01.02.1949
Efri deild: 52. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

2. mál, síldarbræðsluskip

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Ég sé ástæðu til að leiðrétta ýmislegt af því, sem hæstv. ráðh. hefur sagt í þessu máli. Annars virðist ganga hæstv. ríkisstj. erfið þessa dagana, því að í allan gærdag voru umr. um stórmál í sameinuðu þingi, þar sem hæstv. menntmrh. gat ekki komið nálægt því máli, sem þá var um rætt. Hér er á ferðinni ekki mjög stórt mál, en hæstv. fjmrh. virðist ekki geta haldið sér við það, sem fyrir liggur í málinu, og fer út í allt aðra sálma og er með getsakir í garð okkar, sem gefum út nál. Meðal annars segir hæstv. fjmrh., að af þeim nál., sem hér eru á ferðinni, megi marka, að verið sé að bera einhverjar ásakanir á ríkisstj. Ég ætla ekki að svara nema fyrir hönd minnt hl., en ég neita því, að hér í nál. sé verið með nokkrar ásakanir hvorki á ríkisstj. né fjárhagsyfirvöldin, það er einmitt sagt í því nál., að fjárhagsráð muni hafa talið sig hafa haft fullt leyfi til að veita innflutning á þessu skipi,og það er af þeim ástæðum, að ég legg til, að frv. verði fellt, að ég tel óþarft að samþykkja það vegna þess, að ríkisstj. og fjárhagsráð hafi talið sig hafa heimild í ákveðnum l. til að gera þessa hluti án þess að leita heimildar á ný. Ef frv. er viðurkennt af hæstv. ráðh., þá ásakar hann fyrst og fremst fjárhagsráð fyrir að hafa gert glappaskot og brjóta þau l., sem það starfar undir, og hann ásakar ríkisstj. fyrir að hafa leyft innflutning á hlut 4 mánuðum áður en þeir óska eftir að fá heimild til að gera það. Ég er nefnilega ekki á þessari skoðun, og skal ég koma að því nánar. En ég vil ekki láta beina til mín skeytum, sem eiga að fara til meiri hl., því að hann vill leggja blessun sina yfir það, sem gert er, og er með ásakanir, en ekki ég. En ég tel, eins og ég hef tekið fram, að það þurfi ekki að samþykkja l., vegna þess að leyfið hafi verið fengið áður. En ég vil spyrja: Hvað vakti fyrir löggjafanum, þegar ákvæðið um 12 ára aldur skipa var sett inn í l. um eftirlit með skipum? Það lá ekki fyrir að tryggja öryggismál, því að ef það hefði átt með því ákvæði að tryggja öryggismál eingöngu, þá átti að banna öllum skipum haffæri, sem voru yfir 12 ára. En það lá allt annað til grundvallar, og það er rétt, að hæstv. viðskmrh. viti, hvað það var. Það vakti fyrst og fremst fyrir löggjafanum þá að tryggja það, að það væru ekki flutt inn í landið skip eldri en 12 ára vegna fjárhagslegrar afkomu flotans — vegna þess að íslenzki flotinn átti alltaf að taka í sína þjónustu nýjustu tækni, sem ekki væri yfir 12 ára gömul. Það hefur aldrei vakað fyrir löggjafanum, að þetta ætti að vera öryggisatriði eitt, því að þá átti vitanlega að banna siglingar á öllum skipum, ef þau voru 12 ára eða eldri. Það er þetta fyrst og fremst, sem liggur þarna til grundvallar. Þess vegna er það fyrst og fremst viðskiptaatriði, hvort átti að flytja skipið inn, en ekki öryggisatriði, og það hef ég lagt áherzlu á við afgreiðslu málsins í n. Hæstv. ráðh. minntist á það, að af því að þetta skip er flutt inn sem verksmiðjuskip, af því að það á ekki að sigla á höfum úti og af því það er leyft að flytja það inn með því skilyrði, að það sé aðeins á höfnum inni, þá sé sjálfsagt að leyfa þennan