16.05.1949
Efri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í C-deild Alþingistíðinda. (4001)

98. mál, atvinna við siglingar

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Ég þakka hv. þm. Barð. (GJ) fyrir þá fræðslu, sem hann veitti mér og öðrum dm. um vélfræðideildina og vélstjóraskólann. En hins vegar kann ég honum engar þakkir fyrir að hafa rangt eftir mér það, sem ég sagði um daginn um þá, sem þar skrifast út, og hvað ég áliti. Ég sagði þá og tók greinilega fram, að ég væri þeirrar skoðunar og skrifstofustjóri rn., að veita bæri þeim vélstjórum, sem hafa réttindi yfir 900 hö., einnig réttindi fyrir neðan 900 hö. Málið er flutt við mig þannig, að af einhverjum ástæðum hafi vélstjórar ekki réttindi fyrir neðan 900 hö. Það er því á þessum grundvelli, sem ég sagði, að ef það væri svo, þá skyldi ég sjá til þess, að þetta væri staðfest af skrifstofustjóranum, að þeir, sem hefðu réttindi yfir 900 hö, hefðu það einnig þar fyrir neðan, það leiddi af sjálfu sér. Meira sagði ég ekki.

Um málið í heild og ræðu hv. þm. Barð. er óþarfi að vera langorður. Ég er sammála því, að l. verði endurskoðuð, sú endurskoðun fari fram í sumar og það verði áður en þing kemur saman næst búið að ganga frá henni bæði hvað snertir vélstjóraskólann og mótornámskeiðin og athuga, hvort ekki mætti skipa þeim svo saman, að það gæti verið einn skóli, t. d. í tveimur deildum, og yrði þá vel séð fyrir þessum greinum báðum. Ég hef látið mér skiljast, að það sé enginn færari um að stjórna þessum stóru mótorum en menn, sem hafa gengið á mótornámskeiðin og hafa langan praxis og langan siglingatíma, og þetta er það sjónarmið, sem ég held, að standist fullkomlega, hvað sem öðru líður í þessum málum yfirleitt. Það starfa undanþágumenn á æði mörgum skipum, sem hafa vélar yfir 600 hö. Ég hygg, að þeir séu a. m. k. 20–30, og hefur þótt fært að gera þetta af einhverjum ástæðum og ekki verið talið rýra öryggi skipanna meir en svo, að þau gætu gengið, og hefur ekki verið kvartað undan því, að þessir menn hafi ekki innt störf sín af hendi. Það kann að vera, að það komi nýir menn, sem geti farið í far þeirra og tekið upp störf þeirra að einhverju leyti. En ef ekki er undan störfum slíkra manna kvartað og þeir kunna þau, er þá ástæða til annars en að þeir fái löggilta samninga þings og stjórnar til þess að inna það starf af höndum, sem þeir hafa unnið mörg undanfarin ár og sýnt; að þeir hafa getað? Það er verið að líkja hér saman iðnaðarnáminu og þessu mótornámi, en mér sýnist það tvennt ólíkt. Það hefur enginn dregið í efa, að gufuvélstjórar, sem hafa lært í vélstjóraskólanum frá fyrstu tíð, hafa réttindi til að stjórna gufuvél. Það er það, sem þeir hafa aðallega lært, og þótt sá aðili fái kannske einhvern lærdóm í mótorvélfræði, þá efast ég um, að það sé meira en það, sem þeir menn fá nú á námskeiðunum. Ég held þess vegna, að það þyrfti ekki að verða að neinu tjóni, hvorki fyrir eina stétt né aðra og ekki heldur fyrir eigendur