01.02.1949
Efri deild: 52. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

2. mál, síldarbræðsluskip

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð, aðallega til þess að skýra, hvernig það bar að, að þessi brbl., sem hér er verið að leita staðfestingar á, voru sett. Mér barst frá h.f. Hæringi bréf, dags. 20. júní s.l., þar sem þess var farið á leit, að ráðuneytið leyfði undanþágu frá skipaskoðunarl. um það, að flytja mætti inn þetta margumrædda skip, sem félagið segist þá hafa keypt í Ameríku og væri smíðað árið 1903 og því 45 ára gamalt. Ráðuneytið bar þetta undir skipaskoðunarstjóra, sem taldi, að málið lægi þannig fyrir, að hann gæti ekki lagt til, að innflutningsleyfi fengist fyrir skipið að l. óbreyttum. Var þá sérstaklega miðað við það, að mér fannst, bæði af þessu bréfi og viðtali við þennan mann, að hann óttaðist það fordæmi. sem þetta mundi skapa, ef þetta gamla skip yrði flutt inn að l. óbreyttum. Þess vegna varð að ráði milli mín og hans, að um þetta yrðu sett sérstök l., þar sem veitt væri heimild til að flytja inn þetta sérstaka skip í þessum ákveðna tilgangi, þannig að ekki gæti skapazt neitt fordæmi um almennan innflutning gamalla skipa. Grundvöllur l. er miðaður við það, að skipið starfi aðallega á höfnum inni. Mér þótti það viðurhlutamikið, þegar skipið hafði verið keypt, að neita um þetta leyfi, þó að vitaskuld megi mjög deila um það, hvort rétt sé gert, þar sem um svona gamalt skip er að ræða. En það var þó fullyrt af fagmönnum, sem skoðuðu skipið og keyptu í Ameríku, að það væri eftir hætti mjög vel á sig komið og hefði verið til þess vandað í upphafi, einnig að skipið mundi vera heppilegt til þeirrar starfsemi, sem ætlað er að hafa um hönd í því. Ég taldi þess vegna ekki — og ráðuneytið —, að hægt væri að synja um þetta leyfi, og að þessi leið, sem hér hefur verið farin, sé sú eina rétta til þess að forðast fordæmi fyrir áframhaldandi innflutningi af svipuðu tagi.

Þetta er um tilefni og aðdraganda að setningu brbl. Um hitt vildi ég fara nokkrum orðun, sem fram kom í umr. í gær, að innflutnings- og gjaldeyrisyfirvöld hefðu farið út fyrir sitt verksvið með því að veita innflutningsleyfi fyrir skipinu, áður en brbl. höfðu verið samþ. Þetta skildist mér vera meiningin hjá hv. þm. Barð. Þetta tel ég vera að nokkru leyti á misskilningi byggt. Til þess að h.f. Hæringur gæti flutt inn skipið, þurfti tvenns konar leyfi. Annars vegar innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, og hins vegar einhvers konar heimild til að komast hjá tólf ára ákvæðinu í skipaskoðunarl. Það er þess vegna eðlilegt, að félagið sneri sér til gjaldeyrisyfirvaldanna út af fyrir sig og óskaði samþykkis þeirra um innflutninginn, sem félagið og fékk. En það var vitaskuld engin heimild til að flytja inn skipið, fyrr en ákvæðið um 12 ára aldurinn væri leyst. Það þurfti þess vegna að fá tvenns konar leyfi hjá tveimur aðilum. Og eðlilegast hefði verið, að hlutafélagið hefði sótt um þessi leyfi samtímis. Verður það ekki gefið fjárhagsráði að sök, þó að það afgr. leyfið, þegar því barst umsóknin, því að það vissi ekki, hvað hinni umsókninni leið. En það, sem mér virðist hafa skeð, er það, að fest eru kaup á skipinu, eftir að leyfi fjárhagsráðs er fengið, og ekki hirt um að afla hinnar heimildarinnar fyrr en eftir á. Því má segja, að félagið hafi gert ráðstafanir, sem hefði verið réttara og heppilegra að framkvæma samtímis því, að leyfi var veitt í fjárhagsráði, en ekki á eftir.

Ég held, að ekki sé ástæða til að taka fleira fram um þetta mál. Það má sjálfsagt deila um þessa ráðstöfun eins og svo margar aðrar, hvort rétt sé ráðið. En eins og komið var, taldi ég ekki hægt að setja fyrir þetta fótinn. Og þess vegna voru þessi brbl. sett, í trausti þess, að ekki yrði fordæmi skapað, heldur aðeins bjargað þessu máli. Ég vænti þess því, að þessi l. verði staðfest hér í hv. d., eins og Nd. hefur gengið frá, því að það mundi kosta ýmsa erfiðleika og óþægindi, ef þessi lög næðu ekki fram að ganga. Sé ég ekki, hvernig mætti þá með málið fara.