innflutning. En þegar þetta er athugað, þá segi ég: Þessi innflutningur kemur ekki undir l. um eftirlit með skipum, því að hér er ekki verið að flytja inn far, sem starfrækt verður undir þessum l. Hér er verið að flytja inn verksmiðju, sem á að vera staðbundin, og fyrir það tel ég líkur til þess, að fjárhagsráð og ríkisstj. hafi ekki þurft að afla sér heimildar til þess að hafa leyfi til að flytja skipið inn, eins og ég bendi á í mínu nál. Ég vil því ekki halda því fram, — og það er rangt hjá hæstv. viðskmrh., að ég haldi því fram, — að ríkisstj. eða fjárhagsráð hafi farið út fyrir sín takmörk, það er síður en svo. Ég held því fram, að þeir hafi haft heimild til að gera þetta. Nú vil ég spyrja hæstv. viðskmrh. Telur hann virkilega ekki heimilt að flytja þetta skip inn til þessarar starfrækslu, nema l. um eftirlit með skipum fáist breytt? En þá verður hann líka að viðurkenna, að fjárhagsyfirvöldin hafi farið út yfir þau takmörk, sem þau máttu. Það er líka það merkilega við þetta bréf frá hæstv. viðskmrh., að hann segir þar, að það sé skilyrði fyrir sínu leyfi, að innflutnings- og gjaldeyrisleyfi verði veitt, en bréfið er skrifað í júlímánuði, — að það leyfi verði veitt í marz. Ég er ekki að ásaka hæstv. ráðh., þó að hann hafi gleymt þessari stjórnarathöfn, en mér þykir einkennilegt, að það kemur frá honum sem viðskmrh., að hann hafi gleymt, að hann bar þó ábyrgð á því í 4 mánuði, að þetta leyfi var veitt, sem hann setur að skilyrði í júlí, að skuli veitt í marz. Það er enginn efi á því, að ef þetta skip verður aldrei tekið úr höfn, þá þarf aldrei að skrá það sem skip, og ef það er sem verksmiðjuskip inni í höfn, þá þarf það ekkert haffærisskírteini að hafa, en slíkt skip þarf að hafa sérstaka undanþágu til að mega sigla milli hafna, t.d. til Austurlands, en það þarf ekki að vera neitt far og þarf ekki að falla undir lagabókstaf l. um eftirlit með skipum, þó að það sé leyft. Það er hægt að draga það og sigla því með öðrum skipum, og þarf engan veginn að falla undir þessi ákvæði. Hitt er allt annað atriði, ef á að sigla því milli landa. En ég vil benda hv. þm. á það, að ég veit ekki betur en að flutt væri milli landa steinker til Akraness, sem í voru svo og svo margir menn á leiðinni, og engum manni datt í hug að gefa haffærisskírteini á slíkan farkost. Mín afstaða til málsins er þessi: Þessa tilraun átti að gera með fullkomnu skipi, sem hægt var að flytja milli landa, ef svo skyldi takast til, að ekki væri hægt að reka skipið sem verksmiðjuskip, og þess vegna átti að velja fullkomið skip með fullkomnu haffærisskírteini og þeim aldri, sem við viljum hafa. Ég er ekki að ásaka hæstv. ríkisstj., þó að hún fylgi ekki mínum ráðum, en ef þessu var ekki fylgt, þá átti helzt að kaupa farkost, sem ekki þurfti að sigla milli landa, en það var sementsskip, en það hefði kostað minnst fé og hefði aldrei þurft að fara í hreinsun. En þeir, sem athuguðu þetta, vildu ekki líta á þessi skip. Þetta var mín afstaða til málsins þá. — Þetta sementsskip mátti einnig nota m.a. til að sökkva í hafnarmannvirki síðar, þeim hefur verið sökkt annars staðar og reynzt vel. Mínum till. var ekki fylgt og er ég ekki að ásaka ríkisstj. fyrir það, en ég vil þá heldur ekki taka á móti ásökunum fyrir að vera sjálfum mér samkvæmur í málinu.

