03.03.1949
Neðri deild: 74. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í C-deild Alþingistíðinda. (4088)

150. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um breyt. á l. um stofnlánadeild sjávarútvegsins, og er ástæðan til þess, að ég flyt það, niðurstaða, sem ég komst að á landsbankanefndarfundi um þróun deildarinnar við bankann. Og þessi niðurstaða var sú, að með sömu stefnu sé markvisst unnið að því að afnema stofnlánadeildina, ef Alþingi tekur ekki í taumana. Þegar stofnlánadeildin var stofnuð, var tilgangur löggjafans sá, að tryggja sjávarútveginum ódýrt stofnfé, einkum til þeirrar nýsköpunar, sem þá átti sér stað. Það hefur hins vegar sýnt sig, eins og af ýmsum var búizt við, að þær 100 millj. kr., sem seðlabankinn upprunalega lánaði stofnlánadeildinni, nægðu ekki fyrir hinn nýja togara- og bátaflota. Og samkvæmt upplýsingum, sem komið hafa fram hér á Alþingi, vantar lánsfé fyrir 7 af nýju togurunum og nokkra nýju bátanna. Ríkisstj. hefur verið spurð, hvernig hún hefði í hyggju að ráða fram úr þessum málum, en ekkert svar fengizt. Eigendur þessara skipa bíða því og biða eftir lausn á þessu máli, en á meðan þverr stöðugt féð í stofnlánadeildinni og mun nú vera komið niður í 87 millj. Þessi rýrnun á fjármagni deildarinnar er vegna ákvæða 6. gr. laganna, en samkv. henni greiðir stofnlánadeildin seðlabankanum jafnóðum þær afborganir, sem hún fær frá skuldunautum sínum, og ef þessi lagagrein verður óbreytt, hverfur deildin smám saman, því að með þessu fyrirkomulagi er ekki hægt að lána neinum nýjum aðila A-lán úr stofnlánadeildinni. Þetta er þessu frv. ætlað að koma í veg fyrir og lagt til, að stofnlánadeildin noti þær afborganir, sem hún nú fær af lánum sínum, til nýrra útlána, en á þeim er sjávarútveginum hin mesta þörf, því að enn skortir lánsfé handa mörgum.

Það er enn fremur lagt til að ákveða með l. þessum upphæð vaxtanna á því fé, sem seðlabankinn lánar stofnlánadeildinni. Eins og bankastjórnin hefur ákveðið vextina með samþykki bankamálarh., þá eru þeir svo háir, að enginn möguleiki er fyrir stofnlánadeildina að hafa ágóða af lánum sínum til þess að auka útlánin. Með þeirri breytingu, sem hér er lögð til, að seðlabankinn láni stofnlánadeildinni með 1% vöxtum, þá mundi hún fá mismuninn, sem er milli útlánsvaxtanna og þessara 1% vaxta, en þar sem þessir útlánsvextir eru nú 2½%, fengi stofnlánadeildin 1½% af öllum A-lánum sínum, í stað þess að nú hefur hún aðeins 0,1%, því að vextir seðlabankans til stofnlánadeildarinnar eru nú 2,4%. Það er líka vitað, að stór hluti B-lána stofnlánadeildarinnar fellur á árunum 1946–51, og hefur það nokkra hættu í för með sér, en fengi stofnlánadeildin að græða 1½ millj. á ári í áður ræddum vaxtamismun, ætti hún að geta staðizt þá skelli, sem hún ef til vill fær af B-lánunum. Þetta er því hagsmunamál fyrir ríkissjóð, sem ella yrði að taka slíka bagga á sig. Það er líka ekki verið að fara fram á neitt, sem ekki er hægt, því að Landsbankinn hefur góð efni á þessu fyrirkomulagi. Bankinn græðir nú 1516 millj. árlega, og það er alveg ástæðulaust, að sá gróði renni allur til seðlabankans og sparisjóðsdeildarinnar. Stofnlánadeildin ætti raunverulega fyrir því að fá 1–l½ millj. af þessum gróða, einkum ef þess er gætt, að það er fyrst og fremst sjávarútvegurinn, sem gefur bankanum möguleika til að græða. Hér er því um reikningsatriði að ræða í sambandi við bankareksturinn, og með þessari leið væri stofnlánadeildinni gefinn möguleiki á að standa undir hagkvæmum lánum til aðalatvinnuvegarins, sjávarútvegsins. Hins vegar er vitað, að lágir vextir eru eins og eitur í augum sumra manna. Það þykir ekki glæfralegt, þó að sjávarútvegurinn skuldi tugi milljóna, en ef það á að knýja bankana til að láta hann hafa vaxtalágt lán, þá er eins og sé verið að gera út af við þjóðfélagið.

Ég viðurkenni, að það er þörf miklu gagngerðari breytinga á lögunum um stofnlánadeildina, ef hún ætti að geta annað því verkefni að veita sjávarútveginum ódýr stofnlán, en við flm. þessa frv. teljum ekki líklegt, að róttækari brtt. yrðu samþ. eins og nú stendur. Ég vona svo, að þm. sjái nauðsyn þessa máls og geti fallizt á þetta frv. Þegar l. um stofnlánadeildina voru til umr. á sinum tíma, munu þau hafa verið rædd í sjútvn., og þess vegna legg ég til, að þessu máli verði vísað til sjútvn., þó að það sé ef til vill fjhn. mál.