28.02.1949
Neðri deild: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í C-deild Alþingistíðinda. (4061)

140. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en mig langar til að minnast á eitt atriði í málflutningi hv. 1. flm. og í grg. frv., en það er sú staðhæfing, að gildandi skipun á innheimtu skemmtanaskatts feli í sér sérstök og óviðkunnanleg forréttindi handa vissum aðilum, þ. e. a. s. kvikmyndahúsum, sem verja tekjuafgangi sínum til menningarmála. Þetta er grundvallarmisskilningur, sem ég hygg, að ekki geti byggzt á öðru en því, að hv. flm. frv, hafi ekki hugsað þetta atriði til botns. Ég skal sýna fram á þetta með fáum orðum. — Í gildandi l. um skemmtanaskatt, 3. gr., segir svo, að undanþegnar öllum skemmtanaskatti séu m. a. „skemmtanir, sem haldnar eru í góðgerðaskyni eða til styrktar málefna, sem miða að almenningsheill.“ Frá árinu 1927 og þangað til í fyrra var öllum skemmtanaskattinum varið til að koma upp þjóðleikhúsi. Síðan í fyrra er skemmtanaskattinum skipt milli þjóðleikhússins, félagsheimilasjóðs og lestrarfélaga og kennslukvikmyndasafns. Nú er það tvímælalaust, að l. gera ráð fyrir, að undanþegnar skemmtanaskatti séu skemmtanir almennt, sem haldnar eru í góðgerðaskyni eða til að styrkja málefni, sem miða til almenningsheilla. Þetta er almenn regla, sem gildir fyrir allar skemmtanir, bæði kvikmyndasýningar og hvers konar skemmtanir aðrar. Nú í 20 ár hefur tiltekin menningarstarfsemi haft þau forréttindi að njóta tekna af öllum öðrum skemmtunum. Leikhúsbyggingin hafði þau forréttindi, að öllum skemmtanaskatti, sem inn kæmi, skyldi varið til hennar. Þessi forréttindi þjóðleikhússins voru afnumin fyrir einu og hálfu ári. Nú er það þrenns konar starfsemi, sem hefur þau forréttindi, að allir, sem koma á tilteknar skemmtanir, verða að greiða gjald til hennar. Öll önnur menningarstarfsemi í landinu hefur að vísu ekki verið látin gjalda til þess arna, en nýtur heldur einskis úr þessum sjóði. Það, sem innheimtist af skemmtunum, sem á annað borð þykja skemmtanaskattskyldar, fer í þessa þrenns konar starfsemi, og ef tala á um forréttindi í þessu sambandi, er það ómögulegt öðruvísi en þannig, að þjóðleikhúsið, félagsheimilasjóður, lestrarfélög og kennslukvikmyndir njóti þessara forréttinda. Það, sem stungið er upp á með þessu frv., er í raun og veru það að auka þau forréttindi, sem nú eru fyrir hendi, auka þau þannig, að innheimtur skuli meiri skattur, en hingað til hefur verið innheimtur og láta hann renna til sömu forréttindaaðila og notið hafa forréttindanna undanfarið. Það er meira að segja ekki gert ráð fyrir, að forréttindi þessara þriggja aðila séu aukin almennt, heldur einungis lagt til, að kvikmyndahúsasýningar, sem haldnar eru í góðgerðaskyni eða til styrktar málefnum til almenningsheilla, skuli verða skemmtanaskattskyldar, en aðrar ekki. Hér er m. ö. o. lagt til, að komið sé á misrétti á milli þessara skemmtanategunda, kvikmyndasýninga og annarra almennra sýninga, til þess að geta aukið forréttindi þeirra þriggja aðila, sem nú njóta þeirra. Það er því fjarri sanni, að það sé nokkur heil hugsun að baki þessu frv. Það miðar ekki að því að afnema forréttindi og bæta úr misrétti, heldur stefnir það þvert á móti að því að auka forréttindi, sem fyrir eru, og koma á misrétti. Ég vænti þess, að hv. flm. skilji þetta, ef þeir hugsa málið ofan í kjölinn. Ég tek þess vegna algerlega undir þau orð hæstv. viðskmrh., að það sé varla til önnur góðgirnislegri skýring á því, að þetta frv. er flutt en sú, að málið sé vanhugsað og flutt í fljótræði.

