31.01.1949
Efri deild: 51. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

2. mál, síldarbræðsluskip

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég sé enga ástæðu til að geyma greinargerð mína til síðari umræðu, þótt ég búist raunar ekki við að vera fjarverandi, er þar að kemur.

Ég vil þá fyrst, út af orðum hæstv. forseta, er hann benti á, að þetta væri 2. mál þingsins, minna á það, að málinu var vísað til n. 29. nóv. í haust, og er ekki nema réttmætt að finna að því, hve lengi hefur dregizt að afgreiða málið úr nefndinni. En ég vil nú lítillega skýra frá gangi málsins þar. Á fyrsta fundi n. eftir að hún fékk þetta mál til meðferðar, var hv. 1. þm. Reykv. ekki mættur. Og sannleikurinn er sá, að nm. voru ekki það fylgjandi málinu, að nokkur þeirra, sem á fundinum voru, vildi vera frsm. í því. Við töldum því rétt að biða eftir fimmta manninum í n., enda fór það svo, að hann tók að sér framsögu í málinu, og hafa 3 aðrir nm nú skrifað undir álit með honum. Ég hef hins vegar ekki getað orðið þeim sammála um það að leggja til, að frv. verði samþ., og skal skýra þá afstöðu mína með nokkrum orðum.

Þegar hér var til umræðu frv. til l. um frestun ýmiss konar lagaframkvæmda á síðasta þingi; það er hinn svokallaði bandormur, þá var á síðustu stundu hnýtt aftan í það frv. heimild til ríkisstj., þó að sú heimild ætti þar alls ekki heima, um að greiða 1.250 þús. kr. frá ríkissíldarbræðslunum til að leggja í Hæring h.f. Það er mál út af fyrir sig, að S. R. áttu ekki þetta fé til og þurftu að taka lán til viðbótar því, sem þær skulduðu ríkinu, til að inna þessa greiðslu af hendi. Þegar þetta var hér til umræðu, gerði ég ágreining út af því að leggja fram fé ríkisins til að borga með 45 ára gamalt skip, sem búið var að kaupa í algeru heimildarleysi. Ég benti þá á, hve óhentugt þetta skip væri til þeirra hluta, sem átti að nota það, og yfirleitt til allra hluta. Ég var að sjálfsögðu fylgjandi þeirri merku tilraun á sviði atvinnu- og framleiðslumála, sem gera átti með verksmiðjuskip. En einmitt vegna þess, að ég vildi, að þessi tilraun gæfi góða raun og fjárhagslegt öryggi fyrirtækisins yrði tryggt, þá vildi ég ekki kaupa þetta langelzta skip, sem komið hefur til landsins, í þessu skyni. En tilraunina vildi ég gera, og þá fyrst og fremst af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi til að bjarga stórkostlegum verðmætum við Faxaflóa, og í öðru lagi til að láta skipið vinna á sumrum á þeim stöðum, sem síldin er í það og það sinn, en litlar eða engar verksmiðjur, eins og t.d. á Seyðisfirði, Húsavík og fleiri stöðum. En ég álít, að þá hefði átt að athuga að kaupa skip, sem einhvers virði var út af fyrir sig, ef tilraunin þætti ekki gefast vel og þurfa þætti að taka úr því vélarnar, sem nota mætti þá í landi, hvar sem væri. Ég benti á það í fyrra, og er sömu skoðunar enn þá, að ef fyrirtækið stenzt ekki fjárhagslega, þá verður að taka vinnsluvélarnar úr því í land, og þá þyrfti að vera hægt að nota skipið til einhvers gagns, til einhvers annars en síldarbræðslu, ef árangurinn af henni yrði ekki sá, sem stefnt væri að, eða ef réttara þætti að kaupa annað skip til síldarbræðslu. En þetta skip gæti aldrei orðið samkeppnisfært sem flutningaskip, ef vélarnar væru teknar úr því, og aðeins söluhæft úr landi sem brotajárn. Það er heldur ekki sem verksmiðjuskip haffært á milli landa að minni skoðun, en milli landa þarf það nauðsynlega að fara til skoðunar og eftirlits. Það er vitað mál, að hér á landi er ekki hægt að taka þetta skip upp til hreinsunar og eftirlits, hér vantar bæði þurrkví og dráttarbraut til þess. En það er með öllu nauðsynlegt að taka slíkt skip í þurrkví einu sinni á ári, og þyrfti helzt að gera það á 6 mánaða fresti, og mála það og hreinsa, skoða skipsbotninn og framkvæma annað nauðsynlegt eftirlit. Og ég er ekki einn um þá skoðun, að þetta skip sé ekki haffært. Skipaskoðunarstjóri hefur lagzt á móti þessum kaupum, sbr. bls. 2 á þskj. 116. Hann telur engan veginn frambærilegt, að kaupa 45 ára gamalt skip til landsins. Súðin þótti æði gömul þegar hún var keypt 25 ára, og hefur mikið verið um það talað, en hún er barn hjá þessari ömmu. Enn fremur bendir skipaskoðunarstjóri á, að ekki sé leyfilegt að kaupa þetta skip samkvæmt l. um eftirlit með skipum frá 5. júní 1947. En þó er þetta miklu meira fjárhagsatriði, en öryggisatriði, því að undireins og skipið er komið inn í landið, er það jafnframt komið undir ákvæði þeirra laga um eftirlit með skipum, sem ég nefndi áðan, og verður að uppfylla kröfur þeirra laga. En um fjárhagslega öryggið gegnir öðru máli, því að það er vitanlegt, að skipið getur aldrei orðið samkeppnisfært sem flutningaskip, ef það þyrfti að taka úr því vélarnar síðar meir eða strax.

