11.05.1949
Efri deild: 103. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í C-deild Alþingistíðinda. (4161)

201. mál, innflutningur búfjár

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti: Það hafa verið bornar upp við mig nokkrar samvizkuspurningar, sem ég vil nú reyna að svara. Skal ég þó geta þess fyrst, að hér er eigi um nýmæli að ræða. Það er misskilningur hjá hv. 1. þm. N-M., því að l. þessa efnis voru samþ. á síðasta þ., og þá var málið útdispúterað. (GJ: Og þá lagði hv. þm. til, að þau yrðu samþ.) Málið var afgr. frá búnaðarþingi með beiðni til stj. að fá þessi l., vegna þess að meiri hl. fulltrúanna væri með því. Í dag getur stj. því flutt inn þessa gripi. Hér er aðeins farið fram á það, að öðrum aðilum, sem hafa áhuga á og getu til, sé heimilt að flytja inn nautgripi eða sæði úr nautum til kynbóta undir sama eftirliti og ríkisfyrirtæki eru. Er farið fram á að létta fjárhagsbyrðum af ríkinu og ekkert annað. Hitt málið er útrætt, að heimilt sé að gera þessar tilraunir. Eina nýmælið í frv. er það, að heimilað sé öðrum aðilum, en ríkinu, að kosta þetta, en ekkert er dregið úr áskildu eftirliti. Þennan misskilning vil ég leiðrétta.

Hv. 1. þm. N-M. hélt mjög fræðilegan fyrirlestur, og hef ég ekki þá þekkingu til að bera, að þar sé ég dómbær. Hitt er mér kunnugt um, að margir álíta, að hér séu einmitt mjög góð skilyrði fyrir hinn erlenda holdastofn, sem er harðgerður og hefur gengið úti í Ameríku í hörðum vetrum flest ár, þótt hann þurfi stundum hey, og er hann alinn upp eingöngu sem holdafé og álitinn geta þrifizt ágætlega í íslenzkum beitilöndum. Nú hefur mönnum ekki komið til hugað að leggja niður sauðfjárræktina, heldur að hross geti orðið kjötframleiðslustofn og hægt verði að nota meginhluta þeirra til slátrunar, þar eð framleiðsla hesta virðist vera orðin úrelt þar, sem hætt er að nota þá til dráttar, reiðar og áburðar. Nú hefur mönnum dottið í hug að láta útigöngunaut koma í staðinn, sem hafa betri eiginleika sem kjötdýr. Fjöldi manna hefur trú á þessu, og tilgangurinn með þessum tilraunum er að vita, hvort eigi sé unnt að fá erlent holdakyn til að taka við gresju íslenzka hagans. Hins vegar er ekki tilgangurinn að útrýma sauðfjárrækt.

Um einstök atriði hjá hv. 1. þm. N-M. vil ég fara nokkrum orðum. Hann ræddi um, að gert væri ráð fyrir að flytja eingöngu inn sæði. En bent hefur verið á af hinum fróðasta manni í búfjársjúkdómum, Páli Pálssyni dýralækni, að öruggara væri að flytja inn nýborna kálfa. Því var horfið frá því að binda eingöngu við sæðisflutninga. Má vel vera rétt, að vissara væri að geta þess í l., að séu kálfar fluttir inn, þá væru til undanþágur frá 6 vikna sóttkvínni. Þótt ég sjái nú ekki ástæðu til þessa, má það vel vera sanngjarnt. Hv. þm. minntist á sóttvarnarstöð, að nauðsynlegt væri, ef þetta yrði samþ., að taka skýrt fram, að rikið hefði aðgang að henni fyrir sig. Ég held, að þetta sé nú öruggt, því að svo segir í 2. gr. frv., 2. mgr.: „Á meðan ríkið hefur ekki reist sérstaka sóttvarnarstöð, skal sóttvarnarstöð sú, er hér greinir, taka að sér hlutverk hennar samkvæmt samningi við ríkisstjórnina.“ Þar er lögð skylda á, að aðili taki að sér þetta hlutverk, um leið og það er gert að skyldu að koma stöðinni upp. Hægurinn er hjá fyrir ríkisstj. að taka upp og starfrækja sóttvarnarstöð, en með þessu atriði gæti málið verið leyst án þess, að ríkið þyrfti miklu til að kosta. Ég get, þótt ég hafi eigi mikla þekkingu til að bera, verið sammála hv. 1. þm. N-M., að meiri ástæða sé til að gera tilraunir með holdakyn en mjólkurkýr, en margir trúa því, að Jerseykúm verði hentugast að koma hér upp.

Ég hef þá rætt um, hvernig þetta er í pottinn búið. Málið er undirbúið af búnaðarþingi. Þessi stefna er orðin lögfest. En afbrigðið, sem hér um ræðir, er að veita heimild til að létta kostnaðinum af ríkinu. Ég geri ráð fyrir, að Búnaðarfélagið sé á móti ráðunautnum í þessu efni og hann hafi því orðið undir.