16.05.1949
Efri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í C-deild Alþingistíðinda. (3994)

98. mál, atvinna við siglingar

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins greina frá því, þó að ég búist við, að allir hv. dm. hafi áttað sig á því, að frv. á þskj. 743 er eins og það var, er það kom til d. eftir fyrri meðferð í Nd. Við 2. umr. hér var meginhluti frv. felldur niður, en Nd. setti frv. í fyrra horf. Sjútvn. hafði fund um málið í morgun, og fór eins og áður, að ekki varð samkomulag. Sá sami meiri hl., er mælti með frv. við 2. umr., — einn nm. var að vísu ekki mættur á fundi, — leggur til, að málið verði samþ. óbreytt, en minni hl. er því andvígur og mun bera fram dagskrártill.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um efni frv. Málið hefur verið rætt áður, og ekki þýðir að endurtaka þau rök, er færð hafa verið fram með og móti, heldur er bezt að láta atkv. manna skera úr.