þessara skipa, sem hér eiga hlut að máli, né öryggi þeirra manna um borð, þó að þessir menn fengju réttindi til þess að halda starfinu áfram, sem þeir átölulaust hafa innt af hendi með sóma á undanförnum árum. Þegar maður fer í iðnnám, lærir hann að vera við nám í þeirri iðngrein, sem hann stundar nám í. En ef hann lærir t. d. að vera í trésmíði, þá getur hann ekki verið múrari, eða öfugt. Þetta starf er ekki sambærilegt. Maður á að fá að stunda það starf, sem hann hefur lært, og annað ekki. Það, sem hefur orðið útundan í námi okkar til síðustu stundar, er mótorvélanámið. Því hefur ekki verið sýndur sá sami sómi við kennsluna og gufuvélanáminu. Þessu þarf að breyta, þetta þarf að samræma. Nokkur hluti þessa mótorvélanáms fer fram á vegum Fiskifélagsins og undir þess stjórn og undir stjórn sjútvmrn., og nokkur hluti þessa náms, eða annar hluti, fer fram á vélstjóraskólanum undir stjórn menntmrn., en framkvæmd þessara mála kemur svo í minn hlut, undir samgmrn. Þetta er svo skipt á mörgum stöðum, svo sundurlaust og svo ókerfisbundið, að það þarf endurskoðunar, og hygg ég, að menn séu sammála um, að það þurfi að endurskoða þessi mál, og ekki meira um það. Hitt er víst, að það liggur hjá mér fjöldi bréfa eins og þessi tvö, sem ég las upp, þar sem beðið er um undanþágu fyrir þessa starfsmenn, en það er ekki undanþáguheimild í l., þó að þær séu veittar, og undanþáguheimild er löglaus athöfn. Þetta er einungis gert vegna þess, að öllum aðilum þykir það of viðurhlutamikið að stöðva skipin af því, að ekki eru menn til á þau. En sá háttur er hafður á afgreiðslu þessara mála, að leitað er umsagnar, í flestum tilfellum viðkomandi fagfélaga, og ef hún er jákvæð, er undanþágan veitt, en l. heimila það ekki, og vitanlega er það jafnlöglaust fyrir því, þó að eitthvert stéttarfélag samþ., að l. séu brotin. En það er raunverulega það, sem skeður, að l. eru brotin fyrir það í hvert skipti, sem undanþága er veitt, en fyrr fá þeir ekki réttindi til að fara út á skipin. Ég veit ekki, hvort hv. þm. Barð. vildi taka þá ábyrgð á sig að hætta að veita þessar undanþágur og að skipin stöðvuðust. En ef l., eins og þau nú eru í gildi, væru framkvæmd eins og þau eru, þá þýddi það, það að sennilega flest eða mörg af þessum skipum með undanþágumennina yrðu að stöðvast, af því að það fást ekki menn, sem hafa full réttindi, á þau öll. Svo er hitt annað mál, að skipaeigendur vilja heldur í sumum tilfellum, eins og kom fram í bréfunum, sem ég las, fá mennina, sem gegna störfum, með undanþágu en fulllærða menn frá vélstjóraskólanum, og hafa borið ýmsu við, eins og bréfin bera með sér. Hvort allt er rétt frá skýrt í bréfunum, veit ég ekki. Hv. þm. Barð. vildi láta líta svo út eins og ég segði það, sem í bréfunum stendur, en ég lét það koma fram sem sjónarmið þeirra manna, sem bréfin skrifa, og ég býst við, eð þessir menn, sem hér skrifa undir, geti vel staðið fyrir sínu máli, en það er við þá að sakast um þessi bréf, en ekki mig.