Ég bendi á, að hæstv. ráðh. sjávarútvegsmála hefur með bréfi frá 22. júlí í fyrra, eftir að brbl. voru samþykkt, gefið leyfi til að flytja skipið inn, en þó með tveimur skilyrðum. Hið fyrra var það, að skipið yrði eingöngu notað til síldarvinnslu í höfnum inni, og fylgdi þá ekkert leyfi til þess, að skipið mætti sigla á milli hafna, en síðara skilyrðið fyrir innflutningnum var það, að fjárhagsráð veitti nauðsynleg gjaldeyris- og innflutningsleyfi. Þetta er ákaflega undarlegt. Veit hæstv. ráðh. ekkert, hvað gerist í viðskiptanefnd og fjárhagsráði, sem heyra þó undir hann. Veit hann ekki, að þau leyfi, sem hann talar um í júlí og setur að skilyrði fyrir innflutningi skipsins, höfðu þá verið gefin út í fjárhagsnefnd og viðskiptaráði fyrir 4 mánuðum, eða í marz 1948. En ráðh. virðist ekki vera kunnugt um, að búið er að leyfa að taka af hinum dýrmæta og nauma gjaldeyri þjóðarinnar til að flytja inn þetta lélega verðmæti löngu áður en hann setur þessi skilyrði. Mér dettur ekki í hug, að gjaldeyrisyfirvöldin hafi ekki þekkt lögin, og því síður, að þau hafi vísvitandi verið að fremja lagabrot með því að gefa út þessi leyfi, heldur að þetta hafi allt verið talið leyfilegt samkvæmt því valdi, sem fjárhagsráði er veitt með lögum, að það geti veitt leyfi, hvað sem önnur lög segja um það. Og sé það rétt, var óþarfi að gefa út brbl. um innflutning þessa skips, og þá er ekki heldur ástæða til að samþ. þetta frv. Skipið er komið inn í landið, með löglegum eða ólöglegum hætti, það læt ég liggja á milli hluta. Hafi þessi stofnun tekið sér vald án lagaheimildar, sem ég er þó ekki að segja, þá sé ég enga ástæðu til að vera með þessu frv., og ekki sé ég heldur ástæðu til að fylgja því, ef fjárhagsráð hefur haft fulla lagaheimild til að veita innflutninginn, svo að í báðum tilfellum er ég á móti að samþ. þetta frv. Í fyrra tilfellinu er rangt að samþykkja frv., í síðara tilfellinu er óþarft að gera það. Það þarf ekki að senda skipið aftur burt úr landinu, þótt frv. verði fellt og í ljós komi, að innflutningurinn sé ólöglegur, heldur koma fram ábyrgð á hendur þeim aðilum, sem hafa tekið sér leyfi til að kaupa til landsins 45 ára gamalt járnarusl. Ég vil a.m.k. ekki vera með þessu frv.