11.05.1949
Efri deild: 103. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í C-deild Alþingistíðinda. (4159)

201. mál, innflutningur búfjár

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hefði viljað, að hæstv. landbrh. væri við, er ég segi nokkur orð um þetta mál. Á þessu stigi málsins mun ég tala nokkuð almennt um það, þó að það fari í n., sem ég á sæti í.

Hér er um það að ræða að leyfa einstökum aðilum að flytja inn nautgripi eða sæði úr nautum af hreinræktuðum holdakynjum og mjólkurkynjum til þess að kynbæta hinn innlenda nautgripastofn. Fyrst er að athuga, hver nauðsyn er á þessu, og skal ég þá fyrst snúa mér að mjólkurkúnum. Við höfum haft og höfum enn okkar kýr til að framleiða mjólk og fóðrum þær, eins og annað búfé, mest á heyi, sem er eina fóðurframleiðslan, sem enn er almenn. Við höfum ekki ræktað korn, rófur eða annað slíkt til þess að ala okkar búfé á, og það tekur tíma að breyta til í þá átt, þó að svo kunni að verða seinna. Það fer eftir því, hve mikið af því heyi kýrnar fást til að éta, hve mikið af því þær umsetja í mjólk og hve arðsamar þær eru. Eigi að auka mjólkurmagnið meira en nemur næringarefnunum, sem kýrin fær í heyinu, og eigi að nota alla orku kýrinnar og geti hún unnið meiri næringarefni í afurðir en hún fær í heyinu, er fóðurbætisgjöf óumflýjanleg. Nú eru takmörk fyrir því, hvað kýr geta tekið til sín af fóðri. Okkar kýr taka til sín um 2.600 fóðureiningar á ári í heyi eða grængresi. Af þessu fara 1.100 fóðureiningar til þess að halda lífinu í kúnni, og 1.500 fóðureiningar verða því eftir til þess að mynda mjólk, af því geta þær myndað um 3.700 l. á ári. Margar af okkar kúm mjólka þetta af tómu heyi, og ef fóðurbætir er gefinn með allt upp í 5.000 l. Þegar nú ætlunin er að flytja inn erlent kyn til þess að bæta stofninn, þá er gert ráð fyrir því, að það muni umsetja meira fóður í mjólk heldur en okkar kýr. En hvaða fóður? Það er ekki um að ræða meira hey, heldur fóðurbæti. Ayrshirekynið tekur til sín 2.600 fóðureiningar í heyi, en þar af fara 1.400–1.500 fóðureiningar til viðhalds, eða 300–400 fleiri fóðureiningar, en okkar kýr þurfa. Það verður sem þessu svarar minna til mjólkurmyndunar, og þarf því að gefa 300–400 fóðureiningar í fóðurbæti, ef þær eiga að geta myndað jafnmikla mjólk. Ef við viljum því flytja inn kýr, verðum við að gera okkur það ljóst, að samhliða því verðum við að flytja inn meiri fóðurbæti, annars er ekkert gagn að því. Ef við teljum hagkvæmt að flytja inn erlent kyn og ala það á erlendu fóðri, þá er allt í lagi, þá eigum við að flytja það inn. En ef við viljum, að kýrnar okkar umsetji það fóður, sem við sjálflr höfum, þá eigum við ekki að hugsa um þetta. Ég álít, að við eigum fyrst og fremst að láta kýrnar umsetja það fóður, sem heyjað er og til fellst í landinu, en nota fóðurbæti aðeins sem viðbótarfóður til að fullnota starfsgetu kúnna. Það er ljóst, að því meiri fóðurbæti sem þær fá, því meira geta þær mjólkað og þó aldrei yfir það, sem eðli þeirra stendur til, og til þessa eigum við fyrst og fremst að nota það fóður, er við framleiðum sjálfir.