Nú er ekki svo að skilja, að ég telji ekki þau forréttindi, sem þjóðleikhúsið, félagsheimilin, lestrarfélög og kennslukvikmyndir fengu með lagasetningunni í fyrra, eðlileg og makleg, eins og þau voru ákveðin þá. En ég tel enga ástæðu til þess að auka þessi forréttindi með því að stækka þessa sjóði, og því síður tel ég ástæðu til að koma á því misrétti að gera þessum þremur aðilum svo miklu hærra undir höfði, en allri annarri menningarstarfsemi, sem þessi tilteknu kvikmyndahús styrkja, að hún megi einskis góðs njóta af, eins og hún nú nýtur samkv. gildandi l. — Mér finnst ekki koma til mála að ræða þetta mál á öðrum grundvelli en eftirfarandi: Er rekstur þjóðleikhúss og bygging félagsheimila svo miklu þýðingarmeira menningarmál en sú menningarstarfsemi, sem þau kvikmyndahús, sem hér um ræðir, styrkja, að þjóðleikhúsið og félagsheimilin eigi að hafa skilyrðislaus forréttindi og ekki komi til mála, að hinir aðilarnir geti þar talizt hlutgengir á móti? Það hefur þegar verið á það bent, að þessi kvikmyndahús, sem nú eru samkv. gildandi l. undanþegin skemmtanaskatti, verja tekjuafgangi sínum til vísindastarfsemi og tónlistarstarfsemi og til þess að byggja sjúkrahús og elliheimili. Ég get engan veginn á það fallizt, að rekstur þjóðleikhússins og bygging félagsheimila sé svo miklu brýnna nauðsynjamál en þau önnur mál, sem ég nefndi, að það geti verið réttlátt að taka fé frá þeirri starfsemi, sem þessi umræddu kvikmyndahús styrkja, og verja því eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég tel því stefnt í öfuga átt, ef frv. nær fram að ganga. Og það, sem ég vil vekja sérstaka athygli á í þessu sambandi og finnst tæplega, að hafi verið nógu rækilega gert áður, er, að þetta frv. mundi skapa aukið misrétti, en ekki verða til þess að draga úr því. — Ég vil að síðustu benda á, að verulegum hluta af tekjuafgangi þess kvikmyndahúss, sem ég er kunnugastur, en það er rekið af sáttmálasjóði og háskólanum, er varið til samningar vísindalegrar íslenzkrar orðabókar. Að því starfi vinnur nokkur hópur manna, og eru laun hans og annar kostnaður við orðabókina greiddur að langmestu leyti af hagnaði þessa kvikmyndahúss. Þetta verk er nokkuð á veg komið, og ég held, að engum, sem til þekkir, finnist koma til greina að hætta þessu verki. Ef kvikmyndahús háskólans er svipt möguleikanum til þess að standa straum af þessu verki framvegis, mundi ríkissjóður verða að taka við að greiða öll útgjöld vegna orðabókarinnar. Það er síður en svo, að stefnt sé í sparnaðarátt, ef frv. næði fram að ganga. Þetta er þó ekki mergurinn málsins, heldur hitt, að ég vil engan veginn fallast á, að það sé ómerkara málefni að styðja t. d. útgáfu fullkominnar, vísindalegrar orðabókar, en að koma upp félagsheimilum í sveitum. Ég vísa þeim ummælum hv. flm. heim til föðurhúsanna, að ég vilji forréttindi fyrir háskólakvikmyndahúsið, og ég vil segja það við hv. 1. flm. frv., að það er hann, sem er forréttindapostuli. Það er hann, sem vill meiri forréttindi, sérstaklega handa félagsheimilasjóðnum, sem hann ber mjög fyrir brjósti, en ég tel, að hafi þegar nóg forréttindi. Það, sem ég hvorki vil né mun viðurkenna, er það, að vísindastarfsemi og tónlistarstarfsemi og bygging sjúkrahúsa og elliheimila sé alls ekki verð sams konar forréttinda og félagsheimilasjóður nú nýtur, og þess vegna er ég algerlega andvígur þessu frv. og mun greiða atkv. gegn því þegar við 1. umr.