16.05.1949
Efri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í C-deild Alþingistíðinda. (3995)

98. mál, atvinna við siglingar

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara langt út í það að ræða þetta mál, því að það hefur verið rætt áður í þessari hv. d., en mér þykir rétt, áður en það er endanlega afgr., að láta koma fram tvö gögn í málinu.

Ástæðan fyrir því, að ég óskaði, að frv. væri flutt, er sú, að mér hafa stöðugt verið að berast umsóknir frá útvegsmönnum, sem eru í vandræðum með að fá menn til að starfrækja vélar, og líka að menn, er verið hafa starfandi með undanþágum, eiga það á hættu að verða að yfirgefa störf sín, þegar menn með fullum réttindum verða til. Ég hef fengið margar umsóknir og vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta, tvö bréf, er mér hafa borizt. Annað er frá h/f Jöklar, sem er eigandi „Vatnajökuls“, en hitt er frá Guðmundi Jörundssyni, sem er að láta byggja dieseltogara í Englandi. Bréf þessi skýra málið, og þó að ég muni ekki fara nánar út í þau, vil ég, að hv. dm. kynnist þeim. Bréfið frá h/f Jöklar er skrifað 25. apríl og hljóðar þannig:

„Atvinnu- og samgöngumálaráðherra, Reykjavík.

Í framhaldi af viðtali, sem herra skipstjóri Bogi Ólafsson á m/s Vatnajökli átti við yður, hæstvirtur ráðherra, þann 23. þ. m., viljum við staðfesta eftirfarandi:

Vér viljum hér með fara þess á leit, að tveimur af vélstjórunum á m/s Vatnajökli, þeim Jakobi Daníelssyni H. vélstjóra og Bjarna Guðjónssyni III. vélstjóra, verði með áframhaldandi undanþágu frá núgildandi reglugerðum heimilað að starfa áfram sem vélstjórum á skipi voru, m/s Vatnajökli.“ En þessir tveir menn eru undanþágumenn. Þeir halda áfram:

„Þar eð látið hefur verið í ljós við oss, að erfiðleikar gætu verið á, að þetta yrði veitt áfram, viljum vér hér með lýsa nánar ástæðum þeim, sem eru fyrir beiðni vorri.

M/s Vatnajökull er búinn aðalvél af nýrri gerð, og þarf góða aðgæzlu og þekkingu á vél þessari, ef vel á að ganga. Auk þess er skipið búið sérstaklega stóru, vönduðu og margbrotnu kælikerfi, og þar eð það er kæliskip, er alger nauðsyn, að kerfi þetta sé alltaf í fyllsta lagi.

Jakob Daníelsson og Bjarni Guðjónsson hafa unnið á annað ár á m/s Vatnajökli sem vélstjórar. Á þessu tímabili hafa ýmsir konstruktions-gallar á vél skipsins gert nauðsynlegt að taka vélina sundur og setja hana saman og gera við hana hvað eftir annað. Hafa því vélstjórar skipsins öðlazt mikla reynslu í meðferð vélarinnar, byggingu hennar og öllum sérkennum.

Kælikerfi skipsins hefur allan þann tíma, sem menn þessir hafa unnið við það, gengið alveg sérstaklega vel, enda hafa vélstjórar þessir mjög góða þekkingu og reynslu í meðferð slíkra véla, þar eð annar þeirra a. m. k. vann mjög lengi við slík kerfi í landi, áður en hann réðist á skipið. Álítum vér hann hiklaust einn af færustu mönnum í þessari grein hér á landi og þó að víðar væri leitað. Má hér geta þess, að þegar m/s Vatnajökull var síðast í Kaupmannahöfn, leituðu verkfræðingar Burmeisters & Walns upplýsinga og ráðlegginga um freon-kælikerfið hjá vélstjórum þessum og undruðust mjög, hve vel kælikerfið í m/s Vatnajökli ynni. Auk þess hafa báðir unnið við mótorvélar og almennar smíðar í um tuttugu ár, fyrir utan að þeir hafa báðir próf frá Mótorskóla Íslands.

Af reynslu vorri af mönnum þessum í meira en ár getum vér lýst yfir því, að vér treystum þeim betur, en nokkrum öðrum til starfa þeirra, sem hér um getur, og yrði erfitt að reka skipið með nýjum og óreyndum mönnum. Viljum vér hér benda á, að verðmæti farms í m/s Vatnajökli nemur ca. 3 millj. kr., og ef kælikerfið bregzt, er farmurinn algerlega ónýtur. Höfum vér reynslu fyrir því“, — þetta vildi ég leyfa mér að undirstrika, án þess þó að ég leggi nokkurn dóm á það, — „að menn með fullkomnum réttindum frá vélskólanum í Rvík hafa ekki nægilega þekkingu í meðferð frystivéla til þess, að þeir geti hiklaust tekið við rekstri og umsjón frystikerfis eins og þess, sem er í m/s Vatnajökli, enda mun kennsla í þessum efnum í skólum hér vera mjög takmörkuð og verkleg kennsla engin.

