05.04.1949
Neðri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í C-deild Alþingistíðinda. (4114)

172. mál, leigunám og félagsrekstur togara

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er náttúrlega alveg rétt, að hvorugur okkar getur nokkuð um það fullyrt, hvort sjómennirnir gengju að því að taka skipin á leigu. Eins og ég sagði áðan, þykir mér það mjög ósennilegt, að þeir sjómenn, sem höfnuðu sáttatill., sem skapaði þeim 44 þús. kr. í nokkurn veginn vissar tekjur, mundu taka á sig áhættuna, sem er á því að gera út, því að það er kunnugt, að nýsköpunartogararnir hafa margir hverjir verið reknir með taprekstri. Og það er ósennilegt, að útgerðarmenn og sjómenn lendi í stórkostlegum deilum, nema útgerðarmenn sjái, að taprekstur er yfirvofandi, með þeim tilkostnaði, sem útgerðinni fylgir, og sjómenn fara ekki í deilu við útgerðarmenn til annars, en að fá kjör sín bætt. Þeir mundu ekki hafna föstu kaupi og vissum tekjum, sem þeir ættu kost á að fá hjá útgerðarmönnum, og leggja í áhættusama útgerð sjálfir, sem útgerðarmenn vildu helzt sjálfir vera lausir við. Þetta er þess vegna að ég tel mjög ósennilegt, þó að, eins og hv. þm. sagði, ekki sé hægt að sanna þetta, nema reynslan skeri úr um það.