03.05.1949
Efri deild: 95. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í C-deild Alþingistíðinda. (3967)

98. mál, atvinna við siglingar

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur klofnað um afgreiðslu þessa máls. 4 nm., sem skrifa undir nál. á þskj. 600, vilja láta samþ. frv. óbreytt eins og það kom frá Nd. Hv. 1. þm. Reykv. (BÓ) hefur skrifað undir með fyrirvara, og mun hann sjálfsagt gera grein fyrir, í hverju það liggur. Form. sjútvn. hefur hins vegar ekki viljað fallast á þessa afgreiðslu málsins og vill fella niður allt úr frv. nema ákvæðin í 18. gr. um endurskoðunina.

Þær breyt. við l. um siglingar, sem felast í frv., eru þrenns konar: Frv. felur í fyrsta lagi í sér aukin réttindi handa þeim mönnum, sem lokið hafa meira námskeiði Fiskifélags Íslands, þannig að nú fá þeir réttindi til þess að fara með 900 ha. vélar í stað 600 ha. véla áður. Skilyrði fyrir þessu eru ekki aukið skólanám, en aukinn siglingatími. Í sjútvn. varð ágreiningur út af þessu og einnig varð ágreiningur um þetta milli vélstjóra, sem stunda nám á námskeiðum Fiskifélags Íslands, og svo hinna, sem stunda nám við vélstjóraskólann. Af þessari tvískiptingu í náminu myndast togstreita milli þessara aðila, og af því myndast líka ágreiningur um, hvort veita skuli þessi auknu réttindi. Forsvarsmenn og nemendasambönd vélstjóraskólans telja rangt að auka réttindi hinna svo sem hér er farið fram á, en þrátt fyrir það hefur meiri hl. n. fallizt á þetta, að vel athuguðu máli, enda hefur verið mælt með þessu af Mótorvélstjórafélagi Íslands. Meiri hl. n. vill því samþ. frv. og þá um leið þessa réttindaaukningu; en á móti henni komi aftur lengri siglingatími.

Í 2. gr. frv. er sagt, að í stað „15“ í 30. gr. skuli koma: 25. Þar er verið að auka réttindi manna, sem aðeins þurfa að fá vottorð um það, að þeir séu hæfir til þess að fara með vélar. Réttindi minna námskeiðsins eru svo aukin frá 50 upp í 75 ha. Aðrar gr. eru svo þessu til samræmingar. Auk þess, að réttindin eru aukin, felst einnig sú breyt. í 16. gr., að ráðh. má veita undanþágu til skipstjórnar- og vélstjórnarstarfa, ef skortur er á mönnum til þeirra starfa. Undanfarið hafa slík leyfi verið veitt, án þess að fyrir því væri lagaheimild, þar sem skortur á mönnum til þessa starfa hefur verið svo mikill. Og þar sem málum er enn þá svo háttað, þá hefur ráðh. talið nauðsynlegt að taka þetta í lög, svo að hann geti stuðzt við einhverja lagaheimild.

Þriðja meginbreyt. með þessu frv. er sú, að í 18. gr., síðari málsgr., er tekin sú ákvörðun, að endurskoða skuli fyrir næstu áramót öll lög og reglugerðir um nám og réttindi vélstjóra. Ég vil leggja áherzlu á, að þessar námsreglur verði endurskoðaðar og samræmdar. Sjútvn. hefur rekið sig á það, að þessi tvískipting í námi er mjög óheppileg. Það þarf að skipa þessu námi í eitt kerfi, og ef námskeið Fiskifélagsins verða haldin áfram, virðist eðlilegast, að þau séu felld inn í nám vélstjóraskólans. Með því móti er hægt að samræma nám gufuvélstjóra og mótorvélstjóra. Það hefur verið þannig undanfarið, að á námskeiðum Fiskifélagsins hefur eingöngu verið kennd mótorvélfræði, en í vélstjóraskólanum hefur gufuvélanámið algerlega verið látið sitja fyrir. Þetta þarf að samræma, og því er nauðsynlegt, að þessari endurskoðun verði hrundið í framkvæmd sem fyrst. Um þetta hefur n. verið sammála, og mér skilst, að það eina, sem formaður n. vill halda eftir af frv., séu þessi ákvæði um endurskoðunina. Meiri hl. n. vill því, að frv. verði samþ. óbreytt, og telur, að í því felist engin áhætta fyrir þau skip, sem þarna koma til greina, því að þótt ekki sé krafizt aukins skólanáms, eiga allir þessir menn að hafa öðlazt næga praktíska reynslu, þar sem þeir þurfa að hafa siglt í 3 ár eftir að hafa öðlazt minni réttindin. Ég vil því fyrir hönd meiri hl. mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt.