10.05.1949
Efri deild: 102. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í C-deild Alþingistíðinda. (3978)

98. mál, atvinna við siglingar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta mál er þannig vaxið, að fáir þm. hafa aðstöðu til þess að dæma um efni þess af fullkominni þekkingu. Menn verða því að setja sig rækilega inn í málið, og ég hef reynt að kynna mér öll gögn, er fyrir liggja. Það virðist skýrt, að menn öðlist réttindi með tvennu móti. Ef menn stunda nám við vélstjóranámskeið Fiskifélags Íslands í sex mánuði og hafa auk þess verið tvö ár í smiðju, öðlast þeir réttindi til að gæta véla upp að 600 ha stærð. Nú virðist mér meginefni frv. vera, að réttindi þessara manna verði aukin, svo að þeir hafi réttindi til að gæta allt upp í 900 ha. véla. Síðan eru þeir, sem stunda nám við Vélskóla Íslands. Þeir eru tvö ár við skólanám og fjögur ár í smiðju og hafa réttindi til að gæta gufuvéla upp að 1.200 ha. og mótorvéla allt upp að 1.300 ha, ef þeir auk þess eru í rafmagnsdeild skólans í sjö mánuði. Þarna er um sjö ára nám að ræða, og þessir menn fá ekki full réttindi að því er snertir mótorvélar fyrr en þeir hafa lokið sjö mánaða námi í rafmagnsdeild. Það er þegar augljóst ófagfróðum, að þarna er um ósamræmi að ræða milli réttinda þeirra, sem hafa styttri og lengri námstíma, svo að réttindi langskólamanna eru knappari, en frv. vill auka réttindi þeirra, sem styttri hafa námstímann. Frv. eykur því þetta ósamræmi og misrétti, og samþykkt þess gæti ef til vill haft í för með sér, að ungir menn legðu ekki á sig nám í Vélskóla Íslands í tvo vetur, fjögurra ára smiðjutíma og sjö mánaða nám í rafmagnsdeild auk tilskilins siglingatíma. Ef þessi námsferill er talinn óþarfur, væri bezt að leggja Vélskóla Íslands niður og láta hitt duga.

Í sambandi við þetta mál hefur n. sent spurningar til ýmissa aðila, og sú, er varðar mestu, er á þá lund, hvort þeir telji, að þessi breyt. stuðli að auknu öryggi. Þeir aðilar, sem leitað hefur verið til, svara mjög ákveðið þessari spurningu. Skipaskoðunarstjóri svarar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Ég fæ ekki betur séð en að með þessu frv., ef að lögum yrði, sé verið að draga úr öryggi skips og skipverja, þar sem hvorki smíðanám né önnur atriði undirstöðumenntunar hafa verið aukin í samræmi við hin auknu réttindi, sem farið er fram á að fá.“ Mér finnst skipaskoðunarstjóri óhlutdrægur í þessum málum og legg ég mikið upp úr skoðunum hans. En svar hans er ekki með öðrum hætti en annarra aðila, er ætla má, að séu vel fróðir um þessi efni. — Sömu spurningu svara Tómas Guðjónsson og Þorsteinn Árnason fyrir hönd Vélstjórafélags Íslands á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Vér fullyrðum, að það veiki öryggi skipaflotans“. Þá var spurningin lögð fyrir skólafélag vélstjóraskólans, og svara henni í umboði skólafélagsins Valdimar Indriðason, Guðmundur Jónsson, Þorsteinn Ársælsson, Lárus Ó. Þorvaldsson og Ásgeir Long. Þetta eru sennilega allt nemendur skólans, og þeir svara á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta: „Vér teljum, að verði frv. þetta gert að l., muni það óhjákvæmilega veikja öryggi skipaflotans, þar sem farið er fram á réttindaaukningu úr 600 hestöflum upp í 900 hestöfl án aukins bóklegs náms“. Það má kannske segja, að hér sé ekki um alveg hlutlausan aðila að ræða, þar sem þetta eru nemendur skólans, sem telja sig verða fyrir misrétti. Ég legg ekki eins mikið upp úr þessu og hinum tveimur svörunum, sem ég hef nú lesíð upp. — Þá eru það enn 2 aðilar, sem hafa verið spurðir. Fiskimálastjóri segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Vér álítum, að frv. hafi ekki áhrif í þá átt að styrkja öryggi flotans, en hins vegar fáum vér ekki heldur séð, að það veiki öryggi flotans yfirleitt, þar sem breytingar þær, sem ráðgerðar eru, ná aðeins til mjög takmarkaðs hluta hans, eins og hann er nú.“ Undir þetta skrifa þeir Davíð Ólafsson og Þorsteinn Loftsson, vélfræðiráðunautur. Svar þeirra er hvorki með né móti frv. — Einn aðili er sá enn, sem við höfum svar frá, Mótorvélstjórafélag Íslands, er stendur að baki þessu frv. Svar þess er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Félagið telur, að frv. þetta, ef að lögum verður, muni auka öryggi skipanna, enda er þegar fjöldi vélstjóra með menntun frá meira mótornámskeiði Fiskifélagsins starfandi með undanþágum .... En eins og ég tók fram áðan um svör nemenda í vélskólanum, að ég legði eigi mikið upp úr því, að þeim þætti málið sér öndvert, þá legg ég ekki heldur mikið upp úr þessu svari, heldur hinum, sem menn, er gegna ábyrgðarmiklum stöðum standa að og óhlutdrægt líta á.

Önnur spurning hefur líka verið lögð fyrir aðila af hv. n. um það, hvort þeir telji eðlilegt að fresta þessu máli, og eru flestir á sama máli, að afgreiðslu málsins beri að fresta áður en endurskoðun fer fram á l. á árinu 1949. Nú liggur fyrir yfirlýsing frá hæstv. ráðh., að endurskoðun l. fari fram, hvort sem frv. verður að l. eða ekki. Mér þykir því auðsætt að vera ekki að knýja fram breyt. á einu atriði í löggjöf, sem er í endurskoðun. Þau atriði geta og verið til, sem meiri ástæða sé til að breyta. Alþ. er engin sérfræðileg stofnun og sér eigi fótum sínum forráð nema að leita til sérfróðra manna í þessum málum. Ég held, að það væri betra að fá heildarálit um þessi efni frá sérfræðingum og hafa það þá fyrir sér, t. d. á næsta þingi. Veigamikið atriði er það hér, að sennilega yrði það hagkvæm breyt. á vélfræðikennslunni að láta hana eigi fara fram á tveimur stöðum hjá tveimur aðilum, heldur láta hana fara fram á einum stað undir þaki vélskólans, og þar mun nægileg aðstaða til að láta kennsluna fara þar fram alla. Skapast áreiðanlega stéttarleg vandræði af því, að rígur skapaðist milli manna, sem væru útskrifaðir frá þessum tveimur aðilum, sem fara nú með kennsluna. Það á að samræma hana undir stofnun, sem einn maður veitir forstöðu. Niðurstaða mín verður því, að fyrir liggi ummæli sérfræðinga, að eigi sé til aukins öryggis að breyta þessu atriði l., og allir eru sammála um, að endurskoða beri l. í heild og sú endurskoðun yrði þá framkvæmd af sérfræðingum, en ekki sé þess nauðsyn eða til bóta, að frv. þetta verði samþ. Ég legg því til, að eigi að afgreiða málið, séu till. hv. form. sjútvn. samþ., en þar er sumt fólgið í því, sem allir eru sammála um, en hinu verði frestað. Ég álít, að sé þessi breyt. álitin góð af sérfróðum mönnum, yrði endurskoðun l. einnig til þess, að málinu væri borgið í góða höfn.