01.03.1949
Neðri deild: 73. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í C-deild Alþingistíðinda. (4073)

140. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jörundur Brynjólfsson:

Það eru aðeins örfá orð. Það er aðeins út af síðustu ummælum hv. þm. Ísaf. (FJ). Eins og frv. ber með sér, tekur efni þess aðeins til kvikmyndasýninga, en annars ekki, svoleiðis að tilgangurinn með flutningi þess er, samkvæmt orðanna hljóðan, að það sé ekki gert upp á milli um kvikmyndasýningar, en önnur starfsemi er látin laus eftir þessu frv.

Hv. 8. þm. Reykv. (SG) sagði, að þessi viðbót, sem kæmi í þennan sjóð, sem skiptist milli þessara þriggja aðila, ætti að fara til félagsheimila, en það er fjarri því. Þessi viðbót skiptist milli þessara þriggja aðila: félagsheimilasjóðs, þjóðleikhússjóðs og lestrarfélaga og kennslukvikmynda.

Mér þótti vænt um, að ég kallaði eftir skýringu hjá hv. 4. þm. Reykv., því að hann kom í lok ræðu sinnar með dálítið annað en það, sem hann vildi rökstyðja. Hann sagði í lok sinnar síðustu ræðu, að sú starfsemi, sem fer fram hjá háskólanum, samning orðabókar o. fl., tónlistarstarfsemi og annað, að hann metti það meira og teldi það til meira menningargildis en aðra menningarstarfsemi. Það var a. m. k. meining hans, eftir því sem ég skildi orð hans, því að hann vill láta haldast þau fríðindi, sem þessi starfsemi hefur, svo að nú skil ég hv. þm.

Um hin rökin, sem hann færði fram, að með þessu frv. væri verið að auka misrétti, þá er það að segja, að með því móti, að allar þessar stofnanir, þar sem eins er ástatt um starfið sjálft, sjálf kvikmyndahúsin, greiði jafnt, þá er þeim gert jafnt undir höfði hvað þetta áhrærir. Hitt er annað mál, til hvers þær verja peningum sínum. Að þetta sé nokkurs virði, kom fram í ræðu hv. þm. Ísaf., þegar hann nefndi það, að skemmtanaskatturinn, sem Hafnarfjarðarbíó hefði átt að greiða, væri 120–130 þús. kr. Öll þessi atriði vil ég gaumgæfilega athuga í n., og ég treysti n. mjög vel til að komast að sanngjarnri og viturlegri niðurstöðu um þessi atriði. — Svo tel ég ekki þörf á að fjölyrða um þetta frekar.