31.01.1949
Efri deild: 51. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

2. mál, síldarbræðsluskip

Frsm. meiri hl. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Af því að ég tafðist af óviðráðanlegum ástæðum og gat ekki komið fyrr á þennan fund, þá hefur hv. þm. Barð. nú fært fram sín rök fyrst fyrir því, að fella beri þetta frv. Hér liggur nú í raun og veru ekki fyrir, a.m.k. ekki frá sjónarmiði n., að deila um það, hve heppilegt hafi verið að gera þessa tilraun, heldur eingöngu að staðfesta bráðabirgðalögin, sem gefin voru út í sambandi við innflutning skipsins. En ef ég ætti að fara út í hina hliðina, þá mætti margt ræða um málið, m.a. þá ráðstöfun Alþ. í fyrra, að láta síldarverksmiðjur ríkisins, skuldum vafnar með ekkert handbært fé, leggja fram á aðra milljón króna í hlutafé og auka skuldir sínar um alla þá upphæð. En þetta er annað mál.

En þó að n. leggi til, að frv. verði samþ., þá getur hún ekki annað en tekið fram þá óvenjulegu meðferð, sem málið hefur sætt, m.a. það, eins og hv. þm. Barð. sagði, að innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir skipinu virðast hafa verið veitt löngu áður en brbl. voru gefin út. Þær upplýsingar eru frá fjárhagsráði sjálfu, og ef það er rétt, er sýnilegt, að innflutningsnefndin hafði enga heimild til að veita leyfi til að flytja inn skip, sem var eldra en 12 ára. Viðskiptanefnd getur ekki tekið sér vald, sem bannað er með lögum.

Annað atriði er það, sem n. vill sérstaklega taka fram, en það er aldur skipsins, að vera að kaupa 45 ára gamalt skip til landsins. En eins og n. hefur tekið fram, telur hún ógerlegt að ónýta það, sem gert hefur verið í sambandi við þetta skip, og er það aðallega með tilliti til þess mikla kostnaðar, sem þegar hefur verið lagt í. Nefndin leggur því til, að frv. verði samþykkt, af því að hún telur ekki annars úrkostar.