Hv. þm. spurði: „Á hvaða skip eiga þeir að fara, sem koma út úr skólunum?“ Ég ætla, að það opnist fyrir þeim pláss, eins og öðrum nýjum mönnum, sem út úr skólum koma, þó að þetta verði samþ. Hitt er annað mál, hvort maður, sem er nýkominn út úr skóla, eigi að geta gengið á hvaða skip sem hann vill af þessum undanþáguskipum, sem eru a. m. k. 8 starfandi við ströndina, og valið úr einhvern mann og sagt: Í sæti þessa manns vil ég setjast og annað ekki, — en það getur hann eins og l. eru nú. Ég hefði talið réttara að fara eftir eðlilegum leiðum, en að eigendur skipanna væru að einhverju leyti sjálfráðir um það, hvaða menn þeir hafa í þjónustu sinni, ef það eru menn, sem óhætt er að treysta og að þeirra dómi ætti að vera óhætt að treysta eftir þeirri reynslu, sem þeir hafa fengið af þeim.

Hv. þm. spurði, hvað Fiskifélagið kenndi í meðferð á frystivélum. Ég er því ókunnugur, enda kemur það ekki þessu máli við. Það hefur verið rætt í bréfi frá öðrum aðilanum, sem hér lá fyrir, og það hefur verið rætt um það, að þeir, sem þar eru í starfi, væru vanir meðferð þeirra véla og hefðu kynnt sér þær alveg sérstaklega, og hafa verið leidd rök að því, að þeir væru sérstaklega færir um það starf, og það hefur verið bent á það, að þeir, sem út úr vélstjóraskólanum kæmu, væru ekki betur að sér, og mér skilst á bréfunum, að þeir eigi að vera ekki eins vel að sér í þeim málum og þessir tveir menn, hvort sem það er rétt eða ekki. Þessir tveir menn, skipstjóri og 1. vélstjóri, sem er frá vélstjóraskólanum, komu til mín og óskuðu eftir því, að þessi mál færu fram á þann hátt, sem ég hef nú lýst. Báðir skrifuðu undir þessi bréf og sögðu mér, að þessi maður hefði eitthvað fengizt við kennslu í meðferð frystivéla, og ég tók það náttúrlega eins og þeir sögðu mér, það. Ég áleit, að þessar upplýsingar væru réttar, en það er að sjálfsögðu athugandi, hvað rétt er í því efni og hvort sannara reynist.

Hv. þm. minntist á þau skip, sem eru undir því rn., sem ég hef með að gera, og það er rétt, að þar starfa ákaflega margir menn, bæði gufuvélstjórar og raunar aðrir líka, menn, sem hafa réttindi eingöngu frá vélstjóranámskeiðum og hafa reynzt vel, og er ekkert um það að segja. En hitt er mér kunnugt um, að sumir af þessum mönnum hafa áður en þeir tóku að sér meðferð þessara gufuvéla farið til þess að kynna sér sérstaklega mótorvélarnar, áður en þeir tóku að sér að sigla með þær. Ég segi þetta ekki mönnunum til lasts, heldur til lofs, en það bendir til þess, að þeir hafi ekki viljað taka að sér fulla ábyrgð á vélunum nema hafa einhver kynni af þeim umfram það, sem þeir fá í skólanum. Ég þekki gufuvélstjóra, sem hafa verið með gufuvélar sínar í mörg ár. En áður en þeir skiptu um yfir í mótorvél, sigldu þeir alllangan tíma með mótorskip til þess að kynna sér málið betur og afla sér upplýsinga, sem þeir töldu sig ekki hafa frá skólanum. — Ég skal svo ekki fara frekar út í þetta, en tel það aðalatriði, að þessi breyt. yrði á l. gerð og nákvæm endurskoðun færi síðan fram um það, hvernig þessum málum ætti að skipa í framtíðinni, bæði á skóla og í praxis, hvað menntun snertir og réttindi, en þangað til það yrði, þá yrði þessi skipun höfð á þessum málum, að menn sigli ekki réttindalausir eins og þeir hafa gert. Ég sé ekki, að í því sé fólgið neitt meira öryggi fyrir skipin, þó að maður sé réttindalaus, heldur en með réttindi, en það er það, sem gert er nú.

Um breyt. á umreikningum í hestöfl, sem hv. þm. bar fram, þá gerði ég mér ekki grein fyrir því eins og hann hefur það. Það getur verið, að það sé rétt, en ég leyfi mér að efast um það, og ég held þó a. m. k., að það sé skaðlaust, þó að sami reikningsmáti sé á því hafður. Ég hefði lagt til, að þegar endurskoðun færi fram, væri þetta atriði tekið til athugunar, en að setja sérstök l. um þetta atriði nú, tel ég ekki ástæðu til, ef ekki er breytt að öðru leyti.

Ég held það hafi ekki verið fleira í ræðu hv. þm., sem ég þarf að svara. Ég las ekki upp þessi bréf, sem ég las upp áðan, til þess að gera þeirra orð að mínum, heldur þvert á móti. Það er óathugað af mér, hvernig í þessu máli liggur, og ég las þetta upp til þess að menn hér í d. fengju að kynnast bréfum, sem dags daglega berast til míns rn. frá útgerðarmönnum um það, að veita þeim mönnum, sem hér um ræðir, undanþágu. Að láta þá sigla með undanþágu er ekkert meira öryggi en að láta þá sigla með réttindum.