10.05.1949
Efri deild: 102. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í C-deild Alþingistíðinda. (3976)

98. mál, atvinna við siglingar

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson) [Frh.]:

Herra forseti. Ég hef tvisvar orðið að fresta ræðu minni í þessu máli, og nú eru ekki margir þm. hér viðstaddir til þess að hlusta á þau rök, sem ég vildi færa fram. Þeir virðast ekki hafa áhuga á því að fá skýringar á málinu, þó að það sé flókið. Ég skal því ekki þreyta hæstv. forseta með fleiri rökum, en vildi áður en ég lýk máli mínu geta þess, að sjútvn. hefur borizt bréf frá Fiskifélagi Íslands, eftir að n. skilaði áliti sínu. Bréfið er dagsett 5. maí 1949, og vil ég leyfa mér að lesa það, með leyfi hæstv. forseta. Það hljóðar svo:

„Með tilliti til þeirrar afgreiðslu, sem frv. til l. um breyt. á l. nr. 66 17. júlí 1946, um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum, 98. mál, hefur fengið í sjútvn. Ed., viljum vér ekki láta hjá líða að taka fram eftirfarandi: Vér höfum bent á það í bréfi til n., dags. 28.3. s. l., að vér teldum hyggilegast að gera ekki breyt. á l. fyrr en fram hefði farið endurskoðun sú, sem gert er ráð fyrir í 18. gr. frv., enda ekki aðkallandi nauðsyn að gera neinar breytingar.“ Ég vil biðja hv. dm. að taka eftir, að hér er því haldið fram, að ekki sé aðkallandi nauðsyn að gera neinar breyt. „Í framhaldi af því viljum vér einnig benda á, að mjög væri óheppilegt að gera breyt. á einstökum atriðum l. nú, rétt áður en endurskoðun þeirra í heild færi fram. — Virðingarfyllst.

Davíð Ólafsson.“

Ég held, að þetta sé nægilegt, svo að ég á þessu stigi geti látið máli mínu lokið. Ég vænti þess, að frv. verði breytt í það horf, sem ég legg til í brtt. mínum og nál. Á þann hátt verður 1. gr. samþ. um, að viðkomandi aðilar skuli fá læknisvottorð um sjón og heyrn á fimm ára fresti. Líka stendur ákvæðið um, að ráðh. geti veitt undanþágu, og að síðustu er fyrirskipuð endurskoðun l. fyrir næsta Alþ. Það stendur að vísu í frv. „fyrir 1. jan. 1950“, en ég gæti fallizt á, að í staðinn kæmi: 1. okt. 1949. Ég sé ekki, að ástæða sé til þess að draga þessa endurskoðun. Það er bezt, að hún fari fram strax. Og verði hún falin góðum mönnum, sem vit hafa á þessum málum, ættu till. um breyt. að geta legið fyrir, þegar Alþ. kemur saman í haust. Aðra afgreiðslu á þessu máli tel ég óheppilega og beinlínis skaðlega, nema þá að vísa málinu frá með rökst. dagskrá, sem kemur í sama stað niður. Þessa löggjöf þarf að endurskoða hvort sem er, enda hefur hæstv. samgmrh. viðurkennt, að hann muni láta gera það, hvort sem frv. er samþ. eða ekki.

Ég læt þetta nægja nú og vænti þess, að hv. dm. fallist á þetta, því að það er öllum fyrir beztu og hefur minnstar hættur í för með sér.