Ég vil í sambandi við þetta benda á það, að þegar l. um sérstakt framlag ríkissjóðs voru borin fram á Alþ. í fyrra af hæstv. sjútvmrh., þá benti ég á þetta atriði og greiddi atkv. á móti því framlagi, vegna þess að það var upplýst, að það ætti að kaupa 45 ára gamalt járnarusl. Mér var ljóst, að þetta skip mundi ekki verða söluhæft úr landi, nema til þess að brjóta það upp, og þess vegna ekki haffært til að sigla því og ekki samkeppnisfært á hafinu, þó að það hefði haffærisskírteini.

Hæstv. fjmrh. sagði, að hann væri sammála um það, að síldarverksmiðjurnar keyptu gott síldarverksmiðjuskip. Ég er honum alveg sammála, en ég sé ekki, að hér hafi verið keypt gott síldarverksmiðjuskip, hér hefur verið keypt skip, sem ekki er fært um að fara á milli landa til þess að fá nauðsynlega hreinsun, eins og þarf að vera, einu sinni til tvisvar á ári, nema sérstakar ráðstafanir séu gerðar í sambandi við það. Ég sé heldur ekki, að hér hafi verið keypt skip, sem hægt sé að nota til annars en að vera síldarbræðsluskip á þeim stað, þar sem síldin er ekki komin, því að það er varla hægt að flytja það milli staða, enda tilskilið af ráðh., að það sé aðeins notað í höfnum inni.

Þá vil ég segja nokkur orð í sambandi við þá skýrslu, sem hæstv. fjmrh. las upp, frá Ólafi Sigurðssyni. Ég skal viðurkenna, að Ólafur er prýðilegur maður, og ég ætla, að hann hafi vel vit á þessum málum, þó að honum hafi hér yfirsézt. Það er upplýst í sjútvn., að einmitt þeir hlutir í skipinu, sem helzt átti að skoða, voru aldrei skoðaðir, áður en skipið var keypt. Það voru fyrst og fremst katlarnir í 45 ára gömlu skipi, sem þurfti að skoða, en þeir voru ekki skoðaðir, fyrr en búið var að ganga frá kaupunum, og voru þá skoðaðir af öðrum manni. Það er sannarlega ekki Ólafi Sigurðssyni að þakka, að sú skoðun reyndist í lagi. En ég skal upplýsa annað. Það voru heldur ekki skoðaðir botntankar skipsins, en það er einmitt sérstök ástæða til að skoða þá í gömlum skipum, og öxull skipsins var heldur ekki skoðaður af íslenzkum skoðunarmönnum. Ég hef enga löngun til að upplýsa þetta hér, en þegar það er notað sem gögn í málinu, þá er bezt, að það komi fram. Sannleikurinn er sá, að það var af einhverjum öðrum áhrifaríkum aðila ákveðið, að þetta skip skyldi kaupa og ekkert skip annað, og hann hefur notað sitt vit og sinn dugnað til þess að safna svo sterkum hring utan um þetta 45 ára gamla skip, að það var ekki hægt að brjóta þann hring. Nú skal ég viðurkenna, að Jón Gunnarsson er prýðilegur verkfræðingur og verkstjórnandi, en hann hefur ekkert vit á skipabyggingum og hefur aldrei lært það, og sumt af því, sem þarna er gert, sýnir þetta, m.a. er það að hans fyrirsögn, að settar voru niður í þetta skip þrjár 100 hestafla vélar, þannig að ómögulegt er að þjóna þeim nema taka þær í burtu eða rífa þilfarið úr skipinu. Honum var bent á þetta af mönnum, sem meira vit höfðu á því, en hann sagði: Ég þarf ekki að spyrja ykkur, hvernig vélarnar eiga að vera. — En það kemur á daginn síðar, hvernig þetta reynist. Hæstv. fjmrh. sagði, að það hefði verið eitt af aðalrökunum hjá ræðumönnum, að skipið mundi ekki reynast eins vel af því, að það hefði verið mikið notað á vötnum og væri ekki eins vel gert eins og ef það væri byggt fyrir Atlantshafið. Þetta er staðhæft af því, að þetta skip er ekki byggt fyrir Atlantshafið og það þarf að byggja sterkara skip fyrir Atlantshafið en vötnin í Ameríku. Mér er kunnugt um það, að skip fyrir vötnin í Ameríku eru byggð eftir öðrum reglum en skip, sem eiga að sigla um Norður-Atlantshafið, norður undir ísröndinni: Hæstv. ráðh. sagði einnig, að þeir hefðu undrazt hið lága verð. En ég undrast það ekkert, þegar athuguð er öll aðstaða til þess, sem hér var verið að kaupa, ég undrast miklu frekar, að þessum mönnum skyldi takast að selja skipið fyrir þetta verð, vegna þess að það er gamalt og skipið var ekki til neins annars á þeim tíma en að brjóta það upp eða nota það fyrir pakkhús í höfn inni, svo að það er ekki að undra, þótt verðið væri ekki hátt á skipinu. Hæstv. ráðh. sagði, að ekki væri leyfilegt að láta þetta skip sigla samkvæmt íslenzkum l. Ég veit ekki, hvaðan hann hefur þetta. Ég geri ráð fyrir því, ef skipið er flutt inn og bókfært sem far, að þá sé ekki hægt að banna því að sigla samkvæmt þeim l., svo framarlega sem það er í því ástandi, sem skipaskoðunarstjóri heimtar samkvæmt sömu reglugerð. Það er nefnilega misskilningur, að það falli niður leyfi til þess að sigla íslenzkum skipum, þó að þau verði 45 ára. Ég gæti bezt trúað, að Súðinni verði siglt, þangað til hún verður 200 ára gömul, ef ekki verður hægt að selja hana. Það er búið að setja í það skip milljónir til stórtjóns fyrir alla, sem við það eru riðnir, en fyrir það að búið er að setja í það milljónir, þá er það mörgum sinnum traustara en það var í upphafi, og það dettur vitanlega engum í hug að neita þessu skipi um að mega sigla, þó það sé gamalt. Allt öðru máli er að gegna um verksmiðjuskip, sem á að liggja í höfn. Ég var á móti því, að skipið væri flutt inn sem far, og þess vegna þarf ekki að samþykkja brbl., frá mínu sjónamiði.

