25.11.1948
Efri deild: 20. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í C-deild Alþingistíðinda. (4209)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hv. 7. landsk. var að skjótast út rétt í þessu, en hann á sæti í mþn., sem um þessi mál fjallar, og hefði ég viljað heyra frá honum einhverjar upplýsingar.

Hv. flm. vill hér ná samræmi milli einstaklingsrekstrar og hlutafélagsrekstrar. Ég vil benda honum á, að það er hægt að ná þessu samræmi, sem hann talar um, á annan veg, nefnilega með því að taka einhver af andskotans fríðindunum, sem hlutafélögin eru látin hafa. (GJ: Væri ekki ástæða til þess, að forseti vítti svona orðbragð?) Þeim er leyft að draga 20% frá af tekjum sínum, þó að þau hafi ekki nokkurn rekstur, sem talizt geti áhættusamur. Hlutafélög, sem gera ekki annað í bænum en eiga lóðir, fá 20% af tekjum sínum skattfrjálst til að tryggja reksturinn!! Það er hægt að ná þessu með því að afnema eitthvað af svona fríðindum. Ég er sammála flm. í því, að það er komið á misræmi í skattalöggjöfinni milli einstaklingsrekstrar og hlutafélagsrekstrar, því að það er búið að gefa hlutafélögunum alls konar fríðindi. Það er búið að ýta of mikið undir stofnun hlutafélaga, og þess vegna eru þau að draga úr höndum einstaklinga atvinnureksturinn. En hvort við eigum að bæta úr þessu á þann hátt, sem hv. flm. talar um, það er allt annað mál. Ég get fallizt á, að það sé réttmætt að minnka muninn milli hlutafélagsrekstrar annars vegar og einkarekstrar hins vegar með því að taka eitthvað af þeim óheilbrigðu fríðindum, sem hlutafélögin hafa verið látin njóta. Því er ég fullkomlega sammála. Og það, sem mig langar að heyra hjá hv. 7. landsk., er það, hvort mþn. sú, sem nú er að leggja síðustu hönd á frv., sem á að breyta skattal., er ekki inni á þessu, því að það er ljóst, að flm. frv. hefur rétt fyrir sér í því, að bilið, sem nú er að skapast milli einstaklingsrekstrar annars vegar og hlutafélagsrekstrar hins vegar, er of mikið. Það er búið að gefa hlutafélagsrekstrinum fríðindi, sem hann á ekki að hafa og gera það að verkum, að hann er að smábola einkarekstrinum burt. Hér í Rvík hafa myndazt á síðustu árum 72 húsahlutafélög, þar sem ég segi ekki, að fundirnir séu haldnir í hjónarúminu, en hluthafarnir eru ekki aðrir en hjónin og krakkarnir og hlutafélagið er hús, sem þau sjálf búa í og taka af tekjur. En með þessu fæst það að 20% af tekjum hússins leggst skattfrjálst í varasjóð. Þetta eru fríðindi, sem hlutafélögin njóta og ég held öllum komi saman um, að ekki sé vit í að halda, og þess vegna þarf að verða þarna breyting. Hún þarf að gefa svipaða niðurstöðu og hv. flm. ætlast til að fá með þessu frv. En hún verður að gerast á þann hátt að taka dálítið af þeim fríðindum, sem hlutafélögin hafa, þannig að rekstur þeirra verði sambærilegur við rekstur einstaklinga.