flokkum fjárveitinga til viðurkenndra listamanna (3.000 kr. og 2.000 kr.) og enn fremur sérstökum flokki (1.000 kr.) til uppörvunar efnilegum byrjendum fyrst og fremst. Þá er gert ráð fyrir því, að áður en menntamálaráð úthluti þessu fé, skuli það leita umsagnar bæði þeirra manna, sem fastra heiðurslauna njóta, og enn fremur heimspekideildar Háskóla Íslands. Hin stjórnskipaða n. mun hafa ætlazt til, að heimspekideildin hefði afskipti af úthlutun listamannalauna, og Bandalag íslenzkra listamanna mun og hafa talið æskilegt, að hún ætti fulltrúa í þeirri n., sem úthlutaði fé til listamanna. Svo er einnig gert ráð fyrir því, og það er eitt nýmælið í þessari skipun, að þeir menn, sem njóta fastra heiðurslauna, skuli njóta þeirra ævilangt, ef þeir hafa hlotið þau fimm sinnum. Jafnframt er gert ráð fyrir, að þeir menn, sem ákveðið hefur verið, að njóta skuli heiðurslauna ævilangt, skipi listaráð (akademi) og séu ríkisvaldinu til ráðuneytis og leiðbeiningar um málefni, er varða listir, auk þess sem menntamálaráð skal leita álits listaráðsins við úthlutun til annarra listamanna. Það sýnist eðlilegt, þegar verulegur hópur listamanna er þannig tekinn á föst laun, að þeim séu þá einnig lagðar nokkrar skyldur á herðar og falið að skipa sérstaka stofnun, akademi, svo sem tíðkast með öðrum þjóðum, og sem heild ætti slík stofnun að vera menntmrn. og menntamálaráði til ráðuneytis um þau málefni, sem þeir eru taldir hafa sérstaka þekkingu á. Þetta eru meginatriði frv. — Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. menntmn.