Ég skal þá koma að því, sem hæstv. viðskmrh. sagði. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðh., eins og ég tók fram, að ég hafi haft þau orð, að verzlunaryfirvöldin hafi farið út yfir sín takmörk, og það sést ekki í mínu nál., nema síður sé. Ég hafði engin orð um það hér. Þeim skeytum verður því að beina annað. En ég vil taka það fram, að ef hæstv. ráðh. álítur, að þeir hafi gefið þetta leyfi í fullkomnu heimildarleysi í marzmánuði, þá er að bera þá sök á þá, og hafi þeir gert þetta, þá er það þeirra að standa fyrir því, það er ekki ástæða til þess fyrir Alþ. að taka þá ábyrgð á sig. En ég er ekki að halda því fram, að þeir hafi bakað sér neina ábyrgð með þessu máli. — Hæstv. ráðh. sagði, að þessi l. væru sett til að skapa hér ekki fordæmi. En ég vil halda því fram, að eina ráðið til þess að skapa ekki þetta fordæmi, sé að flokka þennan innflutning ekki undir þann flokk, sem heyrir til haffærra skipa, en það sé ekki verið að flytja inn pakkhús fyrir síldarstöð, sem ekkert kemur siglingaflotanum við, og flokka það sem skip. Hvað held ég að verði mestur sóminn fyrir alla aðila. Það kemur þá ekkert skipinu við, þó að brbl. verði felld, og ég sé ekki, hvað skeður, þótt þau verði felld. Það skeður ekkert annað en að skipið verður aldrei skráð á íslenzka skipaskrá, og það er enginn sómi fyrir íslenzka skipaskrá að hafa það þar. Ef skipið er skráð á íslenzka skipaskrá, þá er leyfilegt að sigla því hvert sem vera skal, og þá kemur það undir skoðun árlega með öllum þeim skoðunargjöldum og öllum þeim sköttum, sem því fylgir, en ég held, að það hefði átt að forða þessu fyrirtæki frá öllum þeim sköttum, — fyrirtæki, sem engar tekjur hefur, en vonandi fær. Það er engin skylda hér að skoða vöruskemmur, það er engin skylda að skoða geymslur fyrir síldarmjöl, en það er þetta skip. Ef skipið heyrir ekki undir skipaskoðun, heldur verksmiðjueftirlit, þá mundi sú skoðun ekki verða svo róttæk, að það mætti ekki komast Yfir það, því að venjulega er það ekki annað en að skrifa út nokkra reikninga. Nú vil ég í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði og hefur skrifað hér í bréfi, að hann leyfi aðeins að flytja skipið inn til að starfa í höfnum inni, leyfa mér að spyrja: Hvernig hugsar hann sér þá, að skipið verði starfrækt, m.a. sem leiguskip til Noregs, ef hann er enn á þeirri skoðun, að hér sé ekki um haffært skip að ræða? Hygg ég þá, að við ættum að geta verið sammála um að fella frv., því að þá hefur það fyrir mér enga þýðingu.

