26.11.1948
Neðri deild: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

2. mál, síldarbræðsluskip

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er ekki mér að kenna, þótt frosið sé fyrir vitin á hv. þm. Siglf. Það hefur verið margendurtekið, að fleiri skip voru skoðuð, og er sannað með skýrslunni. Þá segir þessi hv. þm., að stjórn Hærings hafi verið búin að binda Ólaf Sigurðsson við 7.000 tonna skip, en í skýrslunni er talað um 5–7 þús. tonna skip. Þetta sýnir, að tilhæfulaust er, að umboðsmaðurinn hafi verið bundinn við 7 þús. tonna skip, heldur þvert á móti. Þá er það einnig staðfest, að tilboð lágu fyrir um mörg skip, bæði í Evrópu og Ameríku. En hv. þm. snýr þessu bara öllu við og segir svart hvítt og hvítt svart.