05.04.1949
Neðri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í C-deild Alþingistíðinda. (4112)

172. mál, leigunám og félagsrekstur togara

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er kannske ekki ástæða til að ræða þetta frv., þar sem þetta er 1. umr. þess, en af því að mér skildist það á hv. flm., að hann teldi, að hann hefði hér í hendi sinni lykil, sem hægt væri að leysa með vinnudeilur, ef þær skyldu koma aftur milli togaraeigenda og sjómanna, þá vildi ég láta þá skoðun mína í ljós, að ég tel því miður, að hv. þm. hafi ekki þann lykil í hendinni. Ég segi því miður, því að vitanlega var sú deila, sem stóð hér milli togaraútgerðarmanna og sjómanna, þjóðinni til stórtjóns og mun verða henni til stórtjóns, ef slíkt endurtekur sig. Það er þess vegna ekki óeðlilegt, þó að hv. þm. og Alþ. sjálft yfirleitt reyni að koma í veg fyrir, að þetta endurtaki sig. Það er vitanlega ekki nema góðra gjalda vert, að einstakir þm. beri fram frv., sem þeir álíta, að feli í sér lausn málsins, bæði fyrir nútíð og framtíð. Samkvæmt þessu frv. á þskj. 483 er lagt til, að nýsköpunartogararnir verði teknir leigunámi, ef til vinnustöðvunar kemur. Eins og hv. fyrri flm. gat um, er ekki til þess ætlazt samkv. þessu frv., að illa verði farið með togaraeigendur eða útgerðina, nema siður sé, því að hlutur þeirra er tryggður í samningum við leigutaka, og það er tryggt, að þeir eiga engu að tapa. Þeir eiga að fá viðhaldskostnað og hæfilega vexti af því fé, sem þeir eiga í fyrirtækinu. Þetta er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, og það mætti vel hugsa sér, að togaraeigendur, ef þeir sæju ekki annað en taprekstur fram undan, tækju svona frv. fegins hendi. En þó að útgerðarmenn gætu verið þessu máli mjög fylgjandi, þá er ég hræddur um, að standi á sjómönnunum sjálfum. Ég held, eftir því sem við þekkjum þá, þá mundu þeir ekki verða fúsir til að taka togarana á leigu, halda þeim við, skila þeim og veiðarfærunum í ekki lakara ástandi en þeir tóku við þeim í og taka á sig alla ábyrgð á rekstrinum. Það hefur ekki á þetta reynt beinlínis, en ég er sannfærður um það, að sjómenn yrðu ekki fúsir til að gera þetta. Þegar sjómenn vilja ekki fallast á samninga, sem tryggja þeim 44 þús. kr. í vissar tekjur á ári, þá mundu þeir ekki undir neinum kringumstæðum taka á sig alla áhættu við útgerðina, og í sannleika sagt væri það fjölskyldumönnum nokkur vorkunn, þó að þeir hikuðu við það. Ég sagði áðan, að hv. þm. hefði ekki lykilinn í hendinni til þess að leysa þvílíkar deilur sem hér voru í vetur, þó að þetta frv. næði fram að ganga, aðallega vegna þess, að sjómenn mundu ekki undir neinum kringumstæðum ganga að þessari till. hans. En ég er þessum hv. þm. sammála um það, að það þarf eitthvað að gera, til þess að þetta endurtaki sig ekki. Það er allt of dýrt fyrir okkar þjóðfélag að láta slíkt endurtaka sig, og þess vegna held ég, að óhjákvæmilegt sé að breyta vinnulöggjöfinni að einhverju leyti. Ég held, að það hljóti að vera klaufaskapur að leysa ekki þessi mál, þegar til vinnudeilu kemur á togurum, án þess að þeir þurfi að vera bundnir við hafnargarðinn vikum saman. Væri ekki mögulegt að breyta vinnulöggjöfinni eitthvað á þá leið, að þegar sagt væri upp samningum, hvort sem það væru útgerðarmenn eða sjómenn, sem gerðu það, þá verði hlutaðeigendur að hafa komið sér saman um samning innan ákveðins tíma og að útgerðin gæti haldið áfram á meðan á samningsumleitunum stæði? En ef hins vegar aðilar gætu ekki komið sér sjálfir saman um deiluatriðin innan tilskilins tíma, þá væri settur gerðardómur, sem hefði fullt úrskurðarvald í málinu. Eins og áður er fram tekið, er það allt of dýrt fyrir þjóðfélagið að eiga á hættu, að slíkar deilur endurtaki sig, en ég álít, að það dugi ekki, þó að þetta frv. verði að l., til þess að koma í veg fyrir svona deilur í framtíðinni. Það mætti segja, að ekki spillti, þó að l. væru til um þetta, en þau væru gagnslaus, ef ekki væri hægt að framkvæma þau, vegna þess að sjómennirnir vildu ekki nýta þau, þó að útgerðarmenn yrðu kannske fegnir þeim. Ég held því, að þetta frv. verði engin lausn á málinu og annað verði til að koma og þá helzt eitthvað í sambandi við breytingu á vinnulöggjöfinni, eins og ég minntist á áðan. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, af því að mér skildist á hv. flm., að hann hefði fundið allsherjarlausn á þessu vandamáli.