Hér var minnzt á það, af hæstv. fjmrh., hve skipið hefði verið prýðilegt og gott að fara á því yfir hafið alla þessa leið frá vesturströnd Ameríku. En er þá ekki rétt að minnast á það um leið, að alla þessa leið fékk skipið aldrei neinn sjó eða vind, það var svo heppilegt. Hvernig halda menn, að hefði farið með þetta skip í mestu veðrum hér í desember eða veðrum, sem geta orðið á öllum tímum? Ég hygg, að það geti enginn og vilji enginn bera ábyrgð á þeim óhöppum, sem kynnu að skapast með því að leyfa þessu skipi að fara yfir Atlantshafið á hvaða tíma sem er, þó að svo heppilega tækist til, að ekki varð neitt tjón í þetta skipti, og skal ég koma nokkuð að því síðar, en síðan hafa verið gerðar breyt. á skipinu, sem að sjálfsögðu eru ekki til þess að mæla með því, að skipið haldi áfram að sigla.

Út af því, sem hv. 1. landsk. sagði, vildi ég aðeins segja þetta: Hann talar um, að það beri ekki að ásaka hæstv. ráðh. fyrir undirbúninginn. Ég hef hvorki í mínu nál. né ræðum borið ásakanir á neina menn. Málið var þannig undirbúið eins og hæstv. ráðh. lýsti, og ég tók þá afstöðu strax að ég vildi ekki láta leggja fram fé til að kaupa jafngamalt skip og þarna var um að ræða —, og sú afstaða mín er óbreytt, þótt ég sé fullkomlega fylgjandi þeirri hugmynd, sem hér hefur verið reynd, og það er síður en svo; að mín afstaða breytist við það, hvort hér veiddist síld í haust eða ekki. Ég er jafnfylgjandi þessu máli, — að reyna síldarskip til þrautar, þó að það fengist engin síld, og ég tel, að það eigi ekki að hafa áhrif á þetta mál að neinu leyti.

Hv. 1. landsk. upplýsti, að síðan skipið var keypt, sé búið að gera yfirbyggingu á það, sem er yfir 415 lestir. Þetta er rétt, og það hefur stórkostlega breytt sjóhæfni skipsins. Það er upplýst af Ólafi Sigurðssyni skipaverkfræðingi, að það sé hægt að gera stöðugleika skipsins það öruggan, að þetta þurfi ekki að hafa áhrif á siglinguna. En það er annað miklu meira atriði. Ef það á að flokka skipið sem haffært skip með venjulegan vindflöt, þá er engan veginn hægt að vega upp á móti þessari yfirbyggingu með kjölfestu. En þessi yfirbygging er þannig, að ekkert eftirlit tekur hana gilda, ef hún er bundin við sjálfan skipsskrokkinn, og þess vegna var það ekki gert. Það varð þess vegna að hafa bil á milli yfirbyggingarinnar og skipsins, og henni er því aðeins tyllt við skipið með ákveðnum vinklum. En svo framarlega sem átti að byggja þetta niður á skipinu, þá þurfti að margfalda þunga yfirbyggingarinnar, en það hefði skipið alls ekki þolað. Þetta er einnig viðurkennt af þeim manni, sem skoðaði skipið, eins og mínir meðnefndarmenn vita. En hér kemur annað til greina í sambandi við vond veður, og það er það, að þessi yfirbygging fer fyrst, annars vegar fyrir það, að vindflöturinn er svo stór, og hins vegar, að plöturnar eru svo þunnar, að þær þola ekki áfall, og hver vill bera ábyrgð á því, ef illa tekst til, að ekki verði annað tjón, en að yfirbyggingin fari? Ég held, að það sé atriði fyrir hæstv. samgmrh. að athuga, hvort það eigi að leyfa, að skipið fari í þennan flokk.

Ég hef þá lýst minni afstöðu til þessa máls, og ég vil taka það enn fram, að hvorki í mínu nál. né í umr. hér hefur fallið nein ásökun á viðkomandi aðila í þessu máli. Ég tel illa farið, að ekki hefur verið hægt að velja annan kost undir þessar vélar til þess að gera þessa tilraun, heldur en hér er. Ég viðurkenni, að það hefur verið svo mikil ástæða til að gera þessa tilraun, að það hafi að sjálfsögðu ráðið meiru annars vegar, en hins vegar erfiðleikarnir í fjármálum. Þó hygg ég, að það hefði ekki átt að hugsa um of um það að spara verðmæti í sambandi við þetta.