Þá er það holdakynið. Um það gegnir allt öðru máli. Við höfum aldrei lagt okkur eftir að framleiða nautakjöt til manneldis. Þegar það er notað, er það afgangur frá mjólkurframleiðslunni, og það er óhætt að fullyrða, að sú framleiðsla er á ákaflega lágu stigi. Ég þekki ekki dæmi til þess, að gömul kýr sé tekin og fituð, áður en henni er slátrað, til þess að gera úr henni góðan mannamat. Ég hygg, að það sé hvergi gert hér á landi. Vitanlega eru víða til holdakyn, sem ætluð eru til kjötframleiðslu, sum mjólka jafnframt og einstaka vel. Ég veit ekki, hvaða holdakyn er ætlunin að flytja inn, en þau þurfa öll meira í viðhald en okkar kyn og hæpið, að heyið eitt dugi. Það var eitt sinn fluttur hingað tarfur, og út af honum eru til nokkrar kýr. Það er ljóst, að þær mjólka illa, er þær blandast saman við íslenzka nautgripi, en það hafa komið undan þeim vænni kálfar og betri til holdasöfnunar en okkar kúm. En ef við viljum söðla um, hætta við kindakjötið og fá nautgripi í staðinn, þá verðum við að gera okkur ljóst, að þeir þurfa allt annað beitiland en sauðféð, og víða er það valllendishaglendi ekki til. Það mundu fara 4.500 fóðureiningar til þess að ala upp einn nautgrip, eða um helmingi meira en íslenzkan nautgrip, og töluverður hluti þess yrði að vera gefinn í fóðurbæti. Til þess að fita hann, áður en honum er slátrað, þarf fjórar fóðureiningar fyrir hvert kg. er hann bætir við sig í lifandi vigt, eða fjórar einingar svara til 0.6 kg í kjöti, og öll sú fitun verður að fást með fóðurbætisgjöf eða beit á gott valllendi. Sauðfé okkar er fitað á afréttum og fjöllum, og eigi að taka upp nautgriparækt til holdasöfnunar, verður að flytja inn miklu meiri fóðurbæti en áður. Ég hygg, að ekki muni vera fjarri sanni, að 1.000 kg þurfi á hvern grip, sem selja á 1.8–2.5 ára gamlan. Alþ. þarf því að gera sér ljóst, hvort gjaldeyrisástandið sé þannig, að ástæða sé til þess að ýta undir meiri innflutning af fóðurbæti til þess að ná í nýjan nautgripastofn, útrýma mjólkurframleiðslu af grasi einu saman og fá nautakjöt í stað kindakjöts. Eins og ástandið er nú, tel ég það hæpið.

Þetta mál fer til n., sem ég á sæti í, og skal ég því ekki meta hvað á móti öðru, en ég tel vafasamt, að sú stefna sé rétt, er farið er inn á í frv. Ég vil enn fremur benda á það, að ef flutt er inn sæði til þess að fá hreinan stofn, þá er það starfsemi, sem tekur 10–20 ár og kostar mikið. Ég hygg, að það mundi kosta 100–200 þús. á ári, og fer alltaf upp í 1 millj. kr., það er ekki áætlað um of. Það er líka gert ráð fyrir því í frv., að leyft verði að flytja inn nautgripi, og ég veit, að þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, hafa hug á því að flytja inn nýborna — eins dags — kálfa. Smithættan er þá lítil, og hægt væri að koma upp hreinum stofni miklu fyrr en með sæðisflutningi. Í frv. er talað um leyfi til að flytja inn nautgripi eða sæði, og í gömlu l. er bannað að flytja inn nautgripi nema einangra þá í heimalandinu ákveðinn tíma, áður en þeir eru fluttir út. Það er því útilokað, að hægt sé að flytja inn nýborna kálfa nema breyta lögunum. Ef ætlunin er að fara þá leið, verður því að breyta þessu í l. Þá er gert ráð fyrir því í frv., að þeir, sem fái þetta leyfi, komi upp sóttvarnarstöð, en ekkert er um það, að ríkið hafi aðgang að henni með aðrar skepnur. Nú eru slík vandræði í þessum efnum, að yfirdýralæknirinn verður, þegar sendiherra kemur með hund, að semja við sendiherrafrúna um að passa hann inni, því að enginn staður er til, þar sem hægt er að koma honum fyrir og einangra tilskilinn tíma, því að ríkið hefur enn enga einangrunarstöð. Þetta getur gengið vel, en eftirlitið með því, hvernig þetta er gert, t. d. hjá þeim starfsmönnum Keflavíkurflugvallar, sem komið hafa með hunda og ketti, er vægast sagt lítið, enda ómögulegt að koma því við nú. Ríkið hefur ekkert getað gert. Ef setja á sóttvarnarstöð, þá er sjálfsagður hlutur, að ríkið hafi aðgang að slíkri stöð og fyrir aðrar skepnur en þær, sem sá flytur inn, sem stöðina á. Verður að skapa þann möguleika.

Ég geri ráð fyrir, að þeir menn, sem vilja halda áfram að ýta undir innflutning erlendra búfjárkynja, hafi rétt fyrir sér, framleiðslan getur aukizt við það. Ég geri þó ráð fyrir, að framleiðsla okkar verði þannig, að það teljist hagur að því að flytja til landsins 10 þús. tonn af einhverjum fóðurbæti til mjólkurframleiðslu, svo að fullnota megi okkar kýr, en hæpið, að við viljum flytja meira inn í erlend kyn til þess að framleiða sömu mjólk, en hafa í þess stað fallþyngri kýr til frálags. Þetta yrði réttlætanlegt, þegar ástandið er orðið þannig, að á heimilum er til svo næringarefnaríkur fóðurbætir, að það borgi sig betur að gefa kúnum hann, og við gætum því notfært okkur meiri afköst skepnanna, og erlend kúakyn geta verið afkastameiri en okkar, ef fóðrið er nóg. Ef við höfum hann ásamt kornrækt, sem eigi er til manneldis, og getum gefið ¼ af gjöfinni af því, þá er allt í lagi. En meðan heyið er eitt sér, þá er mjög tvísýnt að leggja út á þessa braut.

Inn á sjúkdómshættuna og sóttvarnir skal ég lítið koma, og er vandalaust að fást við það efni. Svo er að vísu, að kálfalát getur flutzt með sæðinu. Og sé ekki sóttvarnarkví fyrir hendi, þá er kálfalát einn hinn hættulegasti og versti sjúkdómur, sem til er í nautgripum nokkurs staðar. Möguleiki er á því að sjúkdómar í búfé geti flutzt með mönnum, og er sú hætta nærri eins mikil og ef sæði eða nýbornir kálfar eru fluttir inn. Hér er því eigi svo mikil hætta, að ástæða sé til að gera mikið úr henni, því að hægt er að girða fyrir hana, ef nokkur hugsun er á höfð. En hitt verða menn að gera sér ljóst varðandi innflutning þessara gripa hingað til lands, að í fyrsta lagi er hér um dýrt fyrirtæki að ræða, er kosta mun 1–2 millj. kr., áður en hreinn stofn fæst, ef halda á kynblöndun fram með sæðisflutningi, en um helmingi minna, ef flytja á inn nýborna kálfa. Í öðru lagi borgar sig ekki og er trauðla rétt, eins og nú hagar til, að flytja inn mjólkurkyn, nema þá helzt Jerseykyn, sem hefur sérstaklega feita mjólk og þarf lítið meira viðhald en okkar kýr og gæti því átt rétt á sér þar, sem um smjörframleiðslu er að ræða.

Og ég tel réttara að nota sauðféð til að breyta graslendi haganna í kjöt, en fá erlend nautgripaholdakyn til að breyta erlendum aðkeyptum fóðurbæti í kjöt. Það eru þó landsnytjar okkar, sem við þurfum að umsetja, þó að hitt geti stundum verið réttlætanlegt, að láta gripina til viðbótar umsetja fóðurbæti, sem aðkeyptur er.