02.05.1949
Neðri deild: 96. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í C-deild Alþingistíðinda. (4148)

201. mál, innflutningur búfjár

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Landbn. flutti þetta frv. að beiðni hæstv. atvmrh., og er það viðauki við lög um innflutning búfjár, en þau lög afgreiddi þingið í fyrra. Í þeim lögum er svo ákveðið, að engir aðilar geti haft eignarumráð yfir sóttvarnarstöðvum, aðrir en ríkið sjálft. Nú er farið fram á, að sú breyting verði gerð á þessum lögum, að tveim öðrum aðilum verði veitt heimild til að eiga slíka stöð og láta fara þar fram kynbætur, hvort heldur er með sæðisflutningi eða með innflutningi nautgripa. Þessir aðilar, sem hér er um að ræða, eru S.Í.S. og Reykjavíkurbær, en vitað er, að báðir þessir aðilar hafa mikinn áhuga á nautgriparækt og kynbótum nautpenings. Eins og grg. ber með sér, þá er hér um tvenns konar kynbætur að ræða, bæði til þess að koma hér upp betra holdakyni og betra mjólkurkyni. Landbrn. telur sig ekki hafa heimild til þess að veita þessum aðilum, sem hér er um að ræða, leyfi til þessa, heldur þurfi hér lagabreytingu, og er því þetta frv. fram komið. En í 2. gr. frv. er það sett sem skilyrði fyrir því, að leyfið verði veitt, að allar varúðarráðstafanir og sóttvarnarráðstafanir verði gerðar til þess að fyrirbyggja, að sjúkdómar berist út, og skal reksturinn allur vera eins og mælt er fyrir í l. og eins og ríkið ætti sjálft tilraunastöðina. Ef farið væri inn á þessa leið og þetta frv. samþ., þá væri það leyfilegt, að þessir aðilar fengju leyfi til þess að rækta og kynbæta nautpening.

Landbn. hefur flutt þetta frv. eftir beiðni atvmrh., en einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að bera fram brtt., ef þeim þykir þurfa, ef eitthvað skyldi koma fram við meðferð málsins, en þær verða þá teknar til frekari athugunar milli umræðna. Sé ég svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum, en leyfi mér að endingu að leggja það til, að málinu verði vísað til 2. umr.