05.04.1949
Neðri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í C-deild Alþingistíðinda. (4113)

172. mál, leigunám og félagsrekstur togara

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta til viðbótar, því að ekki virðist mikið á milli bera hjá hv. 2. þm. Rang. og mér. Hv. þm. talaði um það, að ég áliti, að ég hefði fundið lykil að lausn deilna eins og hér um ræðir. Ég hef aldrei sagt það. Ég hef aðeins sagt, að með þessu frv. væri gerð tilraun til að koma skipunum á veiðar og bent á aðferð, sem reyna mætti, en hitt hef ég aldrei sagt neitt um, að hverju gagni slík löggjöf mætti koma. Hv. þm. leit svo á, að í þessu frv. væri sanngjarnlega búið að útgerðarmönnum, ekki væri ástæða fyrir þá að kvarta. Hins vegar óttaðist hann, að á sjómönnunum mundi standa, þeir mundu ekki vilja taka að sér rekstur skipanna á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Um það getur hvorugur okkar neitt fullyrt, af því að það er órannsakað mál.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að heimild ríkisstj. til leigunáms verði því aðeins notuð, að fyrir liggi, að skipshöfn hafi myndað útgerðarfélag á þeim grundvelli, sem um ræðir, og tjáð sig reiðubúna til að taka að sér rekstur skipsins. Mér er kunnugt um, að það eru til togarasjómenn, sem eru fúsir til að taka þátt í slíkum félagsskap. Hve margir þeir eru eða kynnu að verða, skal ég ekkert fullyrða um. Mér finnst þetta ekki undarlegt. Hér er eingöngu verið að tala um þessi nýju skip, og það er talið, og vafalaust með réttu, að þetta séu mjög góð og fullkomin skip, og þá fyndist mér mjög undarlegt, ef sjómenn vildu ekki heldur en að ganga atvinnulausir um lengri tíma mynda með sér félagsskap og taka að sér rekstur skipanna á þann hátt, að þeir greiddu aðeins óhjákvæmilegan kostnað við útgerðina og hæfilegt fyrningargjald, en skiptu að öðru leyti öllum hagnaði. Mér þykir það mjög undarlegt, ef ekki eru til skipshafnir, sem vildu gera slíkt til þess að firra vandræðum, en eins og ég áður sagði, getur hvorugur okkar um þetta fullyrt, en báðir erum við sammála um það, að eitthvað nýtt þurfi til að koma til þess að koma í veg fyrir, að það endurtaki sig, sem gerðist í vetur, að skipin stöðvist í langan tíma. Og þó að nú næðist samkomulag í bili, getur þetta alltaf komið fyrir aftur, meðan ekki er nýtt fyrirkomulag á þessum stórrekstri.