11.05.1949
Efri deild: 103. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (3981)

98. mál, atvinna við siglingar

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég var viðstaddur atkvgr. í Nd. og vissi ekki af því að þessar umr. væru komnar hér á lokastig. En um málið í heild hef ég lítið að segja annað en það, að ég óskaði eftir, að það yrði flutt, og liggur í því yfirlýsing frá mér um það, að ég óski eftir, að málið nái fram að ganga. Í Nd. varð samkomulag um málið að mestu, og stóðu að því þeir sjútvn.menn, sem fluttu það þar í d., og flestir dm.

Hv. 6. landsk. (StgrA) hefur óskað eftir því við mig, að ég gæfi yfirlýsingu í sambandi við þá brtt., sem hann ber fram á þskj. 649, en þessi brtt. fer í þá átt, að þeir, sem lokið hafa prófi frá vélfræðideild vélskólans í Rvík, skuli njóta fullra réttinda til gæzlu mótorvéla upp að 900 ha. stærð. Nú var það alveg augljóst fyrir mér, þegar þessi brtt. kom fram, að hana þyrfti að gera, því að ég hef aldrei rekið mig á neina fyrirstöðu á því, að menn með fullu prófi frá vélskólanum fengju þessi réttindi, ef þeir hafa óskað þess. Ég spurði skrifstofustjórann í rn., sem búinn er að starfa þar miklu lengur en ég, hvort hann myndi eftir því, að nokkuð þessu líkt hefði komið fyrir, og hann mundi það ekki. Ég hafði samband við skráningarstjórann og fékk það upplýst hjá honum, að hann telji af eðli málsins, að þeir menn, sem hafa réttindi yfir 900 hö í sambandi við ákvæði l., hefðu það einnig undir 900 hö, þegar þessi réttindi eru veitt, ef um þau er sótt. Mér finnst þetta liggja í hlutarins eðli og mundi, ef til mín væri leitað, framkvæma þetta á þann hátt. En hins vegar, ef Alþ. vill setja um þetta skýrari ákvæði, þá er ég ekki á móti því, því að sjálfsögðu á það að vera ótvírætt, að þeir, sem lokið hafa sínu fullnaðarprófi frá vélstjóraskólanum, eins og hér er gert ráð fyrir, hafi réttindi bæði fyrir ofan og neðan 900 hö.