Af þessum ástæðum viljum vér mjög eindregið endurtaka beiðni vora um, að báðum áðurnefndum vélstjórum verði veitt umbeðin undanþága, og væntum vér þess, að þér, hæstv. ráðh., sjáið yður fært að verða við beiðni vorri.

Virðingarfyllst. H/f Jöklar“.

Bréfið er undirritað af Ólafi Þórðarsyni framkvæmdastjóra, Boga Ólafssyni skipstjóra, Sigurlaugi Sigurðssyni 1. vélstjóra og Gísla Hermannssyni verkfræðingi, er að nokkru mun vera kennari við Vélstjóraskóla Íslands.

Hitt bréfið, er ég vildi leyfa mér að lesa, er frá Guðmundi Jörundssyni, skrifað í Lowestoft 16. apríl 1949. Það er svona:

„Herra samgöngumálaráðherra Emil Jónsson, Hafnarfirði.

Eins og yður mun ef til vill reka minni til, þá hef ég nú í smíðum í Englandi dieseltogara, sem ég hef gefið nafnið Jörundur. Togari þessi er nú fullgerður í maímánuði næstkomandi og fer þá strax á veiðar. Í sambandi við það, að við íslenzka flotann bætist nú eitt dieselskip, en mjög mikill skortur er á mönnum með fullum réttindum til þess að gæta þessara stóru og margbrotnu dieselvéla, þá sný ég mér nú til yðar, háttvirtur ráðherra, til þess að biðja yður liðveizlu í þeim málum.

Þannig háttar til, að talsvert er nú til af vélgæzlumönnum með 600 hestafla réttindum frá hinu meira vélstjóraprófi Fiskifélags Íslands. Fjöldi af þessum mönnum hafa fengið talsvert langan og góðan gæzlutíma við dieselvélar á síðustu árum og eru nú, eftir því sem mér telst til, 25 að tölu með undanþágu á hinum stærri skipum íslenzka flotans. Að vísu er til eitthvað af eldri mönnum með fullum réttindum, sem voru áður í Vélstjóraskóla Íslands og hlutu þar réttindi til gæzlu á dieselvélum, en þeir hinir sömu menn hafa ekki hlotið nema sára litla reynslu við þær, sökum þess að íslenzki flotinn var nær eingöngu knúinn gufuvélum allt fram á síðustu ár. Þessir menn, sem í daglegu tali kallast gufuvéla-vélstjórar, munu að allra áliti, sem til þekkja, naumast koma til greina sem vélstjórar við þessar stóru dieselvélar og þeir sjálfir ógjarna vilja taka það verk að sér. Hvað viðvíkur þeim mönnum, sem á seinni árum hafa komið út úr Vélstjóraskóla Íslands, þá eru þeir stutt á veg komnir, þar sem þá vantar þann gæzlutíma við dieselvélar, sem krafizt er í lögum, til þess að þeir nái fullum réttindum. Eins og nú standa sakir, þá lítur út fyrir, að það muni vanta 35 menn með fullum réttindum, þegar heim er kominn allur sá floti, sem nú er í smíðum fyrir Ísland.

Að öllu þessu athuguðu, þá mun yður, háttvirtur ráðherra, vera ljós sá vandi, sem við eigendur dieselvélaskipa höfum við að etja í þessum efnum, og að eigi má svo við skilja, að ekki verði gerðar einhverjar úrbætur fyrir framtíðina, en það mun að áliti flestra skipaeigenda naumast betur lagfært en með því, að fram nái að ganga frumvarp það, er nú liggur fyrir Alþingi og hefur þegar verið samþ. í annarri deild þingsins. Nú eru það vinsamleg tilmæli mín til yðar, háttvirtur ráðherra, að þér beitið yður fyrir því, að þetta mál nái fram að ganga og réttindi þeirra vélstjóra frá meira vélstjóraprófi Fiskifélags Íslands, sem hlotið hafa 600 ha. réttindi, verði hækkuð svo verulega, að það komi að gagni fyrir hin nýju dieselvélaskip.

Virðingarfyllst, Guðmundur Jörundsson“. Það er orðið svo áliðið, að ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta, en ég taldi rétt, að þessar upplýsingar kæmu fram, svo að hv. þm. vissu hug þessara útvegsmanna til málsins. Það er rétt, að ýmis sjónarmið koma hér til greina, en þetta er eitt. Útvegsmenn vona, margir fleiri en þeir, sem ég hef nefnt hér, að þeir, sem starfað hafa hjá þeim, fái réttindi til að starfa við stærri vélar og einnig, að þeir, er hafa verið með undanþágu við stærri vélar, fái rétt til að gæta þeirra, ef þeir hafa það mikla reynslu og þekkingu, að útvegsmenn bera fullt traust til þeirra. Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar.