11.05.1949
Efri deild: 103. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í C-deild Alþingistíðinda. (4160)

201. mál, innflutningur búfjár

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. 1. þm. N-M. fyrir hinn fróðlega fyrirlestur hans. Þótt mér sé ekki allt ljóst, þá verður ekki deilt um, að hann hafi sýnt, að frv. þetta er flutt af vanþekkingu og gersamlega að ástæðulausu. Og nú vil ég spyrja hæstv. landbrh., þar sem við vitum, að hv. 1. þm. N-M. hefur allra manna bezt vit á þessu og er þar ráðunautur fyrir bæði bændur og Alþ.: Hvaða afglapar hafa tælt hann til að flytja inn í þ. þessa vitleysu? Og þarf að láta fara fram rannsókn á því, hvaða menn hafi samið þennan óskapnað. Ég vil líka spyrja hv. 1. þm. N-M., því að hann sagði, að auðvelt væri að koma við sóttvörnum, hvað í því felist, að karakúlpestin kom upp. Var það vegna þess, að nægrar varúðar var eigi gætt? Hefði ella verið unnt að fyrirbyggja sjúkdóminn? Hverjir áttu hér sök á?

Aðalatriðið er þó, að upplýst verður að fá, hvers vegna hæstv. ráðh. hefur látið flytja þetta frv.