26.11.1948
Neðri deild: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

2. mál, síldarbræðsluskip

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 7. þm. Reykv. fyrir þessa skýrslu. En hún bara staðfestir það, sem ég hef haldið fram hér. Það hefur komið hér fram í beinu framhaldi af því, sem ég sagði hér í gær, að það hefur verið um tvö skip að ræða þarna frá sama félagi. Sem sé, Jón Gunnarsson hafði þau bæði á hendinni, og það var horfið frá því fyrra, af því að það var ekki klassað, en tekið það síðara, af því að það var klassað. Hitt er annað mál, að búið var að ákveða, að ekki kæmi til mála nema 7.000 tonna skip. Og hvað því viðvíkur, þá var aðeins athugað þetta skip í New York, en engin alvara hefur verið með að kaupa það. En allar athuganir fara fram á skipum, sem Jón Gunnarsson hefur og stjórn Hærings hefur álitið beztu skip í heimi. Bréfið hefur því staðfest það, sem ég sagði í gær, að stjórn Hærings var búin að ákveða allt áður en hún sendi nefndinni skýrsluna. Það eina, sem mig vantaði var þetta eina skip, sem skoðað var í New York og engin alvara var með að kaupa, þar sem það var ekki frá Jóni Gunnarssyni. Ólafur Sigurðssón hefði því getað sparað sér þessa löngu skýrslu.