22.04.1949
Neðri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í C-deild Alþingistíðinda. (4129)

181. mál, landskiptalög

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Ég verð að segja örfá orð út af brtt. hv. þm. A-Sk. Ég skal viðurkenna, að fljótt á litið virðist eðlilegt, að slík brtt. komi fram, og má færa rök að því, eins og hv. þm. gerði, að nægilegt sé að fá samþykki allra hlutaðeigenda, að gerð séu mannvirki á sameiginlegri eign. Það var rétt hjá hv. þm. A-Sk., að ákvæði þau í 19. gr. laganna, sem hann vill nú breyta, voru sett inn í l. 1941, en hitt er ekki rétt, eins og hann hélt fram, að um mistök hafi þar verið að ræða og því ekki verið í samræmi við önnur atriði laganna. Þetta ákvæði var sett vitandi vits og lögð áherzla á það af þeim mönnum, sem mesta reynslu hafa af þessum málum. Það orkar ekki tvímælis, að óheppilegt er, að ræktunarlönd séu óskipt, og eru þau þá stundum notuð á víxl, og um notkun þeirra myndast alls konar venjur. Það hefur verið stefna Búnaðarfélags Íslands að knýja fram skipti a. m. k. á ræktunarlöndum, en hitt hefur gert minna til, hvort beitilöndum hefur verið skipt. Það hefur verið reynt að knýja fram skiptin, áður en ræktun eða aðrar umbætur hafa hafizt, þar eð áheppilegt er, að einn fái land hér og annar þar, og veldur miklum óþægindum, þegar landinu er síðar skipt. Og hefur verið lögð mikil áherzla á þetta af starfsmönnum Búnaðarfélags Íslands. Það er rétt hjá hv. þm. A-Sk., að það er grundvöllur laganna og það heppilegasta, að menn geri þetta af frjálsum vilja, og menn geta gert það, ef þeir vilja, en ef ekki næst samkomulag um skiptin, þá er hægt að biðja um opinbera aðstoð. Við teljum sem sé mjög nauðsynlegt, að þessi skipti á ræktunarlandi fari fram, eins og lögð er áherzla á í l. frá 1941. Þessu ákvæði, sem hv. þm. A-Sk. vill fella niður aftur, en við teljum óþarft að breyta, má ekki rugla saman við brtt. n. Þá eru ekki að öllu leyti sambærileg þau dæmi, sem hv. þm. nefndi um not á reka og skógi o. fl., og er eðlilegast, að ekki sé gengið lengra en gert er í l. varðandi það, og er eðlilegast, ef samkomulag næst, að nytja slíkt, þótt í óskiptu landi sé. Og ef samkomulag næst um það, þá er allt í lagi, því að þar er ekki verið að setja upp neitt varanlegt eins og byggingar, skurði eða ræktun, sem geta orðið til óþæginda, þegar skipt verður síðar, og orðið til óþæginda fyrir eftirkomendurna, og gegnir þar allt öðru máli um nytjar, reka, og annað slíkt. Landbn. leggur því á móti því, að brtt. hv. þm. A-Sk. sé samþ., þó að segja megi, að eðlilegt sé að sumu leyti, að hún hefur komið fram.